Á afmæli Jesúbarnsins er rétt að huga að því hvernig hann var klæddur blessaður, eftir að hafa vaxið upp úr reifunum. Þá þarf, eins og oft í upphafi, að skoða endi sögunnar um ævi Jesú:
Í Jóhannesarguðspjalli 19:23 segir um krossfestingu Jesú, í nýjustu biblíuþýðingunni íslensku:
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Í Guðbrandsbiblíu, prentaðri á Hólum 1584, er kyrtli Krists hins vegar lýst sem prjónuðum: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.‟
Þessi klausa í Guðbrandsbiblíu er mjög merkileg því þetta er elsta prentaða dæmið um orðið prjónaður (prjón) á íslensku og veigamikil rök fyrir því að Íslendingar hafi lært listina að prjóna eftir miðja sextándu öld. Oddur Gottskálksson segir kyrtilinn aftur á móti ofinn, í Nýja testamentisþýðingu sinni sem prentuð var í Hróarskeldu 1540: „En kyrtillinn var eigi saumaður, heldur frá ofanverðu allur ofinn.“ Í gríska textanum er notað orðið ofinn sem og í latínuþýðingum en raunar var í hvorugu málinu til orðið prjónaður því prjón þekktist ekki í Evrópu fyrr en á 12.-13. öld, að talið er.
Fleiri heimildir en Guðbrandsbiblía nefna að kyrtill Jesú hafi verið prjónaður enda nærtækara að hugsa sér saumlausa flík prjónaða en ofna. Má nefna skandínavískar heimildir, s.s. danska bók um bernsku Krists, frá 1508, Jesu Barndoms Bog, þar sem segir að María gerði syni sínum skyrtu með að „knøtte garn offuer stocke“ (stocke = prjónar); eða danska þýðingu á Húspostillu Lúthers (útg. 1564) þar sem segir: „Kiortelen, efterdi hand vaar icke syt, men stockebunden“.
Og svo sem getið var í síðasta pistli eru til málverk allt frá 14. öld sem sýna Maríu mey vera að prjóna kyrtil á Jesú lítinn. Skv. þjóðsögnum óx kyrtillinn með Jesú og því er María á málverkunum að prjóna sama kyrtilinn og hann bar við krossfestinguna. Á hinn bóginn eru engar heimildir um að prjón hafi þekkst í heiminum um það leyti sem Jesú var krossfestur.
Hvað varð svo um kyrtilinn sem María prjónaði? Eða ofna saumlausa kyrtilinn?
Í rauninni þarf ekki að koma á óvart með svo magnaðan og frægan kyrtil að nokkur eintök af honum hafa varðveist, í mismunandi góðu standi og að vísu ofin en ekki prjónuð. Og að sjálfsögðu fylgja ýmis kraftaverk því að berja kyrtilinn augum eða snerta helgiskrín með bútum úr honum.
Kyrtillinn í Dómkirkjunni í Trier, Þýskalandi, er langfrægasta eintakið. Sagt er að Helena, móðir Konstantíns mikla, hafi fundið kyrtilinn í Landinu helga og sent hann til Trier, á sínum tíma. Þessi kyrtill hefur verið sýndur opinberlega öðru hvoru allt frá 1512, síðasta sýning var í apríl 2012. Kyrtillinn hefur verið rannsakaður en ekki aldursgreindur með neinni vissu. Engar heimildir eldri en um 1200 geta hans. Myndin er af sýningu kyrtilsins vorið 2012.
Annað eintak af kyrtlinum hans Jesú er varðveitt í basilíkunni í Argenteuil í Frakklandi. Sá kyrtill barst Karlamagnúsi keisara að gjöf um 800 en dóttir Karlamagnúsar varð einmitt abbadís í klaustrinu í Argenteuil. Elsta heimild um þann kyrtil, frá 1156, segir hann vera bernskukyrtil Jesú og staðfestir þannig söguna um að kyrtillinn sem María prjónaði – eða óf – hafi vaxið með honum. Þeir sem eru sannfærðir um að kyrtillinn í Argenteuil sé hinn eini sanni telja að kyrtillinn í Trier sé bara ytri kyrtill sem Jesú hafi klæðst seint á ævinni. Því miður er franski kyrtillinn ekki lengur heill heldur einungis varðveittir fjórir bútar út honum. Hann, eða bútarnir, var síðast sýndur árið 1900.
Nokkrar pjötlur úr kyrtli Jesú bárust grísk-orþódoxu kirkjunni í Rússlandi, Georgíu og víðar. Þeirra frægastar eru pjatlan í Dómkirkju Krists í Moskvu, á stærð við fingurnögl, og pjatlan í Mtskheta í Georgíu. Þær eru sýndar árlega við hátíðlegar athafnir (eða öllu heldur gefst almenningi kostur á að snerta helgiskrínin sem pjötlurnar eru geymdar í).
Þeim sem hafa áhuga á að lesa meira um kyrtilinn hans Jesú er bent á:
Seamless robe of Jesus, Wikipedia
Der Heilige Rock, Bistum-Trier
The Lord’s Robe in Russia, Pravmir.com
The Placing of the Honorable Robe of the Lord at Moscow, Orthodox Church in America