Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hraunbæjarmálið: Stiklað á stóru

$
0
0

Sævar Rafn Jónasson lét lífið að morgni 2. desember 2013 eftir skotbardaga við lögreglu. Dauði Sævars markaði tímamót í Íslandssögunni: Þetta var fyrsta skiptið sem lögreglan beitti skotvopnum í aðgerðum sínum og, það sem meira er, fyrsta dauðsfallið af þeirra völdum. Ríkissaksóknari fór með rannsókn málsins allt frá upphafi og birti hún greinargerð um niðurstöður sínar þann 13. júní síðastliðinn. Hér á eftir verður stiklað á stóru um atburðarrás þessa kvölds eins og þeim er lýst í greinargerð ríkissaksóknara.

Dularfulli hermaðurinn tilkynnir skothvellinn sem ekki var

Klukkan er 02:12: Ónafngreindur nágranni Sævars hringir í lögregluna klukkan 02:12 að morgni 2. desember vegna tónlistarhávaða.

Þegar tvo lögregluþjóna ber að segist nágranninn hafa heyrt skothvell frá íbúðinni sem hann segir að tilheyri manni að nafni M. Þar á eftir hafi granninn heyrt „hnjask á gólfi“ og síðan ekki önnur hljóð en tónlist. Vegna þessara hljóða ályktaði nágranninn að M þessi hefði fyrirfarið sér. Máli sínu til stuðnings tekur maðurinn svo fram að hann hafi gegnt herþjónustu og fullvissar lögregluna að um skothvell hafi verið að ræða.

Þó kemur fram í greinargerð ríkissaksóknara að Sævar hafði ekki skotið úr byssu sinni þegar lögreglu ber að garði. Greinargerð ríkissaksóknara tekur hvergi fram hvers vegna dularfulli hermaðurinn gaf lögreglunni upp rangt nafn á nágranna sínum né heldur hvers vegna hann ímyndaði sér skothvell heyrast frá næstu íbúð.

Lögregla kallar til sérsveit og lásasmið

Í ljósi þessara (röngu og óstaðfestu) upplýsinga kallar lögreglan til sérsveitarmenn sér til aðstoðar og þeir ákveða að vopnbúast skammbyssum slíðruðum á læri. Þar að auki fór einn sérsveitarmaður og sótti skotskýlingarskjöld úr bílnum áður en gengið var að íbúð Sævars. M þessum er flett upp í málaskrá lögreglu (LÖKE) en þar er ekkert um hann að finna. Lögregla knýr dyra hjá Sævari og kallar til hans en fær ekkert svar. Lögreglan ályktar því að dularfulli hermaðurinn hafi haft rétt fyrir sér, að maður að nafni M hafi fyrirfarið sér.

Þá kallar lögreglan til óvarinn lásasmið til þess að brjótast inn í íbúð Sævars án þess að upplýsa hann um mögulegt hættuástand. Þegar lásasmiðurinn hafði lokið vinnu sinni ýtti sérsveitin lásasmiðnum til hliðar og ætlaði sér inn í íbúð Sævars. Fer þar fremstur sérsveitarmaðurinn með skotskýlingarskjöldinn. Hann kemst þó ekki yfir þröskuldinn því Sævar skýtur á hann með haglabyssu og hæfir skotskýlingarskjöldinn. Sérsveitarmaðurinn dettur niður stigaganginn og lögreglumennirnir á vettvangi (sem voru fimm talsins þegar hingað er komið við sögu) hörfa í allar áttir.

Klukkan er u.þ.b. 03:35:  Þetta er í fyrsta sinn sem Sævar skýtur að lögreglu.

Eftir skotið kalla sérsveitarmennirnir ítrekað á Sævar með röngu nafni. Ljóst er að þeir vissu ekki einu sinni hvaða ranga nafni bæri að kalla Sævar þar sem þeir kalla hann þremur röngum nöfnum (M1, M2 og B) þar til lásasmiðurinn leiðréttir lögregluna og segir þeim rétt nafn Sævars.

Lögreglan gerir þó ekkert með þessar nýju upplýsingar sem lásasmiðurinn færði þeim á silfurfati. Greinargerðin segir frá því að hefði lögreglan flett Sævari upp í LÖKE þá hefði hún fengið þær upplýsingar að hann hafi átt við alvarleg geðræn vandamál að stríða og hefði megna óbeit á lögreglunni. Í LÖKE var einnig hægt að sjá „ætluð vopnalagabrot og hótanir af hálfu S í garð lögreglu og má ætla að lögregla hefði nálgast S með öðrum hætti en þeir gerðu ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir í upphafi“.

Ríkissaksóknari sér ekkert athugavert við það að lögreglan hafi ekki vitað deili á manninum hvers íbúð þeir reyndu að brjótast inn í. Ríkissaksóknari sér heldur ekkert athugavert við það að lögreglan hafi ekki flett upp réttum manni í LÖKE þegar þeim mátti vera ljóst að dularfulli hermaðurinn hafði gefið þeim rangar upplýsingar.

Lögreglan „reyndi“ að hafa samskipti við Sævar

Ljóst er að frá því að lögregla kemur á vettvang þar til hún lýkur störfum sínum reynir hún ítrekað að ná sambandi við Sævar með því að kalla til hans í gegnum lokaðar dyrnar að íbúð hans. Röngum nöfnum fyrst og síðar hinu rétta en ætíð, að því er virðist, í gegnum þá háværu tónlist sem kvörtun nágrannans byggðist upphaflega á. Árangurslaust. Lögreglan tekur hins vegar ekki til þess einfalda og auðframkvæmanlega ráðs að taka rafmagnið af íbúð Sævars til að betur mætti heyra í honum og hann í þeim. Þessi möguleiki er ekki einu sinni tekinn til skoðunar í greinargerð ríkissaksóknara.

Klukkan er 04:09:36 – 04:15:55: Lögreglan hringir í Sævar

Þá tekur ríkissaksóknari það fram að lögreglan hafi reynt í tæpar sex mínútur að hringja í Sævar á þessum sjö klukkustundum sem umsátrið stóð. Ríkissaksóknari er sammála lögreglu að eftir þessar sex mínútur hafi þessi samskiptaleið verið fullreynd. Þá eru þessar sex mínútur fullkomlega ásættanleg skýring, að mati ríkissaksóknara, á því að ekki hafi verið kallaðir til sérþjálfaðir samningamenn sérsveitar sem þó voru á staðnum.

Lögreglan hefur gasárás á heimili Sævars

Klukkan er 05:50:  Lögreglan tekur þá ákvörðun að fullreynt sé að ná til Sævars, að fólkinu sem búi í kringum hann stafi hætta af honum og því sé ekkert annað til ráða en að skjóta inn til hans gasi til þess að svæla hann út.

Lögreglan tekur til þess ráðs að skjóta 36 gasflaugum sem hver um sig innihélt 0,86 grömm af CS efni (sem er táragas með virka efninu o-chlorobenzylidene malononitrile) gegnum rúður inn í íbúð Sævars í þeim tilgangi að yfirbuga hann og fá hann til þess að gefast upp og koma út úr íbúðinni.

Klukkan er 05:55: Gasárás lögreglunar hefst (tæpum þremur klukkustundum eftir að lásasmiðurinn upplýsti lögreglu um rétt nafn Sævars) og skjóta þeir flaugunum inn með haglabyssu.

Gasárásin hefur ekki tilætluð áhrif á Sævar sem heldur áfram að ganga um íbúðina.

Klukkan 06:01: Sævar Skýtur úr haglabyssunni sinni út um eldhúsgluggann að lögreglumönnunum sem beittu gasvopnunum og hann skýtur aftur að þeim fimm mínútum síðar. Einn lögreglumannanna fær högl í hendi.

Þegar hér er komið við sögu er ákveðið að skjóta stærri gasflaug sem innihélt 3,3 grömm af CS efni inn til Sævars. Það hafði heldur ekki tilætluð áhrif þar sem sérsveitin fær tilkynningu frá nágranna sem sá vel inn í svefnherbergi Sævars þar sem hann sat með byssuna í höndum sér og beindi hlaupinu upp í loft, enn með fullri rænu að því er best varð séð. Þetta gerist tæpum klukkutíma eftir að lögreglan hóf gasárásina eða kl. 06:38. Mínútu síðar ákveður lögreglan að skjóta gasflaug sem innihélt 12 grömm af CS efni inn um svefnherbergisgluggann.

Sérsveitin ræðst inn til Sævars í annað sinn

Úr greinargerð ríkissaksóknara:

„Samkvæmt framburði aðgerðarstjórnanda og vettvangsstjórnanda var tekin ákvörðun um að fara inn í íbúð S nokkrum mínútum eftir að duftgashylkinu var skotið inn í svefnherbergi íbúðarinnar, þar sem S hafi ekki komið sjálfur út úr íbúðinni og hvorki nágranni sem sá inn í íbúð S né sjónpóstur höfðu orðið varir við hreyfingu. Voru aðstæður metnar sem svo að nauðsynlegt væri að fara inn í íbúðina þar sem miklu magni af gasi hafi verið skotið inn í rýmið. Fyrirmæli hafi því verið gefin um að brjóta upp hurðina að íbúðinni til þess að bjarga S úr gasmettuninni og eftir atvikum að skora á hann að gefast upp og yfirbuga.“

Klukkan  er 06:42: Fjórir sérsveitarmenn eru komnir inn í íbúð Sævars.

Klukkan er 06:42: Sævar skýtur 3 skotum að sérsveitarmönnunum og þeir svara í sömu mynt.

Ætla má að sérsveitarmennirnir hafi farið inn krjúpandi og lokað hurðinni á eftir sér, þar á eftir hafi þeir svo kallað „vopnuð lögregla“ en við það skýtur Sævar á þá úr svefnherberginu. Sérsveitarmennirnir töldu sér ekki fært að bakka út úr íbúðinni og héldu þeir því inn í íbúðina og skutu á móti. Sævar skaut þrisvar á sérsveitarmennina og hæfði eitt skotið höfuð og hjálm eins sérsveitarmannsins sem slasaðist lítillega. Öll fóru skotin í gegnum útidyrahurð Sævars sem liggur ská á móti svefnherberginu. Þá er víst að Sævar hefur verið staðsettur á rúmi sínu og skotið þaðan að sérsveitarmönnunum. Sérsveitarmennirnir halda ótrauðir áfram og einn þeirra skaut alls fjórum sinnum á Sævar en tvö skotanna hæfðu hann í brjóst og nára. Sævar dó stuttu síðar.

Sérsveitarmennirnir sem um ræðir voru óneitanlega í bráðri lífshættu þegar þeir tókust á við mann vopnaðan haglabyssu. Haglabyssur eru stórhættuleg vopn sem valda gríðarlegu líkamstjóni og er hlífðarbúnaður oft til lítils til þess að verjast slíkum skotum. Því verður þar af leiðandi ekki haldið fram hér að sérsveitarmennirnir hafi átt að bregðast við á annan hátt en þeir gerðu eftir að þeir voru komnir inn í íbúð Sævars á annað borð og hann farinn að skjóta að þeim.

Því fór sem fór og ég skal síðust kvenna gagnrýna þá sérsveitarmenn sem svöruðu ítrekuðum haglabyssuskotum Sævars í sömu mynt. Ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við þá skipulagningu og framkvæmd á aðgerðum lögreglu að búa svo um hnútana að þeir sem inn réðust áttu ekki annarra kosta völ en að skjóta Sævar og drepa.

Undarlegar niðurstöður ríkissaksóknara

Sævar skaut einungis að lögreglu þegar lögreglan braust inn til hans eða þegar hún var að skjóta inn til hans gífurlegu magni af gasi. Ljóst er að Sævar hafði ekki skotið úr byssunni áður en lögreglan braust inn til hans með hjálp lásasmiðsins.  Spurningar vakna því um hvort ekki hefði verið hægt að nálgast Sævar á annan hátt en raun bar vitni. Ríkissakóknari kemst jú að þeirri niðurstöðu að lögregla hefði nálgast Sævar á allt annan hátt hefði hún vitað um þau miklu geðrænu veikindi sem hann átti við að stríða. Þá vantar allan rökstuðning frá ríkissaksóknara á því hvers vegna þau afglöp að vita ekki um hvaða mann var að ræða teljast ekki afglöp.

Ríkissaksóknari kemst að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni að lögregla hafi ekki gerst sek um refsiverða háttsemi við framkvæmd starfa sinna þann 2. desember 2013. Að mati höfundar rökstyður greinargerðin þó ekki þessa niðurstöðu með fullnægjandi hætti. Þá sárvantar í greinargerð ríkissaksóknara gaumgæfilegt mat á því hvort aðgerðir lögreglu þetta kvöld hafi staðist ákvæði 2. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem kveður á um rétt allra til lífs og segir fyrir um hvenær lögreglan getur löglega beitt vopnavaldi gegn vopnuðum einstaklingum.

Framhaldspistill mun því setja þessa atburði í samhengi við 2. grein MSE og útskýra hvernig aðgerðir lögreglu stönguðust mögulega á við rétt Sævars til lífs.

 

 

Í millitíðinni er áhugasömum bent á ítarlegri umfjöllun hér að neðan:

Ítarlega greiningu á atburðum þann 2. desember eins og þeim er lýst í greinargerð ríkissaksóknara sem og rökstuðningur fyrir því hvers vegna rökstuðningur ríkissaksóknara í greinargerð heldur ekki vatni er að finna í Hraunbæjarannálunum:

Hraunbæjarannáll: Dularfulli hermaðurinn

Hraunbæjarannáll: Lífsháski lásasmiðsins

Hraunbæjarannáll: Drápið

Frekari upplýsingar um rannsókn ríkissaksóknara sem og aðdraganda umsátursins við Hraunbæ 20 má svo finna í öðrum pistlum höfundar:

Fyrsti pistill höfundar birtist áður en greinargerð ríkissaksóknara kom út og fjallar um að framkvæmd rannsóknarinnar á dauða Sævars hafi verið ólögleg.

Annar pistill höfundar innihélt opið bréf til innanríkisráðherra um hvernig embætti hennar braut á rétti Sævars til lífs með aðgerðarleysi fram að atburðunum 2. desember 2013.

Þriðji pistill höfundar sneri að tregðu ríkissaksóknara að veita fjölskyldu Sævars aðgang að rannsóknargögnum sínum eins og lög segja fyrir um.

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283