Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Bleik bók sem leysir markaðsmálaflækjuna

$
0
0

Í gær bættist við heldur óvenjuleg bók í jólabókaflóðið. Hún er bleik, skrifuð af íslensku markaðsnördi um markaðsmál og gefin út á ensku. Við hjá Kvennablaðinu forvitnuðumst aðeins hjá Þórönnu Jónsdóttur, höfundi bókarinnar, um bleikar bækur, Amazon útgáfu og markaðsmál á mannamáli.

Þetta er ekki klassísk jólabók – af hverju bók um markaðsmál á þessum árstíma?

Bókinni var aldrei ætlað að vera jólabók. Það var barasta þannig að ég er búin að ganga með þetta í maganum rosalega lengi og svo kom bara að því að ég ákvað að kýla á þetta, sama hvað tautar og raular, og sama á hvaða árstíma það væri. Hún átti nú reyndar að koma út fyrir mánaðamót, þ.e. í nóvember, en ég vildi ekki að hún týndist í „Black Friday“ og „Cyber Monday“ og svoleiðis löguðu sem tröllríður öllu á netinu! :)

Hún er líka hugsuð fyrir alþjóðlegan markað og þar skiptir þessi tímasetning ekki eins miklu máli og hér heima. Þess vegna er hún skrifuð á ensku og gefin út á Amazon. Hún verður mögulega fáanleg á fleiri stöðum síðar, en Amazon er bara svo öflug markaðssetningarleið í sjálfu sér að ég ákvað að byrja þar. Þeir bjóða m.a. upp á að gefa bókina frítt á rafrænu formi, sem er frábær leið til að fá boltann til að rúlla. Ég vil einmitt endilega að sem flestir hérna heima næli sér í frítt eintak!

10841536_10152931871617495_335264257_n

Fyrir hvern er þessi bók?

Bókin er hugsuð fyrir þann hóp sem ég hef verið að vinna með sl. ár, þ.e. minni fyrirtæki og frumkvöðla sem hafa ekki mikla praktíska reynslu af markaðsmálum og þurfa „ekkert bull“-leiðarvísi. Það er rosalega mikið til um markaðsmál þarna úti, en það er oft flókið og óaðgengilegt efni og þetta er bara orðinn svo mikill frumskógur með tilkomu netsins, samfélagsmiðla o.fl. Það sem ég hef verið að gera hefur allt gengið út á að setja markaðsmálin fram á mannamáli og ég legg líka mikla áherslu á vinna með fólki sem hefur mikinn metnað fyrir fyrirtækjunum sínum.

Það er mér líka bara hjartans mál að hjálpa fólki að skilja út á hvað markaðsmálin ganga. Það eru svo margir sem koma til mín og eru fyrst og fremst að spá í hluti eins og hvar og hvernig eigi að auglýsa og svoleiðis. Það hins vegar er ekkert hægt að segja til um hvað virkar best þar nema að grunnurinn sé til staðar og fólk nálgist markaðsmálin á réttan hátt – þá hins vegar líka verður mun auðveldara að átta sig á þessu og ná góðum árangri. Maður getur kunnað tæknilega að nota auglýsingar á netinu, en ef grunnurinn er ekki til staðar þá er þetta eins og að kaupa sér rosalega flottan bíl en hafa ekki bílpróf og ekki hugmynd um hvert maður ætlar að fara. Það gerir ekki mikið gagn.

Svo finn ég líka fyrir því að mörgum finnst markaðssetning vera eitthvað svona ljótt. Margir eru hræddir við þetta og fá mynd af einhverjum svona sölugaur sem reynir að troða hlutum upp á fólk. Það eru ekki síst konur sem sjá þetta svona. Þetta er hins vegar alls ekki svona. Markaðsmál snúast ekki um að troða hlutunum upp á fólk. Þvert á móti snúast þau um að finna út hvernig maður getur sem best hjálpað fólki og að koma því á framfæri hvernig maður getur hjálpað. Ég tek oft eftir því þegar ég er að kenna eða með fyrirlestra að konum léttir mikið þegar þær átta sig á þessu.

Það er líka bara þannig að ef maður er í einhvers konar rekstri þá þýðir ekkert að láta markaðsmálin hræða sig. Ef þau eru ekki að virka, þá virkar ekkert annað. Markaðsstarfið nær í viðskiptavinina og án viðskiptavina þá lifir fyrirtækið einfaldlega ekki. Þetta er þess vegna eitthvað sem fólk bara verður að tækla.

Ef manni finnst maður vera að troða hlutum upp á fólk með því að selja þeim það sem maður hefur upp á að bjóða, þá þarf maður líka bara aðeins að fara að skoða hlutina hjá sér. Er maður kannski að selja eitthvað sem fólk þarf ekkert á að halda? Ef svo er, þá ætti maður kannski að fara að skoða aðra hluti. Ef þetta hins vegar er eitthvað sem fólk þarf, þá er ekkert fallegt af manni að láta það ekki vita að maður geti hjálpað þeim, ekki satt?


En af hverju er bókin svona rosalega bleik?!

Ha ha ha ha! Hún er bleik eins og allt efni sem frá mér kemur. Fólk spyr mig oft hvað ég sé eiginlega að hugsa með þennan bleika lit, en hann er sko útpældur frá markaðslegu sjónarmiði. Hann er táknrænn fyrir mig. Alveg eins og ég þá er hann líflegur, sterkur, kraftmikill og biðst ekki afsökunar á neinu. Hann nær líka klárlega athyglinni. Ég segi oft að ef fólk stuðast af þessum bleika lit, þá mun það hvort eð er stuðast af mér, svo það er bara best að fæla það í burtu strax, ha ha ha! Þeir sem eftir eru eru þá akkúrat rétta fólkið til að vinna með mér og þá er þetta líka allt svo miklu skemmtilegra :)

Bókin er eins og áður sagði komin út og er fáanleg frí fram á sunnudag á Amazon Kindle! Það er hægt að fá frítt Kindle-forrit í flesta snjallsíma, spjaldtölvur, fartölvur og borðtölvur. Allar upplýsingar má finna á http://thoranna.is/marketinguntangledbook/  Einnig kemur hún út á prenti fljótlega.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283