Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Það er aldrei of seint að byrja!

$
0
0

Ef ég hefði verið spurð fyrir ári hvort að ég ætlaði ekki að drífa mig í skóla og mennta mig eitthvað þá hefði ég gefið þvert nei. Ég var algjörlega búin að gefast upp á menntakerfinu á Íslandi og hafði ekki trú á því að ég fengi neitt út úr skóla nema endalaust stress og leiðindi. En á einu ári getur margt breyst og eftir tæpa viku er ég á leið í skóla í fyrsta skipti í mörg ár.

Ég fann skóla sem hentar mínu áhugasviði og get ekki beðið eftir að byrja að vakna klukkan sjö og hafa mig til í skólann, mæta grautmygluð og dauðþreytt í skóla með fullt af fólki sem ég þekki ekki neitt til að innbyrða fullt af nýjum upplýsingum. Ég get heldur ekki beðið eftir að fara að kaupa mér skólatösku, blýanta, strokleður og pennaveski. Raða þessu snyrtilega í skólatöskuna og arka af stað í skólann.

4605043024_c2a7051918_z

Þrátt fyrir að hlakka alveg óstjórnlega til að byrja þá er ég haldin miklum kvíða yfir öllu því sem úrskeiðis gæti farið. Í höfðinu á mér sveima hugsanir eins og „hvað ef ég höndla ekki álagið?“, „en ef ég er búin að missa niður hæfileikann til að læra?“, „hvað get ég gert ef ég er svo haldin óstjórnlegum athyglisbresti?“ og margar aðrar hugsanir sem ég veit þó innst inni að gera ekkert nema draga mig niður.

Ég hef meira að segja gengið svo langt í áhyggjum af því að hugsanlega mistakast að ég eyddi heilli nótt um daginn í að dreyma kennara sem gargaði á mig hvað í andskotanum ég hefði verið að pæla að ákveða að skrá mig.

Sannleikurinn er þrátt fyrir það sá að ég veit ég á eftir að massa þennan skóla! Auðvitað verður erfitt en ég veit að ég mun standa mig og það er sú hugsun sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki brotnað niður í stressi og lokað mig sjálfa inni í herbergi og undir sæng.

Ég er 24 ára að hefja mína menntaskólagöngu ef frá eru taldir nokkrir áfangar sem ég tók í fjarnámi fyrir nokkrum árum. Lengi vel trúði ég því virkilega að ég væri orðin of gömul til að byrja í námi, þvílík og önnur eins vitleysa sem ég sannfærði sjálfa mig um til þess að réttlæta fyrir mér að skólaganga væri af og frá. Því þótt ég sé 24 ára og telji mig alveg hrikalega gamlan nemanda þá er mamma mín komin yfir fertugt og í haust sest hún á skólabekk í fyrsta skipti síðan hún kláraði grunnskóla og ég gæti ekki verið stoltari af henni. Hún er að hefja nám sem hana hefur dreymt um í þó nokkuð mörg ár en þetta árið ákvað hún að bíta á jaxlinn og gera þetta bara.

Ég skrifa þennan pistil í von um að allir þeir sem sitja heima hjá sér og dreymir um að fara í skóla en telja of seint að byrja, fái þann kjark og það þor að láta slag standa og skrá sig í það nám sem þá dreymir um að stunda.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283