Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur, MSc sérsvið sjúkrahússkipulag og Auðbjörg Reynisdóttir, hjúkrunarfræðingur MBA skrifa:
Draumurinn um nýjan Landspítala er búinn að umturna heilbrigðiskerfinu, það gleymdist bara að láta vita af því. Fyrir tuttugu árum eða þar um bil hófst þessi draumsýn einhverra sem engin veit lengur hver er.
Sjúkrahúsin í Reykjavík
Einu sinni voru þrjú sjúkrahús starfrækt í Reykjavík, hvert og eitt með sitt sérkenni, sérhæfingu og samkeppni um gæði þjónustu, mannskap og fjármagn. Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar miðaðist við landið allt, það var ákveðið að sérhæfðasta þjónustan væri í Reykjavík, bæði vegna samgangna og vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu búa flestir landsmenn. Tækjabúnaður og aðstaða á stóru sjúkrahúsunum miðaðist því við það hversu mikla þjónustu þarf að veita á landsvísu.
Landsbyggðarsjúkrahúsin
Úti á landi voru misstór sjúkrahús með heilsugæslu, þjónustan miðaðist við hvaða þjónustu var skynsamlegt að veita. Stærð sjúkrahúsa og starfsemi tók mið af hversu afskekktur byggðarkjarninn var, hvað varðar landfræðilega legu og öryggi samgangna. Sjúkrahúsin voru flest vel útbúin tækjum sem fyrirtæki og hollvinasamtök gáfu, til að tryggja heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Öryggið fólst í því að sjúklingar fengu eins mikla þjónustu á sínu sjúkrahúsi og skynsamlegt var að veita, en sendir ‘suður’ ef ástæða þótti til.
Til að spara fólki ferðir komu farandsérfræðingar og sinntu sjúklingum, sama átti við um aðgerðir: Þegar þörf var á, var skurðstofan mönnuð af teymi farandsérfræðinga. Þetta fyrirkomulag var byggt upp til að heilbrigðisþjónustan myndaði öryggisnet fyrir landsmenn.
Sameiningar sjúkahúsa
Þegar Reykvíkingar höfðu lokið við byggingu Borgarspítalans, hófust sameiningar sjúkrahúsa. Fyrsta tilraunin var gerð á sameiningu Landakots og Borgarspítala, aðferðin var einföld: Það kom út skýrsla, fjárveitingar til Landakots voru skertar og Landakot var sameinað Borgarspítala. Skömmu síðar var Borgarspítali sameinaður Landspítala. Sameiningarnar áttu að skila rekstrarhagræði, samþjöppun þekkingar, betri nýtingu aðstöðu og ýmislegu öðru tilfallandi.
Þegar Ríkisendurskoðun gerði úttektir á sameiningum, kom í ljós að hagræðið fólst í því að það var hægt að fækka eldhúsum og að allskonar stjórnunarkostnaður bættist við, ásamt því að sameinuð sjúkrahús þurftu meiri pening en ekki minni – án þess að hægt væri að sjá að þjónustan hafi aukist. Landspítalinn svaraði þessari úttekt með skýrslu og niðurstaðan var nokkurnveginn á þá leið að það þyrfti að byggja nýjan spítala.
Nýr Landspítali fyrir alla
Næstu árin var mikill uppgangur í nefndum, erlendum ráðgjöfum og skýrslum um nýjan spítala. Í upphafi var gert ráð fyrir því halda áfram að veita heilbrigðisþjónustu úti á landi. Upp úr aldamótum skoðuðu nefndir þann möguleika að byggja eitt sjúkrahús, fá um leið háskólasjúkrahús og aðlaga heilbrigðiskerfið að starfsemi þess. Einhversstaðar í einhverjum nefndum, af einhverju fólki var ákveðið að byggja eitt stórt sjúkrahús við Hringbraut fyrir alla landsmenn, þannig fengju allir sömu þjónustu á sama stað.
Heilbrigðiskerfið aðlagað að nýjum spítala
Á sama tíma og landsmenn fengu að sjá fallegar teikningar af nýjum spítala var farið í að undirbúa heilbrigðiskerfið fyrir nýja byggingu. Nýjar nefndir voru skipaðar til að aðlaga heilbrigðisþjónustuna að starfsemi nýs Landspítala, þær skrifuðu skýrslur um að þjónustan úti á landi væri svona og hinsegin – ógnaði öryggi og að þessi þjónusta gæti líka verið veitt á Landspítalanum, ‚skýrslum‘ reiknaðist til að þjónustan á Landspítalanum yrði ódýrari vegna samlegðaráhrifa, samþjöppunar þekkingar, betri nýtingar aðstöðu og nálægðar við Háskólann. Álitsgjafar í hvítum sloppum birtust í fjölmiðlum við öll tækifæri komu þessum boðskap á framfæri.
Markvisst og hljóðlega ‘aðlöguðu’ ráðamenn heilbrigðiskerfið, sannfærðir um að lengi taki Landspítalinn við: heilbrigðislöggjöf var breytt, smærri stofnanir sameinaðar þeim stærri og þjónusta bætt með því að leggja hana af. Þannig hvarf svo lítið bæri á ódýrasta heilbrigðisþjónustan, úti á landi var skurðstofum lokað, Landlæknir fækkaði fæðingastöðum og farandsérfræðingar hættu ferðum sínum.
Á landsbyggðinni mótmæltu íbúar skertu öryggi og ráðherrar tóku við undirskriftum án þess að taka þær til greina – því umræðan þarf að vera á faglegum nótum en ekki á villigötum.
Forgangsröðun fjármuna með útstrikunum
Þingmenn tóku síðasta skrefið í aðlögun heilbrigðiskerfisins, þegar þeir samþykktu fjárlög fyrir þetta ár. Þegar fjárlög voru lögð fram varð hávær umfjöllun um 1.200.- kr. legudagagjöld á LSH. Í annari umræðu var fundin lausn með því að strika legudeildir úti á landi út af fjárlögum, LSH fengi upphæðina sem vantaði.
Í fjárlögunum sem voru samþykkt fyrir þetta ár var ákveðið að ‘forgangsraða fjármunum í rekstur Landspítalans’, það var gert með því að strika líka heilsugæsluna úti á landi af fjárlögum.
Sjúklingar á teikniborðinu?
Með þessari ‘forgangsröðun fjármuna’ var heilbrigðisþjónustan einfölduð til muna. Á landinu öllu eru nú tvö sjúkrahús: Annað í Reykjavík og hitt á Akureyri. Í hverjum landsfjórðungi eru samtals fimm heilbrigðisstofnanir. Í sumar voru landsbyggðarsjúkrahúsin ásamt heilsugæslunni (sem voru strikuð út af fjárlögum og þarmeð ekki til) sameinuð með reglugerð og um mánaðarmótin hófu nýráðnir forstjórar störf.
Sjúkrahúsið sem samkvæmt skýrslum á að taka við þjónustunni sem búið er að leggja af, er aðeins til á teikniborðinu. Á Landspítalanum eru allar deildir yfirfullar af sjúklingum, sem stjórnendur spítalans líta á sem fráflæðisvanda. Sjúkrahúsin um land allt standa tóm og sjúkraflutningar meiri en nokkru sinni fyrr.
Undanfarnar vikur hefur staðið yfir árviss fjölmiðlaviðburður, þar sem Landspítali og Háskólinn koma upplýsingum um áhrif kerfisbreytinga í heilbrigðisþjónustu á starfsemi spítalans á framfæri.
Leysist vandi heilbrigðisþjónustunnar með því að auka fjárveitingar til Landspítala og Háskóla, kaupa ný tæki og byggja ný hús við Hringbraut?