Leikarinn John Cusack hefur staðið í ströngu undanfarið eins og sjá má á Instagram-inu hans en þar gefur að líta ljósmyndir af verkum sem hafa mörg hver verið að dúkka upp á veggjum og jafnvel húsgögnum í borginni Vancouver.
Cusack, sem kallar sig Cusack Shakur á Instagram og vísar þannig til rapparans sáluga Tupac Shakur, virðist vera undir sterkum áhrifum frá bandarískri poppmenningu. Á meðfylgjandi mynd dæmi má sjá þakkargjörðarhátíðina og Miley Cyrus koma fyrir á sama tíma og Cusack stælir frægt atriði úr kvikmyndinni Say Anything.
Þá er hann líka afar heillaður af hljómsveitinni Wu Tang Clan og er eitt verkið skopstæling á klassísku plötunni Enter the Wu Tang þar sem Cusack notast þess í stað við frasann „Enter the Cu-Sack“.
Það sem er þó einna undarlegast er verk sem hann gerði á bílskúrsshurð þar sem fyrrum barnastjarnan Maculay Culkin er í hlutverki frelsarans krossfestur, agndofa, með lófa á hvorri kinn eins og frægt var úr kvikmyndinni Home Alone.
Athugið samt að það hafa verið uppi getgátur um að þetta sé hugsanlega ekki Cusack sjálfur heldur yfirgripsmikið grín frá jafnvel nokkrum aðilum.