Ljóst er að mikillar sundrungar gætti innan raða lögreglunnar um skipulag, framkvæmd og stjórnun aðgerða lögreglu í búsáhaldabyltingunni. Í búsáhaldabyltingarskýrslu Jóns Geirs Þórissonar kemur lítil sem engin gagnrýni fram á störf lögreglunnar sjálfrar þó vitað sé að mikil óánægja ríkti meðal lögreglumanna sem voru á vettvangi, þá sérstaklega um og í kringum þingsetningu þann 20. janúar 2009.
Kvennablaðið birtir í dag tölvupóst frá rannsóknarlögreglumanni sem sendur var til Stefáns Eiríkssonar og allra lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu og varðaði aðgerðir lögreglu í mótmælunum 20. janúar 2009. Umræddur tölvupóstur varpar frekara ljósi á þá gagnrýni sem þó birtist í búsáhaldabyltingarskýrslu Jóns Geirs Þórissonar um aðgerðir lögreglunnar í mótmælum árin 2008 – 2011 og undirstrikar þá miklu sundrung og óánægju er gætti meðal lögreglumanna um stjórnun, skipulag og framkvæmd aðgerða lögreglu á þessum tíma.
Í umræddri búsáhaldabyltingarskýrslu má finna umsögn almenns lögreglumanns um mótmælin 20. janúar:
“Þreytan í mannskapnum var farin að segja til sín en lítið hafði verið um mat og drykki þ.e. vatn. Óþolinmæði var komin fram í hópum um hve aðgerðarleysi lögreglu var algjört og ekki batnaði það þegar upplýsingar komu til okkar að þeir yfirmenn lögreglunnar sem voru á fundi á Glymi í Hvalfirði myndu ekki koma í bæinn, en ítrekað kom fram hjá mönnum hvernig þeim hefði dottið í hug að halda fund utanbæjar á þessum degi í hópi þeirra sem voru utandyra. Áttum við að þola þetta endalaust að látið yrði vaða yfir okkur án aðgerða. En það runnu fljót á okkur tvær grímur þegar við vorum beðnir um að spara piparúðann og nota hann ekki nema við fengjum skipun um að nota hann, eina undantekningin var að nota mætti hann í neyðarvörn. Átti ekki að gera neitt?” (Bls. 108, Búsáhaldab.skýrsla)(Leturbr. ritstjórnar)
Yfirmenn lögreglunnar ósammála lögreglumönnum sem voru á vettvangi
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og höfundur búsáhaldabirtingarskýslunnar lætur í ljós allt annað viðhorf yfirmanna lögreglunnar sem töldu nóg af stjórnendum til staðar:
“Það skal tekið fram að nokkru fyrr hafði verið tekin ákvörðun um að yfirlögregluþjónn almennrar löggæslu, ásamt aðstoðaryfirlögregluþjónum þeirrar deildar, yrðu á hefðbundnum ársfundi sínum að Glymi í Hvalfirði þennan dag og fram að hádegi næsta dag. Sú spurning var borin upp við SE, lögreglustjóra, hvort ekki væri rétt að hætta við þennan fund vegna þingsetningarinnar og væntanlegra mótmæla. Ákvörðun hans var að halda þennan fund, enda nægur fjöldi stjórnenda til staðar hjá LRH til að stjórna aðgerðum.” (Bls. 97. Búsáhaldab.skýrsla)
Einnig fannst Geir Jóni lögreglu hafa tekist einstaklega vel til miðað við tilefnið:
“Mótmælendur voru óvenju herskáir, miklu herskáari en áður, og því þurfti að beita piparúða, og í einstaka tilfellum kylfum, svo lögreglan gæti haldið aftur af þeim sem verst létu. Því verður ekki annað séð en að einstaklega vel hafi tekist til miðað við tilefnið og eins hversu lengi það stóð yfir. Á þessum degi var Alþingi að koma fyrst saman eftir jólafrí. Augljóst var, að miklu meiri harka var í athöfnun margra mótmælenda þennan dag, en áður hafði sést, ef frá eru talin mótmælin á gamlársdag við Hótel Borg sem voru nokkuð hörð. Fjöldi mótmælenda var þó miklu minni við Hótel Borg. Umrædd mótmæli við Alþingishúsið voru þau erfiðustu fyrir lögregluna frá því að mótmæli hófust eftir bankahrunið.” (Leturbr. ritstjórnar)
Ljóst er að lögreglumenn virðast almennt ósammála um hvernig til tókst og hvernig lögreglan hefði átt að bera sig að þennan dag. Ummælin hér að ofan má svo bera saman við efni tölvupóstsins hér að neðan, þar sem það er harmað að lögreglan þyrfti að grípa til piparúða og valdbeitingar yfirhöfuð og skipulagsleysi sð stóru leyti kennt um. Þá er það harðlega gagnrýnt í tölvupóstinum að flestir yfirstjórnendur lögreglu skyldu hafa haldið til streitu þeirri áætlun sinni að funda utanbæjar á meðan mótmælunum við Alþingishúsið stóð.
Dæmi hver fyrir sig:
—–Original Message—–
From: Ingólfur Bruun
Sent: 21. janúar 2009 08:20
To: Stefán Eiríksson
Cc: LRH:Lögreglumenn
Subject:
Sæll Stefán,
Mér er mikið niðri fyrir……… og þess vegna ætla ég að tjá mig aðeins um atburði gærdagsins. Þar sem ég tel að hugrenningar mínar eigi einnig erindi til vinnufélaga minna hjá LRH þá sendi ég þeim afrit af bréfinu.
Í fyrradag þá nefndi ég það við samstarfsmenn mína í R-1 fjársvik og skjalafals, að mér þætti mjög undarlegt að ekki væru búið að láta okkur vita hvert yrði viðbúnaðarstig rannsóknardeildar fyrir daginn í gær. Það var jú þingsetning daginn eftir og alveg ljóst að það yrði eitthvað mikið um að vera. Það var amk. ljóst í mínum huga að eitthvað mikið stæði til. Ég get bara rökstutt það með tilfinningu og eins hafði mér borist til eyrna að á bloggsíðum hafi verið rætt um að nú ætti fólk að hópast niður að Alþingi og láta í sér heyra. Ég sagði við vinnufélaga mína í gríni og alvöru að nú væri eins gott að fresta boðuðum skýrslutökum og öðrum verkefnum því að það væri ljóst að við yrðum send að Alþingishúsinu þó að yfirmenn okkar virtust ekki gera sér grein fyrir því daginn fyrir þingsetningu að eitthvað mikið stæði til.
Í gærmorgun las ég tölvupóstinn hér að neðan:
From: Geir Jón Þórisson
Sent: 19. janúar 2009 19:09
To: LRH:Allir
Subject: Tilkynning
Verð á fundi á morgun, þriðjudag og miðvikudag, 20. og 21. út úr bænum. Ef nauðsynlega þarf að ná til mín reyni ég að vakta símann eins og hægt er, annars veit ég að Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri myndi leysa úr málum í minn stað. Stjórnendur almennu deildar verða á þessum sama fundi.
Kveðja
Geir J’on
Eftir að hafa lesið tölvupóstinn þá varð ég agndofa……., ég hreinlega vissi ekki hvernig ég átti að taka þessu. Gat það virkilega verið að yfirmenn almennu deildar væru á leið út úr bænum í tvo daga þegar fyrir dyrum væri þingsetning og ljóst að það yrðu mikil mótmæli við þinghúsið?! Hugsanir eins og m.a. „Í hvaða heimi lifa þessir (yfir)menn eiginlega“ leituðu á hugann. Það er slakur herstjórnandi sem berst njósn af því að andstæðingur hans hyggist efna til orrustu og bregst þannig við að hann sendir herráðið sitt á afvikinn stað til að leggja drög að því m.a. (vonandi) hvernig eigi að vinna stríðið.
Í gærmorgun barst síðan tölvupóstur frá Friðriki Smára kl. 08:32 um að viðbúnaðarstig gulur 2 myndi gilda fyrir rannsóknardeildir frá kl. 12:00. Loks barst tölvupóstur frá Aldísi kl. 13:02 um að allir tiltækir lögreglumenn skyldu fara að Alþingishúsinu.
Þegar leið á daginn varð ljóst að grunur minn (og annarra vinnufélaga minna) frá því á mánudeginum reyndist réttur. Þetta urðu vissulega fjölmennstu mótmæli sem ég hafði séð frá því að þetta ástand byrjaði. Og þá hugsaði ég með mér eftir því sem á daginn leið, jæja, nú hlýtur „herráðið“ að aflýsa fundarferðinni sinni og koma til aðstoðar fótgönguliðinu sínu en nei, ekkert slíkt gerðist. Hvar voru æðstu stjórnendur lögreglunnar? Af hverju voru þeir ekki á vettvangi til halds og trausts fyrir sína undirmenn? Gat þetta virkilega verið að gerast?! Ætluðu mennirir virkilega að halda því til streitu að vera út úr bænum í þessu ástandi?! Datt þeim virkilega ekki í hug að breyta skipulagi sínu þegar ljóst var í hvaða farveg mótmælin voru að þróast? Ekki veit ég hvað gerðist eftir að ég fór heim af lögreglustöðinni um kl. 20:00 í gærkvöldi en þá amk. vissi ég ekki til þess að neinn af yfirmönnum almennu deildar væri kominn aftur. Fróðlegt verður að sjá hvort að menn læri af reynslunni og blási af frekari fundum hjá stjórnendum almennu deildar í dag, miðvikudag, eða hvort að skipulagið sé svo niðurnjörvað að fundum skuli haldið áfram, hvað sem tautar og raular.
Þetta minnir mig á ástandið sem skapaðist á gamársdag við Hótel Borg. Þar sköpuðst mjög svo fyrirsjáanlegar aðstæður en ekki var brugðist við í tima og þess vegna fór ástandið úr böndum. Í gær gerðist nákvæmlega það sama, þar sköpuðust aðstæður sem voru fyrirsjáanlegar og fóru úr böndunum vegna þess að skipulag lögreglu var í molum.
Ég verð að fá að hrósa aðgerðarskipulaginu sem var vegna mótmælanna sem voru fyrirhuguð við Landsbankann um daginn. Þar var rétt staðið að málum, fundur haldinn daginn fyrir aðgerðir, skipulag kynnt, aðstæður til að koma að athugasemdum og spurningum við yfirmenn. Síðan varð minna úr mótmælum en búist var við. Sem betur fór.
Ég kann því illa að vera settur í þær aðstæður að þurfa að nota táragas eða kylfu á mótmælendur vegna þess að skipulag okkar er ekki nógu gott. Það má etv. sumpart skella skuldinni á stjórnmálamenn sem þekkja ekki sinn vitjunartíma en það er það er bara ekki svo einfalt. Með góðu skipulagi hefði verið hægt að hafa betri stjórn á ástandinu við Alþingishúsið í gær en raun varð.
Framundan er landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Það kæmi mér ekki á óvart að þar myndi draga til tíðinda varðandi mótmæli. Ég hef heyrt því fleygt að búið sé að ráða 200 manna lið öryggisvarða til að gæta ráðstefnugesta. Ef það er rétt þá líst mér ekki á því ef að 200 manna „einkaher“ fer úr böndum hverjir munu þá lenda í því að stilla til friðar? Einmitt, það erum við, lögreglan. Og þú getur rétt ímyndað þér hvað það verður þakklátt starf. Ég ætla ekki að skipta mér af því hvort að búið sé að skipuleggja aðgerðir af hálfu lögreglu vegna landsfundarins en ef svo er þá þætti mér vænt um að fá að vita um það í tíma en ekki kortér yfir mótmæli.
Ég vil segja að ég er með kvíða, kvíða vegna þess að ég þurfi hugsanlega að beita mótmælendur harðræði, nota gas eða jafnvel kylfu. Af hverju? Jú, vegna þess að í hjarta mínu er ég sammála mótmælendum. Það þarfnast ekki frekari útskýringa. Ég hefði heldur viljað taka þátt í mótmælunum heldur en að vera settur í þá aðstöðu að vera beitt gegn þeim. Auðvitað eru alltaf einhverjir í hópi mótmælenda sem ganga of langt en finnst fólki það skrýtið þegar hroki stjórnmálamanna er hafður í huga? Það er hægt að ögra jafnvel friðsælasta fólki þannig að upp úr sjóði.
Ég vil taka fram að þetta eru hugrenningar mínar og ég er ekki biðja um svar við þeim. Ég get bara ekki orð bundist. Ég geta bara vonað að (yfir)menn læri af reynslunni. Ég er reyndar efins og lái mér hver sem vill. Og ef mönnum líður betur þá má kalla mig neikvæðan niðurrifsmann en stundum er gripið til slíkrar orðanotkunar þegar vandræðamenn eins og ég opna á sér munninn
Að lokum langar mig til að biðja þig um að láta berast til starfsfólks Alþingis þakkir frá mér fyrir góðan viðgerning.
Með bestu kveðju,
Ingólfur
Ingólfur Bruun, rslm.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Í samtali við Kvennablaðið gekkst Ingólfur Bruun við því að hafa skrifað bréfið en vildi ekki tjá sig frekar um innihald þess.