Rétt mataræði er stór hluti af því að koma sér í form og að halda sér í formi.
Það er stór misskilningur að halda það að við sem erum menntaðir einkaþjálfarar séum gallalaus og stígum aldrei feilspor!
Ég berst við mataræðið á hverjum degi. Ég er með risa sætindapúka á öxlunum á mér sem er stundum með mig í einhverjum strengjum og stjórnar mér gjörsamlega. Ég ætla ekkert að fá mér súkkulaðið sem er uppí skáp en áður en ég veit af þá er ég búin með það, hugsunarlaust!
Maður kemur heim á kvöldin, kastar af sér útifatnaðinum og byrjar leita í öllum skúmaskotum í eldhúsinnréttingunni eins og mauraæta á innsoginu sem hefur ekki fengið æti í fjóra mánuði! Ef það er ekkert til í skápunum (þá meina ég sætt!) þá býr maður það til eða brunar útí búð eftir því!
Það að fara í veislur og vera í yfirþyngd þótti mér erfitt og finnst það stundum enn þann dag í dag. Tilfinningin um að finnast allir vera að skanna út hverju maður hrúgaði á diskinn sinn var oft yfirþyrmandi og tróð manni inn í óöryggisskelina. Til að sýna að maður hefur fulla stjórn á mataræðinu er bara farin ein ferð að veisluborðinu þó að tvær ferðir, eða fleiri, heilli meira! Oftar en ekki kom það fyrir að ég ákvað það í veislunni hvað ég ætlaði að kaupa mér í sjoppunni á leiðinni heim svo að ég gæti svalað sætindaþörfinni í næði! Svo röng hegðun en þarna var púkinn í essinu sínu.
Ég átti líka oft svona „hef enga stjórn“ stundir þegar ég mætti til vinkvenna minna í kjaftaklúbba. Ég gúffaði endalaust í mig og var oft með móral eftir á um að ég hefði hagað mér eins og óhemja. Átti það til að vera búin að spara mig í inntöku á fæðu alveg þangað til að maður mætti í boðið og þá tók púkinn völdin. Borðaði fyrir allar kaloríurnar sem ég „átti inni“ fyrir daginn og rúmlega það.
Matur er samt lífsnauðsynlegur! Við megum ekki gleyma því.
Mataræði er eitthvað sem við erum alltaf að velta fyrir okkur. Hvað á ég að taka með í nesti? Hvað á að vera í kvöldmatinn? Hvernig á ég að setja saman matinn svo að ég fái eitthvað úr öllum fæðuflokkum? Á ég að fá mér brauð eða sleppa því? Ætti ég að fá mér aftur á diskinn? Á ég að prufa þennan kúr eða hentar einhver annar kúr mér betur? Á ég bara að borða grænmeti? Má ég borða ávexti á kvöldin? Ætti ég bara að lifa á einhverju fljótandi? Ég gæti haldið endalaust áfram að telja upp spurningar sem hafa poppað upp í kollinum á mér í sambandi við mat.
Það getur enginn sagt við mig og látið mig halda það að það sé ekkert mál að passa upp á mataræðið. Ég bara trúi því ekki að það sé einhver þarna úti sem hefur aldrei misst kúlið hvað varðar mat.
Svo er bara svo gott og gaman að borða góðan mat. Ég vil að minn lífsstíll sé fjölbreyttur. Ég nenni ekki að naga þurrar kjúklingabringur eða slafra í mig Chia fræ alla daga. Þetta er allt spurning um hóf, jafnvægi og skynsemi!
Ég set mér vikuleg markmið og snúast þau flest öll að mataræði.
Langtíma markmiðin snúast meira um andlega vellíðan og árangur í ræktinni.
Í síðustu viku ákvað ég að borða ekkert sælgæti eða gos á virkum dögum.
Nú hugsa sumir: „Iss. Það er ekkert mál!“
Það er bara víst hellings mál fyrir manneskju sem getur ekki látið sælgæti í friði. Það er hrikalegt að fara í verslanir og vera bara búin að setja einungis holla fæðu í körfuna, koma svo að kassanum og þar eru stæðurnar af freistingum! Þar þyrfti ég að vera með svona leppa fyrir augunum eins og veðhlaupahestar. Manneskja eins og ég hugsar: „Ég er bara með hollan mat. Það sakar ekkert að kaupa þetta eina súkkulaðistykki!“. Svo set ég tvö stykki á færibandið, það tekur því jú ekki að kaupa bara eitt!
Afhverju eru ekki mandarínur og epli við kassana? Myndum við ekki hugsa okkur tvisvar um? Ég skora á verslanir að taka upp þann sið að færa sælgætið frá afgreiðslukössunum og hafa holla fæðu þar í staðinn!
Það er komið nóg af stjórnsemi sætindapúkans og mér finnst að hann eigi að víkja!
Þess vegna er ég komin með markmiðin upp á töflu.
Þetta gekk nokkuð vel fyrir sig í síðustu viku. Ég gat sett broskall á alla dagana nema föstudaginn. Þá gleymdi ég mér aðeins og fékk mér um 20 súkkulaðirúsínur, gætu samt alveg hafa verið 40 stykki. Ekki nennti ég að telja þær á meðan ég gúffaði dásemdinni í mig.
En ég er samt ánægð. Fjórir dagar án sælgætis er slatti! Fyrir mig allavega.
Það sem mér fannst „best“ við það að missa mig aðeins í súkkulaðinu var að ég fann hvað mér leið ekki vel af því. Höfuðverkur og slen. Það er góð áminning næst þegar mig langar að troða í mig sælgæti. Ég á vafalaust eftir að hugsa mig tvisvar um!
En ég ætla að leyfa mér að fá mér sælgæti og sætindi á tillidögum, ef mig langar í það. Við erum jú öll mannleg og við viljum lifa lífinu. Ég vil ekki sleppa sætindum alveg og þá ætla ég ekki að gera það. Við eigum að setja okkur markmið sem hæfa þeim lífstíl sem við kjósum okkur.