Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Reynslusaga af sófahlaupi (Couchsurfing)

$
0
0

Þórgnýr Thoroddsen skrifar.

Þórgnýr Thoroddsen.

Þórgnýr Thoroddsen.


Hvernig efla skal trúna á mannkynið í einu einföldu skrefi: Reynslusaga af sófahlaupi (Couchsurfing)

Árið 2007 fórum við Rúna Vala, maki minn, til Costa Rica ásamt fleirum úr hennar fjölskyldu. Á leiðinni út lentum við í heilmiklu veseni með hótelgistingu í New York þegar við millilentum þar (að verðinu ógleymdu) og í kjölfarið ákváðum við að leita annarra leiða á heimleiðinni. Vinur okkar hér heima hafði sagt okkur af Couchsurfing og við vissum ekki betur en hann væri stórvirkur í þeim efnum, sem reyndist þó ekki vera rétt þegar betur var að gáð. Við könnuðum þá möguleikana á að finna okkur húsaskjól á þeim vettvangi.

Og viti menn! Fyrr en varði áttum við heimboð sem við höfnuðum að lokum kurteislega þar sem við fengum heimboð frá íslenskri kunningkonu okkar. Þegar heim var komið fannst okkur þó eins og við skulduðum veröldinni smá, bara smá… því góðhjartaður maður í New York hafði jú verið tilbúinn að taka á móti okkur um miðja nótt …

Fyrstu gestir okkar voru systur frá San Francisco sem báru eftirnafnið Sacher. Önnur þeirra var menntaður bakari en þær voru þó ekkert tengdar hinum víðfræga Sacher sem bjó til tertur. Þetta var þeirra fyrsta skipti sem gestir, þetta voru okkar fyrstu gestir, þetta var fullkomið.

Svo við héldum áfram, og áfram, og áfram, og í dag, sjö árum síðar telst okkur til að við höfum hýst að lágmarki 350 manns.

Við lítum ekki svo á að við séum endilega svona gestrisin gestrisninnar vegna. Við hýsum ferðalanga vegna þess að okkur þykir það alveg óendanlega skemmtilegt að bjóða fólki heim til okkar, spjalla, kynnast, deila máltíð með þeim. Okkur þykir betra að lýsa þessu sem svo að fá ferðalanga í heimsendingu.

couchsurfing

Á couchsurfing.org má finna ágætis upplýsingar hvernig á að byrja. Ágætt er að byrja á því að hýsa nokkra gesti áður en ætlunin er að ferðast á þennan hátt, enda er mun auðveldara að finna sér góðan gestgjafa ef maður hefur aflað sér ágætra umsagna fyrst.

Ef couchsurfing vekur áhuga hjá þér þá ertu að öllum líkindum rétta týpan í þetta, þú ræður alfarið sjálf(ur) hve mikið þú hýsir og þá hverja þú hýsir. Svo eru líka sumir sem vilja bara hitta fólk fyrir kaffihúsarölt!

Við Rúna Vala höfum, sem fyrr segir, stundað þetta í sjö ár og höfum á þeim tíma hýst allskonar fólk. Ungt fólk, eldri borgara, fjölskyldur, fólk sem talar litla ensku, fólk sem við erum ósammála um margt, fólk sem er svo framandi að það er með ólíkindum. En allt á þetta fólk það sameiginlegt að njóta samvista við aðra, það kann að meta áhugaverðar umræður og að deila máltíð með öðrum.

Við tókum okkur smá hlé þegar við vorum nýbúin að koma lítilli manneskju í heiminn en gátum ekki slitið okkur lengi frá málinu. Sú stutta, þriggja og hálfs árs þekkir ekki annað en að það gisti reglulega hjá okkur fólk og deilir sinni veröld með þeim jafnmikið og við. Við höfum jafnframt farið með hana á flakk og gist hjá fólki í útlöndum með góðum árangri, fyrir þeirri stuttu er fátt eðlilegra en að gista í húsum frekar en hótelum. Það fer varla á milli mála að þessi ferðamáti er bæði ódýrari og skemmtilegri. Í okkar huga eru hótelin í raun leiðinlegri valkosturinn sem við grípum til í neyð.

Og vitið þið? Það mun koma ykkur á óvart hvað veröldin er full af ótrúlega góðu fólki. Við höfum eignast ógrynnin öll af góðum vinum um víða veröld sem munu opnar dyrnar fyrir okkur þegar kallið kemur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283