Fyrir fimm árum var ég eins föst inni í þægindahringnum mínum og ég held að hægt sé að vera. Mér fannst best að vera heima hjá mér og þá helst uppí rúmi. Ég bjó ein og þurfti því að sinna innkaupum en það gat ég ekki gert ein. Ástæðan fyrir því var að ég þekkti ekki fólkið í búðinni.
Ég eldaði mér alltaf sama matinn því ég þorði ekki að prófa neitt nýtt. Ég þorði ekki að fara í skóla af því ég þyrfti að vera í tímum með fólki sem ég þekkti ekki. Ég fór helst ekki í strætó nema eiga batterí í mp3 spilarann því þá gat ég sett tónlist í eyrun, lokað augunum og þá átti ég ekki á hættu að einhver myndi yrða á mig.
Á þessum tíma hefði mér ekki dottið í hug að flytja út á land af því allt sem ég „þurfti“ var í bænum.
Þessi sjúklega hegðun leiddi til þess að geðdeildin skaffaði mér heimahjúkrun. Hjúkrunarfræðingur var þá sendur heim til mín einu sinni til tvisvar í viku til að hjálpa mér að gera hluti sem ég virtist ekki ráða við. Hún fór með mér í búð, að sækja lyfin mín og reyndi eftir fremsta megni að gera mig félagsfæra með því að fara með mig á kaffihús, á söfn eða einfaldlega að labba um í Kringlunni með það að markmiði að ég fengi ekki kvíðakast við það eitt að ókunnug manneskja myndi horfa á mig.
Einn daginn var eins og ég væri lostin eldingu. Ég áttaði mig á því að ef ég héldi áfram þessari hegðun gæti ég aldrei gert það sem mig langaði til. Ég gæti ekki farið á kaffihús þegar mig langaði til, ég gæti aldrei leikið (en það er draumur sem ég hef átt síðan ég man eftir mér) og ég myndi aldrei eignast mann því það krefðist þess að kynnast nýju fólki.
Ég get ómögulega munað hver sagði fyrst við mig að galdurinn væri að stíga smáskref út fyrir þægindahringinn á hverjum degi. Skrefin þyrftu ekki að vera stór, þau mættu þess vegna vera pínulítil og ekki sjáanleg neinum öðrum en mér sjálfri.
Þessi aðferð hræddi mig næstum jafn mikið og lífið sjálft en innst inni vissi ég að þetta væri skrefið sem ég þyrfti að stíga í átt að markmiðum mínum.
Skrefin voru svo lítil þegar ég byrjaði. Ég man þegar ég fór fyrst út í búð ein, þann dag hef ég örugglega verið stoltasti Íslendingur í heiminum. Fyrsta skiptið sem ég fór ein á kaffihús og pantaði mér kaffi var skelfilegt. Alla leiðina á kaffihúsið planaði ég hvað ég ætti að segja, gera og hvernig ég ætti að hegða mér en þegar á kaffihúsið kom náði ég rétt að stama upp úr mér að ég ætlaði að fá kaffi og svo sat ég skelfingu lostin við borðið mitt og starði á mynstrið í borðplötunni. Ég þorði ekki að líta upp af ótta við að mæta augnaráði einhvers.
Næsta ferð á kaffihús var miklu léttari og með tímanum náði ég góðri tækni við að versla ein. Eins erfitt og þetta reyndist mér þá fann ég að þetta virkaði og því hélt ég ótrauð áfram.
Eitt af því sem ég var logandi hrædd við voru metalhausar, þannig ég keypti mér miða á Eistnaflug þrátt fyrir að vera ekki einu sinni með far aftur suður. Margir túlkuðu þetta sem skipulagsleysi og hvatvísi en í mínum huga hafði farleysið tilgang, þ.e. að neyðast til að tala við þessa skelfilegu metalhausa til að komast heim aftur.
Í vor sat ég heima hjá mér og fletti niður síðu á facebook þar sem óskað er eftir aukaleikurum. Ég var búin að vera skráð á síðuna í marga mánuði en aldrei þorað að bjóða mig fram í neitt þrátt fyrir að langa til þess í hvert skipti sem auglýst var eftir fólki. Þennan tiltekna dag tók ég risastórt skref og gaf mig fram við strák sem var að leita eftir fólki í stuttmynd. Hann sendi mér handrit og sagði mér endilega að mæta.
Þegar ég mætti á tökustað var ég með hjartað í buxunum og mig svimaði af kvíða. Þegar hann bauð mér eitt af stóru hlutverkunum gargaði hausinn á mér: nei! Munnurinn aftur á móti sagði „jájá, ég get alveg reynt.“
Tökudagarnir liðu og með hverjum deginum minnkaði hræðslan og sjálfstraustið jókst. Ég kláraði minn hlut í myndinni og bíð núna eftir að hún verði tilbúin og þá tekur við önnur áskorun en það er að horfa á sjálfa mig í mynd. Til að byrja með ætlaði ég ekki að horfa á myndina af hræðslu við að þora aldrei að leika aftur, en í dag lít ég á áhorfið sem verkefni sem vert er að takast á við.
Ef ég hefði aldrei stigið út fyrir þægindahringinn sæti ég ekki og skrifaði greinar úti á landi. Ég hefði aldrei þorað að stíga það skref að flytja í bæjarfélag þar sem ég þekkti engan. Ég ætti ekki manninn minn af þeirri einföldu ástæðu að hann er metalhaus. Ég væri ekki að skemmta mér í skóla og ég væri alls ekki að bíða eftir stuttmynd sem ég léki í.
Að öllum líkindum væri ég ennþá grafin undir sæng að hugsa: „Hvað ef?“