Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ræða Svavars Knúts á Austurvelli 3. 11. 2014

$
0
0

Ja hérna hér. Þetta stækkaði fljótt. Það var svo sannarlega ekki inni í nóvemberplaninu að gerast einhver mótmælabrjálæðingur þegar ég röflaði eitthvað á feisbúkk um daginn. Svona skipast fljótt veður í lofti.

Ég röflaði meira að segja yfir því að ég hefði nóg að gera að undirbúa komu afkvæmisins í desember. Andskotann hef ég að gera með að vera að agiterast í einhverjum mótmælum? En þá fattaði ég. Er það ekki einmitt málið? Er það ekki einmitt það sem þetta snýst allt um? Að reyna að koma í veg fyrir að börnin mín alist upp í einhverju nýfasískum pytti, náttúrusnauðum, með mennta- og heilbrigðiskerfin sundruð í frumeindir.

Við erum komin hérna, fólk úr ólíkum áttum. Ég sé í þessum hópi fullt af fólki sem ég þekki og þykir vænt um: vinstri villinga, sófakomma, anarkista, stúdenta, lækna, tónlistarkennara, sjálfstæðismenn og meira að segja fólk sem hefur kosið Framsóknarflokkinn. Það kemur fyrir bestu menn. Ég þekki líka fólk sem hefur svarað Nígeríubréfi. Ágætisfólk. Tímabundinn dómgreindarbrestur gerir fólk ekki verra.

Við erum komin úr ólíkum áttum, með ólíkar rætur. En við eigum það öll sameiginlegt að vera komin með upp í kok af því hvernig þessi ríkisstjórn hegðar sér. Við erum öll orðin hundfúl. Ég veit ekki um ykkur, en mér hundleiðist að vera reiður. Ég vil bara vera í góðum fílíng, grilla og chilla.

En það er bara ekki hægt þegar það er endalaust verið að höggva og naga í grunnstoðir samfélagsins, grundvallarhugsjónir sem 90% Íslendinga deila.

Rétt upp hönd sem er tilbúinn að taka þátt í að borga menntun fyrir aðra Íslendinga.

Rétt upp hönd sem er tilbúinn að taka þátt í að borga fyrir heilsugæslu og sjúkraþjónustu fyrir aðra Íslendinga.

Rétt upp hönd sem vill að allir einstaklingar séu öruggir undan ofsóknum ríkisins og njóti trúnaðar gagnvart því?

Rétt upp hnefa og öskri, þeir sem finnst að engin manneskja eigi að eiga það á hættu að íslensk ráðuneyti leki upplýsingum um sig til fjölmiðla og ljúgi svo um það endalaust.

Rétt upp hnefa og öskri hátt ef þið viljið ekki mæta lögreglunni okkar með hríðskotabyssur í höndunum á næstu mótmælum.

Réttið upp hnefa og öskrið hátt ef þið viljið að allir hafi efni á þaki yfir höfuðið.

Hroki, dónaskapur, dólgsháttur og fáránlegt yfirlæti eru ekki góð framkoma hjá nýrri ríkisstjórn. Ekki gamalli heldur, en hvað þá nýrri. Það er ótrúlegt að fylgjast með yfirganginum og dónaskapnum í næstum hverjum einasta fulltrúa þessarar ríkisstjórnar. Og þegar einhver gagnrýni kemur upp á stefnuna er það ómaklegt, loftárásir, samsæri, annarlegar kenndir. Svo felur þetta lið sig alltaf í kjölfar stórra neikvæðra frétta og enginn fjölmiðill nær í ráðherrana okkar, nema fyrir einhverja undarlega tilviljun Mogginn, Smartland og Pressan.is, til að spyrja hver sé uppáhalds hamborgarinn þeirra og hvort grillið verði ekki tekið út með vorinu.

Og það er eins og það sé bara orðinn viðurkennd aðferð hjá þessari ríkisstjórn að fela síðasta klúður með nýju og ennþá stærra klúðri. Hanna Birna varpar öndinni léttar, því að nú eru hríðskotabyssurnar búnar að taka fókusinn af lekamálinu.

Mér líður dálítið eins og ríkisstjórnin sé þessi gaur sem kemur í partý og skítur á gólfið hjá þér. Og þegar þú bendir honum á að þetta sé ekki beinlínis í lagi, þá ælir hann yfir lortinn og segir svo: „Ég sé engan skít.“ Við þekkjum öll þennan gaur og við viljum ekki hafa hann stýrandi landinu okkar. Gettu hvað ríkisstjórn: Við finnum enn lyktina af skítnum undir ælunni.

Rétt upp hönd sem ekki vill þennan gaur í partýið sitt.

Stjórnmálamennirnir okkar eru fyrirmyndir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og þegar þeir leyfa sér að tala niður til fólks, gera lítið úr hópum í samfélaginu og opna á hatursumræðu um fólk af ólíkum uppruna, þá er það háalvarlegt mál. Umræðan tekur mið af því hversu yfirvegaðir eða óyfirvegaðir stjórnmálamennirnir okkar eru.

Við settum saman nokkrar vinsamlegar tillögur til ykkar, kæru stjórnmálamenn, sem með valdið fara. Endilega finnið ykkur knúin til að fara að þeim.

1. Hættið að vega að grunngildum þjóðarinnar.

Samstaða, samhjálp, samfélag. Forskeytið „sam-“ er þarna í aðalhlutverki. Við erum 320.000 manns sem búum í samfélagi. Við erum ekki 320.000 einkahlutafélög. Við erum ekki kennitöluflakkarar. Við erum samfélag. Íslendingar vilja hjálpast að. Við viljum borga menntunina undir aðra Íslendinga. Við viljum borga lækniskostnaðinn fyrir aðra Íslendinga. Og þegar aðrir Íslendingar veikjast og geta ekki unnið fyrir sér, viljum við standa með þeim og hjálpa þeim að komast af. Og við viljum að útgerðin taki þátt í því með okkur. Við erum samfélag þar sem frjáls samkeppni og samhjálp eiga að virka saman. Að skekkja skattkerfið og refsa hinum fátækari er ekki vænlegt til að efla samfélagið.

2. Hættið að ala á tortryggni og fyrirlitningu

Hættið að reyna að mála fólk sem hefur skoðanir sem skríl eða óþjóðalýð. Hættið að tala um loftárásir og strámenn. Við erum manneskjur með alvöru skoðanir og alvöru tilfinningar. Við erum fólk sem ykkar stefna hefur sært og komið illa við. Við erum fólk hverra innstu gildi þið hafið móðgað og trampað á. Við erum kristin, ásatrúar, búddistar, múslimar og trúleysingjar. Við erum lögfræðingar, kennarar, listamenn, bílstjórar, lagermenn og öryrkjar. Það er ógeðslega glatað lýðskrum að reyna að búa til einhvern skítastimpil á fólk sem er að sýna ykkur þá virðingu að reyna að ræða við ykkur á lýðræðislegum grundvelli.

3. Hættið að ala á fordómum og tortryggni gagnvart útlendingum, fólki af ólíkum trúarbrögðum og hælisleitendum og sýnið þeim virðingu og reisn í samræmi við mannréttindi þeirra.

Það er algerlega ólíðandi að reyna að sverta hælisleitendur og fólk sem kemur hingað í góðri trú með óhróðri og dylgjum. Hvað þá að reyna að gera þá tortryggilega með því að leka út persónuupplýsingum um þá og annað saklaust fólk. Það er vonlaus stjórnsýsla.

4. Hættið að auka tortryggni okkar á lögregluna.

Við viljum eiga góð samskipti við lögregluna. Íslendingum þykir vænt um lögregluna. Við viljum hafa þá til að vernda okkur í umferðinni, fyrir ofbeldismönnum og fyrir þjófnaði. Við viljum ekki vopna lögregluna meira en þegar er orðið og við viljum ekki að hún njósni um okkur. Það er alls ekki sambandið sem Íslendingar vilja eiga við lögregluna sína.

5. Sýnið náttúrunni okkar virðingu

Það er miklu minna eftir af náttúrunni okkar en þið gerið ykkur grein fyrir. Reynið að fatta að árnar okkar, náttúran, jarðhitasvæðin, landslagið, og meira að segja vatnið eru takmörkuð auðlind. Mjög takmörkuð.

Og ef þið getið það ekki, reynið þá að sýna því fólki sem vill vernda hana lágmarksvirðingu og ekki koma fram við okkur eins og öfgafólk fyrir að vilja vernda náttúruna.

Og að lokum: Farið að vinna vinnuna ykkar eins og almennilegt fólk! Sýnið heilindi í starfinu og hættið þessum skætingi, leiðindum og yfirlæti. Hættið að ljúga og dólgast og sýnið auðmýkt eins og alvöru þjónar fólksins.

Ég er alinn upp á heimili þar sem kurteisi og yfirvegun voru í hávegum höfð. Orðið “Jæja” er eitt af þessum íslensku töfraorðum, sem á mjög skýra merkingu í minni fjölskyldu.

Við fyrsta ´Jæja´ þá er gefið sterklega í skyn að einhver sé kominn yfir strikið og þurfi að bæta ráð sitt.

Annað ´Jæjað´ er harkalegra. Þá byrsta menn sig og ef menn fatta ekki meininguna á öðru jæja, þá eru þeir greinilega úr skrýtinni sveit og varla húsum hæfir.

Þriðja ´JÆjað´ er sagt um leið og þrifið er í hnakkadrambið á viðkomandi og hann flengdur eða tuskaður til á annan hátt.

Þessi samkoma er okkar fyrsta jæja. Við munum koma hingað aftur, og aftur og aftur, þangað til þið náið meiningunni. Og jæjað verður hærra í hvert skipti.

Kveikið ljósin og lýsið ríkisstjórninni veginn. Við viljum lýðræði, ekki lýðskrum. Við viljum samstöðu, samhjálp, samfélag.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283