Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Er verið að refsa fólki fyrir að eiga börn?

$
0
0

Opið bréf til Velferðaráðuneytisins.

Hæstvirtir ráðherrar velferðarmála,

Mig langar óskaplega til þess að fá að ræða við ykkur tiltekið mál – fæðingarorlof- og fæðingarorlofsgreiðslur, en ég eignaðist mitt fjórða barn í júní. Ég hef lagt mig alla fram, en það er alveg sama hve oft ég reikna dæmið, það bara vill ekki ganga upp hjá mér. Þess ber þó að geta að stærðfræði hefur aldrei verið mín sterka hlið, en ég hef heldur ekki enn hitt þann einstakling sem er í fæðingarorlofi og með peningamálin í lagi.

Ég veit að ég þarf ekki að kynna ykkur fyrirkomulagið – að foreldrar fái sameiginlega níu mánuði til þess að koma nýjum einstaklingi á legg, þar sem móðirin á þrjá mánuði, faðirinn þrjá og þau saman þrjá sem deila má að vild. Greiðslurnar nema aldrei meira en 80% af fyrri launum og svo er ákveðið þak á hámarksgreiðslum ef um hálaunamanneskju er að ræða.

Gott og vel. Þetta eru breyturnar í dæminu. Ef við byrjum bara á því að hugsa um tímarammann. Níu mánuðir. Hér á Reyðarfirði er ekki starfandi dagmóðir, en við erum hins vegar svo heppin að börnin okkar komast inn i leikskólann um eins árs aldurinn. Þarna myndast strax þriggja mánaða gat, fyrir utan að mér skilst að fullt verð hjá dagmóður sé það hátt að tekjurnar þurfi að vera ansi góðar til þess að það hreinlega borgi sig að fara að vinna.

Til þess að þurfa ekki að taka barnið með sér í vinnuna er því í flestum tilfellum nauðsynlegt að deila greiðslunum niður á fleiri mánuði en þessa níu. Hvað gerist þá? Jú, prósentutala launa lækkar enn frekar.
Rekstur heimilis á Íslandi í dag er ekkert grín, burt séð frá fæðingarorlofi. Húsnæðis- og leiguverð er svimandi, svo virðist sem allt sé gullhúðað í matarkörfunni, auk þess sem útgjöldin sem tínast til virðast botnlaus. Nú vil ég þó taka það fram að ég og mín fjölskylda „lifum ekki hátt“ alla jafna. Við eigum ekki húsnæði heldur leigjum allt of litla íbúð, en þröngt mega jú sáttir sitja. Við förum ekki til útlanda (þar sem við höfum ekki efni á því) og erum ekki að kaupa okkur dýr húsgögn eða föt. Matarkarfan inniheldur hvorki nautalundir né kavíar, aðeins það nauðsynlegasta.

Það er verulega þreytandi að ná ekki endum saman ár eftir ár – en í fæðingarorlofinu tekur steininn alveg úr. Gersamlega. Mig langar svo óskaplega að vita hvernig þetta er hugsað og hverjum datt í hug að það væri frábær hugmynd að fjölskylda tæki á sig verulega tekjuskerðingu með stækkandi fjölskyldu og þar af leiðandi auknum útgjöldum? Þetta er mér algerlega hulin ráðgáta.

Það er einn punktur í þessu sem mér finnst líka mjög alvarlegur. Hluti kvenna upplifir depurð eftir barnsfæðingu, sem auðveldlega getur þróast í fæðingaþunglyndi. Eins dásamlegt og nýja hlutverkið er reynist fjölmörgum það erfitt, en hormónarnir okkar fara víst á flipp við þetta allt saman. Fyrst við erum á persónulegu nótununum get ég alveg sagt ykkur að ég finn fyrir þessum tilfinningum núna, eins rífandi stolt og hamingjusöm ég er með barnið mitt. Ég get líka viðurkennt að það gerir ekkert fyrir mig eða mína andlegu líðan að vera auk þess að drulla á mig af peningaáhyggjum alla daga.

Facebook og aðrir samfélagsmiðlar hafa bæði opnað og minnkað heiminn. Daglega fylgjumst við með ættingjum og vinum út um allan heim. Ég horfi öfundaraugum á vini mína í nágrannalöndunum, þar sem fólki er borgað fyrir að vera heima með börnin sín, allt upp í þrjú ár. Það er hvetjandi umhverfi til barneigna og gjörningurinn gerlegur. Ég er kannski ekki að fara fram á þriggja ára orlof á fullum launum, en kerfið hér á landi er til skammar. Er verið að refsa fólki fyrir að eiga börn? Nei, ég bara spyr.

Þið kannski útskýrið þetta fyrir mér þegar við hittumst. Komið kannski með eitthvað með kaffinu, ég hef því miður ekki efni á því.

Sjáumst.

P.s. Ekki er það nú heldur svo gott að manni leyfist nokkur sjálfsbjargarviðleytni sem gæti falið í sér að að taka að sér einhverja verktakavinnu og þá hugsanlega lifa af. Nei, þá verður allt vitlaust í kerfinu.

P.p.s. Ef einhver veit um smá svarta vinnu handa mér sem hægt er að sinna með ungabarni, þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram. Svona áður en ég þarf að fara að selja úr mér líffæri. Nú eða sjálfa mig.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283