Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Matarskýrsla túrista frá París

$
0
0

Áður en við Sólveig, eiginkona mín, skruppum í nokkurra daga ferð til Parísar lofaði ég góðum vini mínum sem er matgoggur eins og ég að senda honum skýrslu um hvernig mér gengi að þefa uppi stórkostlegan mat í þessari háborg evrópskrar matarmenningar og draga ekkert undan.

Í hádeginu borðaði ég iðrapylsu (andouillette) á veitingahúsi við Refagötu (Rue de Renard). Þessum rétti hef ég stundum séð lýst sem miklu sælgæti í frönskum bókum. Þetta er eitthvað sem maður þarf trúlega að alast upp við að sé á borðum vikulega til að fá hina réttu tilfinningu fyrir gæðunum.

Pylsan var borin fram með feitri, að ég held rjómabættri hveitisósu, ljósbrúnni á lit og pönnusteiktum kartöflum.

Andouillette

Andouillette

Okkar á milli sagt þá hef ég ekki fengið það sem hægt er að kalla ætan bita á veitingahúsi síðan ég kom hingað (veitingahús með stífaða dúka og þjóna sem þurfa að sýna manni svo góða þjónustu að maður hefur ekki matfrið eru ekki minn sjóhattur) – en það kemur mér ekki á óvart því að enn þá hef ég ekki fundið franskt veitingahús sem býður upp á góðan mat, utan einu sinni að ég borðaði á stórkostlegum veitingastað rétt í nágrenni Aix-en-Provence fyrir nokkrum árum.

Ég efast ekki um að það sé hægt að fá hérna góðan mat á einhverjum veitingastöðum með stífaða hvíta dúka og þjóna sem þjóna svo hátíðlega að manni finnst maður vera staddur við guðsþjónustu eða fórnarathöfn hjá sértrúarsöfnuði vegna allra helgisiðanna og hefur varla matfrið, en slík musteri eru handan míns áhugasviðs – og allt verðlag hérna er eiginlega blöskranlegt, og þá er ég einkum að miða við Berlín.

Þessi andouille-pylsa er búin til úr iðrum og innkirtlum og smáskinku bætt í stöppuna. Ekki neitt sérlega gott nema þá væntanlega fyrir innvígða. Í eftirmat fékk ég bita af lagköku sem ódýru rommi hafði verið sullað yfir og skreytt með sætum gervirjóma. Sólveig borðaði fremur seigan smokkfisk í tómatsósu með soðnum hrísgrjónum og fékk dísætan karamellubúðing með gervirjóma og einni marengsköku í eftirmat. Þetta kostaði með lítersflösku af Vittel-vatni og tveimur bollum af espresso samtals 35 evrur (5400 kr. þegar maður var búinn að gefa barninu túkallinn – í þjórfé). Semsagt hádegisverðartilboð.

Enginn af þeim stöðum sem ég hef prófað hérna nokkru sinni kemst í hálfkvisti við til dæmis Sjávargrillið við Skólavörðustíg eða Friðrik V á Laugavegi nema hvað verðlagið er töluvert hærra.

Þetta er því undarlegra þar sem nóg af góðu hráefni er að finna í verslunum hérna og sem betur fer hægt að elda sér góðan mat fyrir skaplegan prís.

(Augljóslega er hægt að finna Michelin-staði og ofurdýra veitingastaði hérna í París, en ég held mig á slóðum venjulegs fólks sem hefur ekki ótakmörkuð fjárráð. En ef einhver veit um góðan og ódýran matsölustað hérna í námunda við mig þar sem ég er til húsa þessa stundina í 3. hverfi, Le Marais (Mýrinni) þá eru slíkar ábendingar þakksamlega þegnar – en ég er bæði of gamall og of latur til að panta borð með margra daga fyrirvara eða leggja á mig löng og ströng ferðalög í aðra borgarhluta til að kaupa heita máltíð).


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283