Kæru lesendur,
það rann upp fyrir okkur stöllunum á miðjum degi í gær að það er ár liðið í dag síðan Kvennablaðið leit dagsins ljós á vefnum! Ár! Heilt ár liðið frá því að við sátum aðfaranótt 7. nóvember 2013 í svefngalsa á skrifstofunni okkar og troðfylltum vefinn af greinum sem við vonuðum að myndu fyrirfinna lesendur sem hefðu gaman af.
Engin ritstjórnarstefna var tilbúin eða niðurnegld en nokkurt haldreipi höfðum við í orðum Bríetar Bjarnhéðinsdóttur stofnanda Kvennablaðsins sem sagði í bráðskemmtilegum pistli sínum til lesenda í fyrsta tölublaði meðal annars þetta:
„Eins og í boðsbrjefinu stóð, á ekki blað þetta að flytja pólitiskar greinar, heldur eingöngu gefa sig að konunum og heimilunum.“
Allir þeir sem skoðað hafa Kvennablað Bríetar vita að hún stóð ekki lengi við þau orð sín að halda sér utan pólitískrar umræðu og það höfum við ekki heldur gert, því samfélagsumræða er í eðli sínu alltaf pólitísk hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Fyrsta daginn heimsóttu nokkur þúsund manns vefinn og við vorum sallakátar. Núna ári síðar er staðan svona:
Heimsóknir á fyrsta ári 2,8 milljónir.
Frá upphafi var ákveðið að Kvennablaðið yrði opinn vettvangur fyrir þá sem vildu leggja orð í belg og við það höfum við staðið. Og á einu ári hafa 1680 greinar eftir rúmlega 200 höfunda birst í Kvennablaðinu; þeir eiga allar okkar þakkir skildar fyrir, því án þeirra hefðum við aldrei náð flugi.
Að reka vef eins og Kvennablaðið er ótrúlega skemmtilegt. Svolítið eins og að frumsýna á hverjum degi því aldrei veit maður fyrirfram hvað fellur lesendum í geð. Hjartsláttur samfélagsins er alveg óútreiknanlegur, eitthvað vekur athygli margra en annað sem okkur sjálfum finnst kannski allrar athygli vert fær lítinn lestur.
Við skoðuðum í dag lista yfir þau leitarorð sem oftast komu fyrir á vefnum okkar til að reyna að átta okkur á lesendahópnum og bjóðum ykkur að gera slíkt hið sama. Hér er orðaleitarlistinn og fyrst það orð sem oftast var leitað að:
1. Skjaldkirtill
2. Frozen vettlingar
3. Völvuspá
4. Bananakaka
5. Drusluganga
6. Lögreglan
7. Kókosolía
8. Hraunbær
9. Legslímuflakk
10. Pylsugerð
Hér er síðan listi yfir tíu mest lesnu greinarnar á fyrsta ári Kvennablaðsins:
1. Viðtal við barnsföður Hjördísar Svan
2. Mjólk er ógeðslegt eitur sem ber að banna
3. Hvað getur þú gert ef þú ert með vanvirkan skjaldkirtil?
4. Ég vil ekki þegja lengur
5. Opið bréf til Grindavíkurbúa
6. Er drekkutíminn búinn?
7. Til lögreglumannsins sem vildi vera í sumarfríi
8. Sambúð eða hjúskapur
9. Minningar um ofbeldissamband
10. Af ógæfufólki
Aðrir miðlar vitnuðu oft í greinar Kvennablaðsins, sem okkur þykir afskaplega vænt um, en samkvæmt okkar talningu var það svona:
Pressan – 79 sinnum
DV – 43 sinnum
Vísir – 28 sinnum
Mbl – 23 sinnum
Rúv.is – 13 sinnum
Eyjan – 12 sinnum
Grapevine – 10 sinnum
Herðubreið – 6 sinnum
Knúz – 4 sinnum
VB – 4 sinnum
Eiríkur Jónsson – 4 sinnum
Bleikt – 2 sinnum
Huffington Post – einu sinni.
Vert er að minnast þess þegar formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, gerði atlögu að Kvennablaðinu í kjölfar þess að samantekt Evu Hauksdóttur – Viskubrunnur Vigdísar – birtist á vefnum, og bað auglýsendur og fyrirtæki að sniðganga miðilinn fyrir að ráðast svona að kynsystur sinni. Tilhlaup Vigdísar hafði þveröfug áhrif og fengum við í kjölfarið marga nýja auglýsendur sem hafa staðið með okkur síðan, sem skipti sköpum fyrir tilveru okkar því Kvennablaðið er rekið á auglýsingatekjum eingöngu.
Greinar Þórhildar Sunnu um Hraunbæjarmálið vöktu að sama skapi mikla eftirtekt, enda lögfræðilegar úttektir á starfsháttum lögreglunnar sjaldséðar á Íslandi. Starf Þórhildar Sunnu er rétt að hefjast því hún leiðir nú hóp lögfræðinga sem munu fara með mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu gegn íslenska ríkinu fyrir hönd ættingja Sævars Rafns Jónssonar.
En erum við einhverju nær um lesendur Kvennablaðsins? Já og nei. Við vitum að lesendahópurinn er 70% konur og 30% karlar og við vitum að þeir lesa – og víla ekkert fyrir sér að lesa – langar greinar. Við vitum að þeir láta sig innviði samfélagsins varða. Við vitum líka að þeir láta í sér heyra þegar þeir eru kátir með eitthvað en líka þegar þeir eru ósáttir við einstakar greinar og það er gott! Samtalið skiptir öllu máli og þessvegna – á þessum tímamótum – ítrekum við að við óskum þess að sem ólíkastar raddir fái að heyrast.
Fólk vill heyra frá ykkur!
Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur á þessu fyrsta ári og við vonum að samtalið geti haldið áfram um ókomna tíð.
Með kærri kveðju
Steinunn Ólína og Soffía Steingrímsdóttir