Guðrún Snæfríður Gísladóttir leikkona frumsýnir í kvöld leikritið Konan við 1000° eftir samnefndri sögu Hallgríms Helgasonar. Þar fer hún með hlutverk hinnar mögnuðu Herbjargar Maríu Björnsson. Í verkinu er ótrúleg saga þessarar makalausu konu rakin, konu sem lifði hörmungar tuttugustu aldarinnar á flakki víða um heim en endaði síðan ævina í bílskúr á Íslandi.
Leikstjórn sýningarinnar er í höndum Unu Þorleifsdóttur og sýningin er sýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu.
Guðrún er makalaus listamaður og hefur aldrei farið troðnar slóðir í listsköpun sinni. Hún er óvanaleg kona, ungleg eftir aldri og hefur alltaf haft sérstakan klæðaburð. Guðrún hefur áleitna nærveru og sumir hafa sagt mér að þeir séu hálfhræddir við hana.
Guðrún er rammgöldrótt, það get ég sagt ykkur, en ég hef oft unnið náið með henni og deildi með henni búningsherbergi í Þjóðleikhúsinu um árabil. Það er ekkert verulega gott orð í íslensku yfir karakterlýsinguna „eccentric“ að mínu mati en það er Guðrún í besta skilningi þess orðs. Hún er engum lík hún Gunna.
Ég ónáðaði hana daginn fyrir frumsýningu með nokkrum spurningum um sýninguna, leikhúsið og hana sjálfa.
Herbjörg er nagli og manni virðist fátt bíta á henni. Tilsvörin eru kaldhæðnisleg, fyndin og hún kann að koma fyrir sig orði. Er hún raunveruleg – leynist sársauki undir hryssingslegu yfirborðinu?
Ég held hún hafi fæðst einstök eins og við gerum flest, en þessi langa og vægast sagt viðburðarríka ævi hennar hefur eimað fram í henni magnaðan kjaft og hryssingslegt viðmót. Hún er eldklár og vel gefin og því fylgir alltaf viðkvæmni.
Hvernig undirbjóstu þig fyrir hlutverkið? ( Ég hitti Guðrúnu í bænum í sumar og spurði hana hvað hún ætlaði að gera í fríinu og hún svaraði að bragði: „Ég ætla að skella mér til Auschwitz!“ Svarið kom ekkert á óvart því hún velur gjarnan áfangastaði utan alfaraleiðar.)
Ég fylgdist með móður minni, hugsaði um ömmu mína og alveg sérstaklega ömmusystur sem mér finnst vera ofin úr sömu þráðum en lenti þó aldrei á flækingi. Svo ráfaði ég um vistarverurnar í Auschwitz, hlustaði á pólskar uglur og tuggði trjábörk.
Talaðirðu við ættingja þeirrar konu sem bók Hallgríms er byggð á?
Nei, ég hef ekki talað við neina ættingja nema mína eigin ættingja en ég hef rekist á nokkrar konur úr heimaþjónustunni. Gerði eina tilraun til að finna bílskúr í smáíbúðahverfinu en fann hann ekki.
Það er ekki svo nöturleg framtíðarsýn að eldast í bílskúr ef manni myndi auðnast að vera með heilann í lagi og eins og Herbjörg með veraldarsöguna í farteskinu? Kvíðir þú ellinni?
Þegar ég var barn vorkenndi ég gjörsamlega stjórnlaust öllum gömlum konum – ekki veit ég af hverju – fannst alltaf eins og þær væru að reyna að komast heim til sín en gætu það ekki hjálparlaust. En sem unglingur fór ég að hlakka til að verða ein af þeim og ímyndaði mér að þá giltu ekki lengur nein boð og bönn yfir mér og ég gæti þá loks gert nákvæmlega það sem mér sýndist – enginn myndi voga sér að finna að því. Til dæmis að syngja hástöfum í strætó án þess að vera kastað út – sem oft kom fyrir.
En nú er ég hætt að hlakka til, og finnst eiginlega svívirða hvernig komið er fram við gamalt fólk hér, mestmegnis rænt eigum sínum og kastað út í horn og lítið hlustað á þeirra sjónarmið.
Þegar þú lítur yfir feril þinn sem leikkonu, hvaða hlutverk sem þú hefur leikið munu fylgja þér um ókomna tíð og hvers vegna?
Ætli öll þessi hlutverk séu ekki bara öll í töskunni minni og kannski ástæðan fyrir öllum mínum endalausa farangri alltaf hreint sem er mig stundum gjörsamlega að sliga, sérstaklega milli landa.

Salka Valka stendur yfir líki móður sinnar Sigurlínu sem leikin var af Margréti Helgu jóhannsdóttur. Timarit.is/ DV-mynd GVA
Salka Valka er mér alltaf kær eins og okkur vonandi öllum og stelpan í Stundarfriði átti samúð heilu kynslóðanna. Enn stend ég mig að því að hugsa til hennar þegar ég kem inn úr dyrunum heima hjá mér og er að flýta mér og spyr heimilisfólk hvort einhver hafi hringt áður en ég kasta á það kveðju.

Guðrún í hlutverki sínu í Stundarfriði. Einnig á mynd Sigurður Sigurjónsson Ljósmynd af vefnum leikskald.is
Ef þér yrði gert að flytja núna í bílskúr og mættir taka með þér eitthvað af veraldlegum eigum þínum – hvaða hlutir fengju að fara með þér?
Ætli það yrði ekki vænn kartöflupoki sem ég tæki með mér í skúrinn og bíllyklarnir að ógleymdum öllum peningunum mínum auðvitað.

Guðrún lék nunnuna Agnesi eftirminnilega í leikritinu Agnes barn Guðs. Með henni á mynd er Sigríður Hagalín heitin. Ljósmynd eik fyrir þjóðviljann.
Átt þú eitthvað sameiginlegt með konunni við 1000°?
Ég á það sameiginlegt með henni að ég gef mikið fyrir góð tilsvör og finnst gaman að BRÚKA MUNN eins og amma kallaði það. Og svo vil ég að það komi fram að ég dýrka íslenskar kerlingar og held að þær séu ekki til nokkurstaðar annarstaðar í heiminum. Þær gera öll verkin, bera alla pokana, halda öllu í horfinu og fá svo ekkert fyrir það. En aldrei hef ég fílað fjallkonuna.
Leikritið Konan við 1000° er frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Það er ljóst að það þarf að rekja úr Guðrúnu garnirnar við gott tækifæri. Ég mun í það minnsta freista þess að gera það sem fyrst. Hvort hún fæst til þess er síðan önnur saga. Ef það hefst mun ég deila afrakstrinum með lesendum Kvennablaðsins.