Stóra spurningin ætti því ekki að vera hvort eftir einhverju sé að slægjast fyrir Íslendinga, hvort við munum verða rík vegna þessara breytinga, þótt það sé auðvitað mikilvægt í sjálfu sér — heldur hvaða fjölbreyttu áhrif þær kunna að hafa og hvaða stefnu Íslendingar ætla að hafa til að tryggja þá ríku hagsmuni sem við eigum í málinu
Þegar rætt er um opnun Norður-Íshafsins vegna bráðnunar íshellunnar, með þeim breytingum sem þar eru að verða, á umræðan það til að verða ansi svart-hvít. Þegar nefndir eru möguleikar Íslendinga vegna aukinna siglinga og auðlindanýtingar er það gjarnan skotið í kaf á þeim forsendum að við Íslendingar eigum þar enga aðkomu, hér verði engar umskipunarhafnir og þetta sé langt utan okkar lögsögu.
Margir hrukku við þegar forsætisráðherra kvað tækifæri fyrir Íslendinga felast í hinum stórfelldu breytingum vegna hlýnunar sjávar á norðurhveli jarðar. Kannski ekki heppileg ummæli og auðvelt að saka þá sem þannig tala um léttúð gagnvart hörmungum sem loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra kunni að hafa á lífríkið o.s.frv. Á sama hátt hefur umræðan einnig skipst í tvö horn hvað varðar hin hefðbundnu öryggismál á norðurslóðum. Sumir segja að almenn sátt ríki um að svæðið verði vettvangur vistvænnar nýtingar, við höfum jú Norðurskautsráðið, og engar raunverulegar deilur séu um skiptingu landsvæða. Hinum megin eru þeir sem segja að þarna ólgi undir ófriðarbál sem m.a. megi sjá á stórauknum hernaðarviðbúnaði Rússa á svæðinu.
Hugsanlega eru ummæli þau sem forseti Íslands lét falla í síðasta áramótaávarpi ekki til að hjálpa umræðunni: „Þessi þáttaskil skapa Íslendingum fjölda nýrra tækifæra – í vísindum, viðskiptum, atvinnulífi og menningu. Eyjan í útnorðri er nú komin í þjóðbraut þvera, lykilstöðu á svæði sem ráða mun miklu um þróun hinnar nýju aldar; áfangastaður þegar æ stærri hluti auðlindanýtingar og vöruflutninga verður um Norðrið.“ Þetta er mikill fagurgali en þarna er forsetinn auðvitað bara að blása svartsýnum löndum sínum von í brjóst í skammdeginu og kannski engin ástæða til að rísa upp á afturfæturna.
En manni virðist, þegar fylgst er með umræðum um þessi mál, menn keppist við að skjóta hver annan í kaf, sem hefur reyndar loðað við umræður um utanríkismál á Íslandi. Þarna sem annars staðar er skotgrafahernaður þó óheppilegur vegna þess að málefni norðurslóða eru þrátt fyrir allt eitt mikilvægasta málefnið sem Íslendingar þurfa að takast á við. Þetta á við bæði vegna öryggismála í víðum skilningi, sem varðar umhverfi, efnahag og samfélagið í heild, en ekki síður um hin hefðbundnu öryggismál. Hér er ekki reynt að spá fyrir ófriði en reynslan sýnir okkur að þrátt fyrir að nú ríki friður á norðurslóðum er slíkt ástand aldrei varanlegt.
Hér er ekki verið að kalla eftir allsherjar sátt eins og nú tíðkast gjarnan, enda eru snarpar umræður nauðsyn til að leiða stór mál til lykta. Mikilvægt er þó að skoða málið í stóru samhengi en einblína ekki á einstaka þætti sem eiga til að blása umræðunni út af borðinu. Stóra spurningin hér ætti því ekki að vera hvort eftir einhverju sé að slægjast fyrir Íslendinga, hvort við munum verða rík vegna þessara breytinga, þótt það sé auðvitað mikilvægt í sjálfu sér — heldur hvaða fjölbreyttu áhrif þær kunna að hafa og hvaða stefnu Íslendingar ætla að hafa til að tryggja þá ríku hagsmuni sem við eigum í málinu.
Helstu ástæður þess að ásókn ríkja í norðurslóðir er að aukast eru hin gríðarlegu verðmæti sem liggja í náttúruauðlindum sem verða sífellt aðgengilegri eftir því sem íshellan hopar. Svæðið geymir miklar olíu- og gasbirgðir sem eru taldar nema um 10 prósentum af heildar olíuframleiðslugetu heimsins og um fjórðungi allrar gasframleiðslu. Réttur Íslands til auðlindanýtingar hefur verið skilgreindur að mestu — Ísland á í raun ekki nein formleg réttindi utan þess sem liggur innan efnahagslögsögunnar, auk þess sem hugsanlega má telja vera innan ytri marka landgrunnsins, í samræmi við reglur Hafréttarsáttmálans. Siglingar um Norður-Íshafið eru enn sem komið er nánast eingöngu um austurleiðina, meðfram norðurströnd Rússlands, þar sem Ísland er fráleitt sjálfkrafa þátttakandi eins og sakir standa.
En hvað þá, hvers vegna erum við að ræða þessi mál? Jú, það hangir meira á spýtunni því hin aukna auðlindanýting og siglingar munu hafa afgerandi áhrif á stöðu Íslands hvort sem Ísland á þar beina aðkomu eður ei. Má þar helst nefna umhverfismál en þau eru jafnan efst á baugi þegar málefni norðurslóða eru rædd á alþjóðavísu. Umræddum breytingum vegna bráðnunar íshellunnar fylgja mögulegar umhverfisógnir og slysahætta, m.a. vegna olíu- og jarðefnavinnslu. Opnun siglingaleiða um norðurskautið og auknir flutningur vegna þjónustu við rannsóknir og vinnslu náttúruauðlinda, að viðbættum auknum umsvifum vegna ferðamannaiðnaðar, hafa nú þegar og munu auka umferð á svæðinu.
Það þarf því ekki að fara í grafgötur um að umrædd þróun er farin að hafa áhrif á Íslandi og mun hafa enn meiri áhrif. Íslendingar eiga t.a.m. mikilla hagsmuna að gæta vegna lífríkis í sjónum umhverfis landið, sér í lagi vegna þess hve fiskveiðar eru okkur mikilvægar. Ef bráðnun íshellunnar heldur áfram sem horfir munu siglingar beint yfir pólinn verða raunhæfur kostur innan fárra áratuga og þá mun Ísland sannarlega verða í alfaraleið. Kínverjar hafa verið að seilast til áhrifa á norðurslóðum og hafa Íslendingar fundið fyrir því. Því er mikilvægt að Íslendingar skoði þessi mál í þaula og skilgreini hagsmuni sína vel. Það er grunnur að því að marka megi trúverðuga stefnu, til að tryggja að Ísland verði síður leiksoppur í því valdatafli sem fram fer — og mun að öllum líkindum færast í aukana á norðurslóðum.
Einhverjir kynnu að segja að lausnin væri að hverfa aftur til þess fyrirkomulags að njóta verndar öflugs bandamanns, líkt og Bandaríkin voru áður fyrr. Þó kennir reynslan okkur Íslendingum, og það styðja fræðikenningar einnig, að slík bandalög geta verið fallvölt. Hegðun ríkja í slíkum aðstæðum ræðst gjarnan af eigin hagsmunum og þegar bandamaðurinn hættir að þjóna þeim hagsmunum verður hann einskis virði og má sigla sinn sjó. Tvíhliða samstarf einstakra ríkja mun þó ávallt verða til staðar og á við í vissum tilfellum. Íslendingar verða þó að gæta að sér, ætli þeir sé að fara fram í krafti öflugs bandalagsríkis, því ef farið er á svig við alþjóðasamninga og stofnanir þá grefur það um leið undan trúverðugleika þegar kemur að því að sækja rétt á þeim vettvangi.
Íslensk stjórnvöld hafa vissulega boðað að norðurslóðir séu grundvallarþáttur í utanríkisstefnunni og er það vel. Einnig virðast þau fylgja meginstefnu annarra ríkja sem að koma, að þar sé besta leiðin að styrkja Norðurskautsráðið eins og kostur er. Það hefur einmitt jafnt og þétt verið að öðlast stöðu alþjóðastofnunar og er mikilvægt að Ísland hafi sæti við það borð. Sýnt hefur verið fram á að smáríki eins og Ísland getur nú tryggt stöðu sína mun betur en áður var hægt með þátttöku í samstarfi á grundvelli alþjóðastofnana og með alþjóðasamningum. Reynslan sýnir að slíkt skapar ríkjum hlutlausan vettvang sem tryggir m.a. lögmæti og faglega umsýslu deilumála.