Bara ef …
þetta eru orð sem eflaust langflestir kannast við að hafa hugsað í hinum ýmsu aðstæðum. Bara ef … fjallar um fjölskyldu í vægast sagt afar dramatískum aðstæðum, en sagan hefst þegar fjölskyldufaðirinn heimtar skilnað í miðri óvæntu afmælisveislunni sem konan hélt honum. Fólk bregst misvel við þessum fréttum og eins og við er að búast fer allt á annan endann. Einn fjölskyldumeðlimur fær meðvirkniskast og reynir að bjarga málunum. Annar reynir að bjarga sambandi foreldra sinna og sá þriðji berst við að bjarga sínu eigin sambandi. Alltaf er einhver sem hefur eitthvað að fela á meðan annar segir of mikið. Bara ef … þau hefðu gert hlutina öðruvísi. Bara ef … hún hefði bara sagt honum að hún væri ólétt. Bara ef … fólk gæti verið almennilegra hvað við annað. Já, það eru margar aðstæður þar sem maður getur hugsað þetta „bara ef …“.
Þetta er kannski loðin lýsing á auðlesinni og bráðskemmtilegri bók. Bókin fjallar í raun mestmegnis um fjölskyldur og mannleg samskipti. Þessi tegund bóka er oft kölluð á ensku „women’s literature“ en að mínu mati á það í raun ekkert endilega við. Það geta allir tengt við bækur af þessu tagi, sama af hvaða kyni þeir eru. Það eru jú hreint ekkert bara konur sem detta í meðvirkni eða eru með drama innan fjölskyldunnar. Það eru heldur ekki bara konur sem flýja aðstæður frekar en að takast á við vandamálin. Það sem heillar mig við þessa tegund bókmennta er hversu gaman ég hef af því að horfa í ólík viðbrögð fólks í fjölbreyttum aðstæðum og að fá tækifæri til að vera áhorfandi að fjölbreytileika mannskepnunnar og misjöfnum tilraunum hennar til að takast á við vandamál sem koma upp í lífi og tilveru fólks, uppskáldaðs eða ekki.
Þetta tekst Jónínu nefnilega svo vel – að búa til aðstæður í frásögninni þar sem maður staldrar aðeins við og setur sig í spor sögupersónanna. Á sama tíma getur maður hins vegar upplifað að standa algerlega utan við vandamálin og vilja endilega ráðleggja viðkomandi hvað best sé að gera. Það kom ítrekað fyrir að mig langaði virkilega til að segja einni persónu til syndanna en klappa annarri á bakið fyrir að bregðast vel við.
Þetta er bók sem tilvalið væri að lesa fyrir jólin, áður en öll fjölskylduboðin fara að hellast yfir. Þetta er á heildina litið einfaldlega ótrúlega sniðug og skemmtileg bók sem skilur mikið eftir sig. Ég get eindregið mælt með henni til að lífga upp á skammdegið.
Bara ef … bókin hefði verið kanski 150 blaðsíðum lengri!
Lestur er bestur,
Kolla