Mér finnst stórundarlegt að vera orðin þrítug og lenda enn í aðstæðum þar sem mér eldri karlmenn horfa á mig með svip sem segir „er pabbi þinn heima?“
Ég starfa sem markaðsstjóri Skjásins og sit þar í framkvæmdastjórn. Fyrir ekki svo löngu sat ég fund ásamt manni sem þekktur er í þjóðfélaginu og nokkrum öðrum. Hann virtist hálf undrandi þegar ég lokaði hurðinni á fundarherberginu, settist við borðið og hóf fundinn. Það voru ekki liðnar fimm mínútur þegar maðurinn, sem er alla jafna kurteis og skemmtilegur, sagði: „Ég bjóst nú við að forstjórinn sæti fundinn.“ Með þessu fylgdi: „Er pabbi þinn upptekinn?“-svipurinn en þessi ágæti maður er þó nokkuð eldri en ég – sem og forstjórinn. Hann vildi sem sagt eiga “karlaspjall”.
Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa spurningu, en svaraði manninum kurteislega að nei, forstjórinn kæmi ekki, enda hefði ég heimild til að taka allar þær ákvarðanir sem þyrfti að taka á þessum fundi. Það vildi nefnilega svo skemmtilega til að ég væri starfi mínu vaxin.
Hann virtist ekki sáttur en kinkaði þó kolli og áfram hélt fundurinn. Nokkrum dögum síðar heyrði ég hann svo vísa í mig sem „stelpuna“.
Ég hugsaði með mér að honum fyndist líklega ekki smart ef samstarfsmenn konunnar hans eða dóttur töluðu svona um þær. Ég hef gegnt stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs í nokkur ár og bjóst við að tilvikum sem þessu myndi fækka og þau deyja út með tímanum. Bæði myndi ég sanna mig í starfi og eldast. Hvorugt virðist duga. Mennirnir eldast nefnilega líka og hugsunarháttur þeirra með. Feðraveldið fitnar bara.
Vinkona mín sem stofnaði eigið fyrirtæki fyrir rúmu ári mætti sama fasi þar sem hún stóð kasólétt og var að skoða húsnæði fyrir fyrirtækið. Karlmaður á miðjum aldri sem sá um úthlutun húsnæðisins benti henni „góðlátlega“ á að hætta þessu veseni og fara bara heim að ala upp barnið. Önnur vinkona mín sem gegnir pólitískri stöðu í borginni og hefur unnið mikið starf við að gera borgina aðgengilegri fyrir gangandi og hjólandi fékk kaldar kveðjur frá einum kaupmanni miðborgarinnar sem kunni ekki við að Laugaveginum væri breytt í göngugötu. Hann sagði einfaldlega að svona puntdúkkur með dúkkutillögur sem væru einungis gerðar til þess að einhverjar dúkkulísur gætu labbað um með barnavagna.
Þennan hugsunarhátt þekkjum við því miður flestar og hann er ekki bara bundinn við konur. Eldra fólk talar um að það finni oft fyrir lítilsvirðingu í sinn garð. Fleiri hópar þekkja þetta en, ég ákvað að taka konur fyrir þar sem ég þekki best sjálf þá tilfinningu.
Fyrir stuttu fékk mér yngri kona eftirsótta stjórnunarstöðu í stórfyrirtæki. Frétt þess efnis birtist í fjölmiðlum. Stuttu síðar sátum við nokkrar vinkonur og spjölluðum saman þegar þessi ráðning bar á góma.
„Hvað er verið að ráða svona unga stelpu í þetta djobb?“ spurði ein, af forvitni frekar en illkvittni.
„Hver er eiginlega pabbi hennar?“ spurði önnur.
„Það vill svo til að hún hefur gríðarlega flotta reynslu og menntun,“ svaraði ég.
„Þekkirðu hana?“ spurði önnur vinkona mín hissa.
Ég skammaðist mín fyrir ástæðu þess að ég hafði kynnt mér konuna. Ég hafði staðið sjálfa mig að þeim sama hugsunarhætti og hefur oft sært mig. Ég hugsaði nefnilega um þessa ungu konu, sem á fullt erindi í þetta starf en vill svo til að er yngri en ég, sem „stelpuna“. Eftir að ég hafði kynnt mér málið betur og séð hversu hæf hún er dauðskammaðist ég mín. Af hverju þurfti ég að googla hana til að fullvissa mig um að hún ætti fullt erindi í starfið? Var mér að vaxa fordómapungur með pabbakomplexa?
Það er stutt í hálfvitann í manni sjálfum. Ég ætla að vanda mig við að detta ekki í hálfvitann aftur. Við eigum það nefnilega flest til.