Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd þokast í rétta átt

$
0
0

Það má með sanni segja að málefni flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi verið í brennidepli þjóðfélagsumræðunnar undanfarið. Innanríkisráðuneytið og Útlendingastofnun hafa sætt gagnrýni fyrir ýmis atriði er varða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem og móttöku og aðbúnað umsækjenda og flóttamanna. Flestir sem koma að málefnum flóttamanna með einum eða öðrum hætti virðast sammála um að breytinga sé þörf og að þjónusta við þennan hóp sé ekki eins og best verði á kosið.

Að mati höfundar virðast stjórnvöld vera að taka við sér þó hóflega sé og má nefna endurskoðun útlendingalaga sem (vonandi) jákvæða þróun í þessum málaflokki. Á hinn bóginn er það visst áhyggjuefni að innanríkisráðuneytið hafi gert samning við Rauða kross Íslands um að taka alfarið að sér réttargæslu einstaklinga er sækja um alþjóðlega vernd hérlendis. Sérfræðingar á sviði flóttamannaréttar hafa gagnrýnt samninginn og lýst yfir áhyggjum um að þetta fyrirkomulag sé ekki til þess fallið að gæta hags umsækjenda í hvívetna.

Annað dæmi um jákvæða þróun er að Útlendingastofnun birti á dögunum frétt sem inniheldur ítarlega tölfræði um úrvinnslu umsókna um alþjóðlega vernd það sem af er ári 2014. Tölurnar eru um margt áhugaverðar en þar má sjá að lítilleg aukning hefur orðið á samþykktum umsóknum um alþjóðlega vernd á þessu ári. Einnig er eftirtektarvert að Útlendingastofnun birtir nú í fyrsta sinn frá því 2005, sundurliðaðar upplýsingar um þjóðerni þeirra einstaklinga sem fá vernd hér á landi.

Upprunaríki þeirra sem fengu veitt hæli

Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að Útlendingastofnun auki upplýsingagjöf með þessum hætti þar sem það hefur reynst áhugasömum um málefni flóttamanna mjög erfitt að verða sér úti um ítarlegar upplýsingar um meðferð mála hérlendis hingað til. Það hefur til dæmis vakið athygli höfundar að þegar rýnt er í árlega tölfræði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru sundurliðaðar tölur fyrir Ísland ekki fyrir hendi öfugt við flest önnur lönd. Þetta stendur nú til bóta en Kvennablaðið fékk það staðfest hjá Útlendingastofnun að framtíðarstefna stofnunarinnar sé að birta reglulega sundurliðaðar upplýsingar um þjóðerni þeirra er fengu samþykktar umsóknir um vernd. Það verður því fróðlegt að fylgjast með því í framtíðinni hverrar þjóðar þeir umsækjendur eru sem fá vernd, sem og þeir sem fá hana ekki.

Jákvæðar breytingar en hægfara þó

Fyrirsögn umræddrar fréttar vekur athygli höfundar, en hún segir vernd veitta í rúmum helmingi mála í efnismeðferð. Þó að það sé vissulega jákvæð þróun að samþykki umsókna um vernd fari vaxandi þá er rétt að benda á að enn er tæpum helmingi umsækjenda um vernd vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar svokölluðu án efnismeðferðar. Það er því að vissu leyti villandi að tala um að 57% hlutfall samþykktra umsókna þar sem tæpur helmingur allra umsókna er ekki tekinn til efnismeðferðar. Hlutfall samþykktra umsókna af heildarfjölda allra umsókna um vernd er 26% sem þó er töluvert hærra hlutfall en verið hefur undanfarin ár.

Afgreiðsla hælisumsókna

Undirrituð rýndi í ársskýrslur Útlendingastofnunar frá árunum 2008–2013 en þar er að finna tölur um afgreiðslu umsókna um vernd. Þegar tölurnar eru teknar saman fyrir þetta tímabil er hlutfall samþykktra umsókna um vernd einungis 12% (9% fengu hæli og 3% dvalarleyfi af mannúðarástæðum). Til samanburðar má nefna að Malta samþykkti 65% allra umsókna um alþjóðlega vernd á sama tímabili en vegna landfræðilegrar staðsetningar Möltu tekur landið á móti 26 sinnum stærri hópi umsækjenda heldur en Ísland. Heilt yfir litið er tíðni samþykktra umsókna um vernd því enn mjög lág á Íslandi, svo lág reyndar að alþjóðlegar stofnanir hafa gert alvarlegar athugasemdir við íslenska ríkið vegna þessa.

Því er ljóst að enn er ýmsu ábótavant í málaflokknum. Þróunin virðist almennt jákvæð, þó hæg sé, og aukin umræða um málefni flóttamanna í þjóðfélaginu gefur tilefni til bjartsýni. Að mati höfundar verðum við þó ekki þjóð meðal þjóða hvað varðar mannúðaraðstoð fyrr en málefni flóttamanna eru tekin til heildstæðrar endurskoðunar á öllum sviðum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283