Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að lifa lífinu lifandi

$
0
0

Guðrún Anna Jónsdóttir sálfræðingur skrifar:

GAJ_edited2

Guðrún Anna.

 

Að lifa lífinu lifandi – Sálfræðimeðferð sem byggir á sátt og stefnu

Mörg okkar eiga það til að eyða talsverðum tíma í að deyfa óþægilegar tilfinningar þó svo að við veljum ólíkar leiðir til þess. Sumir leita í mat eða áfengi á meðan aðrir dreifa huganum með því að horfa á sjónvarp eða vafra á netinu. Margir forðast viðburði eða aðstæður þar sem neikvæðar tilfinningar gætu vaknað. Það eru eðlileg mannleg viðbrögð að forðast óþægindi í lengstu lög, hvort sem þau eru andleg eða líkamleg. Vandinn er hins vegar sá að þó að okkur líði ef til vill betur stundarkorn þá getur þetta mynstur aukið á vanlíðan til lengri tíma litið ef við fjarlægjumst það sem skiptir okkur máli.

Það er einstaklingsbundið hvað skiptir máli í lífinu en við höfum öll einhver gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi. Þegar við fylgjum þessum gildum upplifum við tilgang og innihald í lífinu. Flótti frá neikvæðum tilfinningum leiðir okkur oft frá þessum gildum og við gerum minna og minna af því sem okkur þykir mikilvægt.

Þegar við notum heilann til að bregðast við tilfinningalegum vanda getur það stundum gert illt verra. Ein helstu verkefni heilans sem líffæris eru að skynja hættur og leysa vandamál. Þegar óþægilegar tilfinningar vakna eru því venjuleg viðbrögð að reyna að finna út hvers vegna okkur líði svona, hvað við hefðum getað gert betur í fortíðinni og hvað við þurfum að varast í framtíðinni. Afleiðingarnar geta verið svokallaðar jórturhugsanir, sjálfsásakanir og hrakspár. Þá geta vaknað enn fleiri neikvæðar tilfinningar sem við þurfum að flýja og vítahringur myndast.

En hvað getum við gert til að brjótast út úr þessu mynstri? Fyrsta skrefið gæti verið að finna persónulega stefnu, það er að segja að komast að því hvað það er sem skiptir okkur mestu máli og hvað við viljum standa fyrir. Þegar við höfum skýrt þessi gildi geta þau beint okkur á þá braut sem við viljum vera á.

Einnig er mikilvægt að læra að vera meðvituð um líðandi stund. Með þjálfun í núvitund (e. mindfulness) getum við komist út úr venjubundnu hugsananeti heilans og verið til staðar hér og nú í stað þess að vera flækt í hugsunum um fortíð eða framtíð. Með þessu móti áttum við okkur smám saman á því að vissir eiginleikar heilans eru ekki gagnlegir þegar kemur að því að leysa tilfinningalegan vanda og að hugsanir eru bara hugsanir.

Einnig getum við lært að lifa með óþægilegum tilfinningum. Ef við viðurkennum og horfumst í augu við þær verða þær áhrifaminni með tímanum. Flóttinn frá neikvæðum tilfinningum skaðar okkur yfirleitt meira en tilfinningarnar sjálfar.

Lykillinn að því að brjótast út úr þessum vítahring gæti því verið að gera það sem skiptir okkur mestu máli, vera til staðar í núinu og opna á erfiðar tilfinningar. Með öðrum orðum, að lifa lífinu lifandi.

Þessi hugmyndafræði er grunnurinn að sálfræðimeðferð sem kallast á ensku Acceptance and Commitment Therapy (ACT). Við göngum öll í gegnum erfiðleika einhvern tímann á lífsleiðinni og tökumst á við óþægilegar hugsanir og tilfinningar en mismunandi er eftir einstaklingum og tímabilum hversu hamlandi þetta er í daglegu lífi. Þessi meðferðarnálgun gæti gagnast þeim sem upplifa sig fasta í óheppilegu mynstri.

 

Guðrún Anna Jónsdóttir sálfræðingur rekur eigin sálfræðistofu hjá Sálfræðingum Höfðabakka auk þess sem hún starfar við rannsóknir á geðsjúkdómum hjá Íslenskri erfðagreiningu. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hennar www.gaj.is.

 

Ljósmynd af Flickr.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283