Greinin birtist fyrst í 12. tölublaði, 4.árgangi Kvennablaðsins árið 1898.
Bæði börn og fullorðnir hlakka oft næstum alt árið til jólanna. Ég veit að mörg börn geyma engar minningar frá æskudögum sínum sem þeim eru jafnkærar og minningin um jólin heima hjá pabba og mömmu, hvort sem þau höfðu verið ríkmannleg eða fátækleg.
Því ættum vér á þessari hátíð sérstaklega að taka tillit til barnanna, svo jólin verði þeim einkum til gagns og gleði.
Vegna vinnukvennanna ætti helzt að haga mat og matmálstíma svo, að allir gætu verið búnir að klæða sig og gætu komið inn klukkan 6 um kveldið.
Þá koma allir saman í bezta herberginu, og sá sem vanur er að lesa, les húslesturinn, en allir sem geta syngja jólasálminn.
Siðan er dúkað borð og kaffi og kökur bornar inn, og setjast allir þá að sama borði og drekka kaffið. Þegar kaffidrykkjunni er lokið heyrist söngur úr næsta herbergi sem smáhækkar, og alt í einu er dyrunum lokið upp og í miðju herberginu stendur jólatré uppljómað af kertaljósum.
Upp til sveita, þar sem fólk hefir víða hvorki séð jólatré, eða hefir nein ráð með að veita sér grenitré, sem verður að panta frá útlöndum,má búa til jólatré með litlum tilkostnaði, því flestir munu viljugir að hjálpa til þess fyrir jólin.
Tréð má vera svo stórt eða lítið sem hver vill. Stofninn er fallegast að gera sem líkastan náttúrlegum tréstofni að hægt er, gildastan niður við rótina. Greinirnar verður að setja hingað og þangað, líkt og greinir á tré eða kvistir á hríslu. Náttúrlegast er að þær séu ekki þráðbeinar. Allar verða þær að snúa
eins og greinir á tré.
Ef hægt er ætti að mála tréð grænt eða líma utan á það grænleitan pappír. Fót verður að setja undir það, svo það geti staðið. Svo skal fá sér fallegt lyng, helzt eini, og bora göt svo þétt sem má með fínum bor um alt tréð og greinirnar, og stinga svo laglega fallegum lyngkvistum inn í götin. Þá er tréð albúið.
En svo er eftir að skreyta það. Ég geri hér ráð fyrir, að lítil efni sé fyrir höndum, og menn verði að hjálpa sér með litlu. Þá má klippa úr þykkum bréfum myndir af mönnum og dyrum, og reyna að mála það með blýant eða penna og bleki, helzt mislitu, og hengja hingað og þangað á tréð.
Ef til er mislitur pappír, og hann ætti að vera hægt að útvega fyrirfram, má búa til »kramarhús«, körfur og alla vega lagaða bréfpoka, láta þar í ofurlítið af rúsínum, sveskjum, sykri, brjóstsykri, eða hverju sælgæti sem til er og á trénu á að vera. Sé bómull til, má búa til kindur, hunda, ketti, krakka, bolta o. fl., festa í það tvinna og hengja það á greinirnar. Agætt er að geyma stanjól utan af súkkulaði, tóbaki og sápu og búa til ú því eitthvað á tréð. Það glansar svo vel við Ijósbirtunna.
Laglagt er að klippa út rósabekki eða blórabönd af pappír, helzt mislitum, vefja þá grein af grein og hengja þar á allra handa örsmátt dót. Sé til mjög linur járnvír eða látúnsvír er gott að búa til úr honum langa króka og hengja með því dótið á greinirnar.
Smákökur er bezt að hengja eina sér, en ekki í pokum. Seinast eru kertin látin eitt á hverja grein, og væri bezt að steypa þau í strokk að haustinu. Þau þurfa ekki stærri en mannsfingur,en auðvitað fer það eftir vild hvers eins. Þau má festa á greinirnar í kertapípur úr þykkum pappír, sem eru límd á hverja grein, eða festa sjálft kertið á greinina.
Þegar allir hafa skoðað tréð stm þeir vilja taka allir höndum saman og ganga samstiga (í »takt«) kringum jólatréð og syngja einhvern fallegan jólasálm, t. d.: »Heims um ból«.
Börnin, sem vön eru að fara að sofa snemma,fá nú að vera með.
Nú hvíla menn sig um stund; þá er lokið upp hurðinni og »jólasveinn« rekur inn höfuðið og spyr, hvort börnin hafi verið þæg í vetur.
Fullorðna fólkið segir »já«. »Það er gott«, segir hann, »við höfum þá komið á réttan bæ«. Svo hverfur hann snöggvast en kemur svo aftur með annan félaga og bera þeir eitthvað á milli sín, sem er fult með smá-bögla.
Einhver af fullorðna fólkinu fer þá að lesa utan á böglana. En jólasveinarnir, sem eru tveir krakkar í dularbúningi, hlaupa hingað og þangað með böglana, sem eru smágjafir til barnanna og fullorðna fólksins, leikfang, eða annað, alt eftir efnum og ástæðum. Ánægjan er þá á hæsta stigi.
En nú er börnin farið að langa í eitthvað að borða. Þá er lokið upp dyrunum að herberginu,sem húslesturinn var lesinn í, og þar er dúkað borð, svo vel sem föng eru á, með allra handa sælgæti. Á borðinu eru 2—4 kertaljós.
Við það setjast allir. En mest eru allir hissa á því, að hjá diskum allra stendur ofurlítil skál með rísgrjónagraut í: »Hvað á maður að gera með allan þennan graut« hugsa þeir. En þegar þeir stinga spæninum ofan í, þá tollir alt við. Og undir eru allrahanda kökur og sælgæti.
Þetta gaman er hægðarleikur að búa út. Klippa skal lok af þunnum pappír, sem er alveg mátulegt í skálina, og leggja það ofan á það sem er í skálinni. Á þetta lok skal leggja þunt lag af þykkum rísgrjónagraut. Grjónin verða að vera heil, en ekki soðin sundur. Ofan á grautinn er stráð steyttum kanel og sykri.
Ef einhverjum af lesendum Kvbl. líkaði þessi jólaskemtun að meiri eða minna leyti,
þá mundi það gleðja höfundinn.
* * *
Tekið að nokkru leyti eftir tillögu um jólaskemtun
eftir L o u i s e N i m b.