Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þökkum okkar fyrrverandi

$
0
0

Sigrún Gísladóttir Bates skrifar:

Mynd 3 fyrir grein svart hvít

Hvernig stendur á því að við, bæði konur og karlar, getum gleymt okkur yfir ævisögum einstaklinga sem við þekkjum ekki neitt en þegar kemur að lífshlaupi þess sem okkur langar að njóta seinni hluta ævinnar með viljum við ekkert af ævi þess einstaklings vita?

Ég fór að velta fyrir mér áhuga Íslendinga á ævisögum núna um daginn. Ástæðan var ekki útgáfa bóka sem fer af stað fyrir jólin heldur athugasemd vinkonu. Það sem fer óstjórnlega í taugarnar á henni er að maður sem hún hefur verið að hitta er ekki óskrifað blað, og nú erum við að tala um mann sem siglir hratt að sextugu! Hann átti einu sinni konu sem hann heldur góðu sambandi við og hann á börn og barnabörn.

Hvað er það sem gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag? Er það ekki lífspor okkar? Nú gengur aðventan í garð með tilheyrandi stundum sem pör eyða saman til að njóta þessa mánaðar. Á þeim stundum fer fólk að spjalla saman og oftar en ekki þvælist fyrrverandi inn í þá umræðu til ama fyrir nýja aðilann en til heilla fyrir þau fyrrverandi.

Vinkona mín trúði mér fyrir því að það færi óstjórnlega í taugarnar á henni að viðkomandi maður spjallar við sína fyrrverandi eiginkonu til margra ára og er að reynast henni vel, en hún hefur sjálf haldið áfram sínu lífi og er hamingjusöm.

Já, sumum konum gengur vel sem betur fer þrátt fyrir það sem ég skrifaði um í minni fyrri grein. Þessi fyrrverandi hjón halda eðlilegu sambandi og það er ekki bara af brýnni nauðsyn vegna þess að þau eiga börn saman heldur vegna þess að þau áttu líf saman.

Virðingin og vináttan skiptir þau enn þá máli og sjálfur Aristoteles sagði: „Hjónabandið er mikilvægt en vináttan er mikilvægust því vinir eru sjálfkrafa réttlátir gagnvart hvor öðrum.“

Þar kemur að því sem ég er að velta fyrir mér. Viljum við einstakling sem er óskrifað blað? Hvað er það sem heillar okkur í byrjun þegar við kynnumst nýrri manneskju? Jú, það er eitthvað og þetta eitthvað er reyndar ekki neitt smátt heldur risastórt.

Þetta risastóra er manneskja og hvernig getur manneskja komist í gegnum lífshlaup til fjölda ára án þess að mótast af einhverju leyti af maka sínum? Við megum ekki gleyma því að fyrrverandi maki átti þátt í að móta þennan einstakling sem við erum ástfangin af í dag. Svo í staðinn fyrir að pirrast yfir góðu sambandi við fyrrverandi eigum við að þakka fyrrverandi fyrir. Virða einstaklinginn sem við erum hrifin af og fyrrverandi fyrir að halda góðu og eðlilegu sambandi.

Lítum í eigin barm. Hver er ég? Jú, ég er þroskuð kona á besta aldri og hef fengið minn skammt af mótlæti eins og gengur og gerist en meðbyrinn hefur verið sterkari og það þakka ég. Með mínum fyrrverandi eignaðist ég börnin mín sem ég er óstjórnlega þakklát fyrir. Ég væri ekki sú sem ég er í dag ef ég hefði ekki átt líf áður sem hefur mótað mig.

Leyfið hinu smáa að gleðja ykkur, eitt lítið kertaljós getur gert kraftaverk. Og látið ekki fyrrverandi pirra ykkur heldur þakkið fyrrverandi fyrir manneskjuna sem þið eruð að heillast að.

Gleðilega aðventu!

Ljósmynd af Flickr


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283