Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Barnsmissir

$
0
0

Eysteinn Helgi Friðriksson skrifar:

Það er skrítin tilfinning að fara að verða pabbi í fyrsta sinn, ég vissi ekki við hverju ætti að búast en hlakkaði samt til. Þetta var frekar óraunveruleg tilfinning og varð fyrst raunverulegt þegar að við fórum í tólf vikna sónarinn þar sem í ljós komu líkur á fósturgalla og var möguleiki á því að við þyftum að enda meðgönguna. En eftir fylgjusýnatöku kom í ljós að ekkert væri að, sem var mikill léttir.

Tengingin jókst með hverjum áfanga, í hvert skipti sem við fórum í sónar, eða þegar ég byrjaði að finna hreyfingar og kúlan stækkaði. Tilhlökkunin fyrir öðrum janúar, sem var hinn setti dagur, varð meiri og meiri.

Í kringum jólin byrjuðu hreyfingar að minnka en ég trúði því að það væri í lagi þar sem við höfðum verið í vaxtarsónar stuttu áður. Þann 27. desember fann Helena engar hreyfingar og  ákváðum við því að fara upp á heilsugæsluna á Suðurnesjunum og tékka á því hvort ekki væri allt í lagi. Ljósmóðirin heyrði bara hjartsláttinn hennar Helenu.

Mér leið eins og þetta væri ekki að gerast. Það var mjög fjarlægt manni að barnið okkar gæti verið látið. Helenu var komið í sjúkrabíl sem brunaði beint upp á spítala Hringsins og ég keyrði einn á eftir.

Þegar að við komum þangað var staðfest að það væri enginn hjartsláttur, ég var svolítið lamaður til að byrja með. Ég fattaði ekki alveg að við værum að missa barnið okkar.

Tíminn leið hægt á spítalanum en allt gerðist þó hratt. Helena var sett af stað og fæðingin gekk vel og hratt fyrir sig. Dóttir okkar fæddist andvana 28. desember 2012, aðeins fimm dögum fyrir settan dag, fullkomlega heilbrigð og gullfalleg.

Um leið og ég sá stelpuna okkar rann það upp fyrir mér að þetta var raunverulega að gerast.

Ég klippti naflastrenginn og við áttum stund með barninu okkar og foreldrum. Hún var blessuð af Rósu Kristjánsdóttur djákna og fékk nafnið Írena Helga.

Það var erfitt að koma heim og sjá allt barnadótið sem var tilbúið, eins og t.d. rúmið sem var uppsett inni í svefnherbergi.

Fyrstu nóttina vaknaði ég við Helenu grátandi sárum gráti, horfandi á barnarúmið inni í herbergi, sorgin er mjög djúp og þung, ég hef aldrei grátið svona sárt allt mitt líf.

Það var mjög erfitt að plana jarðarför fyrir barnið sitt. Áður en jarðarförin fór fram fengum við stund með henni, fengum að sjá hana aftur og í seinasta skiptið, kyssa og kveðja hana fyrir fullt og allt.

fadir med kistu

Eysteinn Helgi við jarðarförina.

Útförin var falleg, presturinn einlægur og voru okkar nánustu viðstödd til að  kveðja dóttur okkar. Við höfum fengið mikinn skilning og stuðning frá öllum. Það hjálpaði mikið að fara á fund með stuðningshópi og tala við fólk með svipaða lífsreynslu og vita það að maður er ekki einn í þessu.

Ég á alltaf eftir að bera þessa sorg og lífsreynslu með mér.

Ég á dóttur á himnum sem ég á aldrei eftir að hætta að elska og hún mun ávallt verða partur af fjölskyldunni.

 

 

 

Gleym-mér-ei styrktarfélag stendur fyrir minningarstund um missi á meðgöngu og barnsmissi þann 15. október. Lesið ykkur frekar til um dagskrána hér.  Gleym-mér-ei styrktarfélagi langar til þess að gefa kælikörfur á Kvennadeildir LSH og FSA til að auðvelda foreldrum sem missa börn sín viðskilnaðinn.  Lesið ykkur til um kælikörfur hér. Hægt er að styrkja söfnunina með því að leggja inná styrktarfélagið og við hvetjum alla til að leggja sitt af mörkum:

Gleym-mér-ei styrktarfélag

Kennitala: 501013-1290
Reikningur: 111-26-501013


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Trending Articles