Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar fyrir hönd AFSTÖÐU félags fanga á Íslandi.
Í öllum fjölmiðlum þessa dagana er leikaranum Robin Williams vottuð virðing og margir tjá sig um sjálfsmorð og sjálfsmorðshugleiðingar. Þingmenn og fleiri hafa áhyggjur af stöðunni og tjá sig á samfélagsmiðlum um hvað það sé nauðsynlegt að láta vita ef manni líður illa svo hægt sé að hjálpa áður en kemur til þessarar varanlegu lausnar á tímabundnu vandamáli.
En sannleikurinn er sá að við erum með fjöldann allan af þessum einstaklingum, sem enginn hefur áhuga á að aðstoða, í lokuðum fangelsum á Íslandi.
AFSTAÐA, félag fanga á Íslandi, hefur ítrekað gert athugasemdir við stöðu mála í fangelsunum og gagnrýnt forstjóra Fangelsismálstofnunar ríkisins fyrir að gera ekki neitt í þeim. Mjög alvarleg mál hafa komið upp í fangelsunum síðastliðna mánuði og þrátt fyrir það er nánast engin sálgæsla hjá föngum á Íslandi í dag.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálstofnunar, hefur lýst því yfir að ekki verði ráðið í starf sálfræðings sem nú er í barneignarleyfi og að þeir sálfræðingar sem séu í sérverkefnum muni aðeins sinna þeim, en það eru reynslulausnir og kynferðisbrotaflokkur.
Forstjórinn sagði í fjölmiðlum að það væru þrjú stöðugildi sálfræðinga hjá stofnuninni. Hann sagði ekki hvað þeir sálfræðingar væru að gera og gaf í skyn að þeir væru að sinna sálgæslu fanga, sem þeir eru ekki að gera.
Forstjórinn gerði lítið úr þeim sjálfsmorðstilraunum sem fangar gerðu fyrri hluta sumars og útskýrði að þær væru ekki eiginlegar sjálfsmorðstilraunir, þrátt fyrir þann fjölda einstaklinga sem voru vitni að þeim eða hafa rætt við fangana eftir á. AFSTAÐA hefur skrifað greinar um þessi mál og svo virðist sem enginn áhugi sé á þeim fyrr en einhver fangi – já eða Robin Williams – fremur eiginlegt sjálfsmorð.
AFSTAÐA óskar hér með eftir ráðamönnum og öðrum sem áhuga hafa á þessum málum að þeir aðstoði okkur í baráttunni við að koma í veg fyrir eiginlegar og óeiginlegar sjálfsmorðstilraunir fanga áður en það verður of seint!!!