Ása Lind Finnbogadóttir framhaldsskólakennari skrifar:
Reglulega koma upp fréttir um að kynjakvótar séu settir á hitt og þetta í samfélaginu. Til dæmis á lið í „Gettu betur“-spurningakeppni framhaldsskólanna og núna síðast átti að setja þá á höfunda í „Euróvision“-söngkeppninni hér á landi.
Margir rísa réttilega upp gegn þessu umdeilda „tæki“ sem var fundið upp til að reyna að rétta af kynjahalla í ýmsum málum.
En er þetta tæki góð leið að jafnrétti? Eða er hún kannski farin að vinna gegn sjálfu sér og ýtir í raun undir fordómana sem henni er ætlað að vinna gegn? Eru kynjakvótar kannski það sem sumir vilja kalla „aumingja- og fórnalambsvæðing kvenna“ í hnotskurn?
Ég geri mér fyllilega grein fyrir hugmyndafræðinni á bakvið kynjakvótana. Þar sem verið er að reyna að vinna á móti staðalímyndum kynjanna um það sem er ætlast til af okkur sem „stelpum“ eða „strákum“. Að hjálpa okkur út úr þessum „kassa“ sem kynið gjarnan setur okkur í.
Sumir spyrja réttilega: Hverjir eru að ætlast til þessara hluta af kynjunum? Hverjir setja fólk í kassa? Þeir vilja alla vega ekki kannast við að gera það sjálfir og segja gjarnan hluti eins og: það eru bara konur sjálfar sem þora ekki að stíga fram eða biðja um hærri laun, það er ekki samfélagið eða karlar sem banna þeim það! Og það er alveg hárrétt; kassinn og staðalímyndirnar eru nefnilega innra með okkur sjálfum og hafa mest áhrif þar.
Við þurfum ekki að benda á Jónu og Kalla sem segja okkur að vera inni í „kynjakassa“. Það eru engar reglur sem segja að karlar megi ekki vera í kjól, vera viðkvæmir og bresta í grát. Samt gera þeir það ekki mikið upp til hópa. Og konur eru upp til hópa ragar við að koma sér á framfæri, taka sér pláss og krefjast hærri launa, því miður.
En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Það skiptir ekki aðalmáli að geta bent á hverjir gera kröfurnar um að staðalímyndum sem fylgt, þessar kröfur eru til staðar, ósýnilegar, duldar, beyglaðar og alls konar innra með okkur öllum. Ég get ekki sannað það með vísindalegum aðferðum nei, en birtingarmynd þess er augljós í launamun kynja til dæmis. Þótt að ástæðan sé sú að konur þori ekki að biðja um nógu há laun breytir það ekki því að það er vandamál sem við þurfum að vinna á. Þetta er kerfisbundið vandamál í samfélaginu.
Með því er ég ekki að segja að engin kona þori að biðja um há laun, eða að allar konur þurfi hjálp við að taka sér pláss. Karlar þurfa ekkert minni hjálp, þeir þurfa bara hjálp við aðra hluti eins og að fá að vera viðkvæmir eða að fá að fá forræði yfir börnunum sínum svo fátt eitt sé nefnt.
En aftur að kynjakvótum. Það er svo merkilegt að með því að reyna að brjóta upp kassa, er maður í raun að ganga út frá því að kassarnir séu til staðar. Þá kemst maður í stöðu þar sem vinna gegn fordómum eykur í raun á fordómana sjálfa. Það er held ég það sem gerist við kynjakvóta. Það gerðist líka í einum grunnskóla borgarinnar þar sem nemendur stungu upp á að á einum degi ættu stelpur að koma klæddar sem strákar og strákar sem stelpur.
Auðvitað var þetta hugsað til að brjóta upp fordóma, að hjálpa fólki að losna út úr „kynjakössunum“. En um leið erum við að aðskilja kynin og ganga út frá kössunum sem gefnum. Spurningar vakna um þá sem eru af báðum eða engu kyni, eða transfólks.
Hvernig ættu þau að klæða sig? Þrátt fyrir gott upphaflegt markmið eru kynjakvótar kannski ekki svo sniðugir í dag af þessum sökum. Við þyrftum þá alla vega að gera ráð fyrir þeim alls staðar þá, en ekki bara á sumum, völdum stöðum sem einhverjum sem eru við stjórnvölinn finnst passa.
Sem femínisti sem vill berjast með kjafti og klóm fyrir jafnrétti kynja og frelsi karla og kvenna til að vera eins og þau vilja vera held ég að það sé kominn tími til að finna nýjar aðferðir en kynjakvóta. Þeir eru í raun ekki að ráðast að rótum vandans, heldur eingöngu birtingarmynd vandans. Þetta er eins og að gagnrýna liti á íspinnum, fötum eða eitthvað álíka sem skiptir í raun engu máli. Jafnrétti kynja snýst auðvitað ekki um liti, það vita allir.
Það er svo sem alveg fínt að benda á birtingamyndirnar endrum og sinnum til að minna okkur á, en þær eru ekki vandamálið sjálft. Fólk er líka orðið þreytt á því og þá er þetta í raun farið að vinna gegn upphaflegu markmiði. Vandamálið er dýpra; það er virkilega slæmt að helmingur mannkyns er í meiri hættu á því að taka eigið líf af því að þeim „leyfist ekki“ að vera viðkvæmir eða biðja um hjálp.
Það er líka virkilega slæmt að hinn helmingur mannkyns finnist hann ekki þess virði að biðja um sanngjörn laun fyrir sína vinnu. Kynjakvótar eru ekki árásir á karlmenn. Femínisminn er ekki árás á karlmenn. Þeir eru ekki sökudólgarnir. Samfélagið allt, konur og karlar og hvernig það hefur mótað undirvitund okkar gegnum tíðina er sökudólgurinn.
Við þurfum öll að hjálpast að við að komast upp úr þessum gömlu úreltu hjólförum. Það kemur engum okkar til góða að halda þeim áfram. Finnum nýjar leiðir til að vinna að sönnu jafnrétti kynja.