Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Ríkisútvarpið er ekki minning um liðinn tíma“

$
0
0

Gunnarshúsi, 15. desember 2014

Ríkisútvarpið: Áskorun frá stjórn Rithöfundasambands Íslands

Þeir sem unnið hafa að landrækt vita, að margra ára og áratuga iðja óteljandi huga og handa, getur eyðilagst á örskömmum tima. Þá myndast rof sem erfitt er að græða. Þeir fjölmörgu sem unnið hafa að þvi að skapa menningu þessarar þjóðar þurfa nú að horfa upp á eyðileggingaröfl gera að engu áratuga uppbyggingarstarf.

Stjórn Rithöfundasambandsins skorar á stjórnvöld að íhuga viðtækar afleiðingar þess að grafa undan starfsgrundvelli Rikisútvarpsins. Einstakri, merkri arfleifð, ásamt nýsköpunarstarfi er nú ógnað vegna vöntunar á framsýni og virðingu fyrir þvi sem þessi þjóð á í sameiningu. Þekkingarrofið sem þá verður gæti reynst ómögulegt að græða.

Slíkt rof hefur orðið hjá öðrum menningarþjóðum sem vegna vöntunar á varðveislu arfleifðarinnar, er nú lítið annað en máttlaus minning. Það gerist ekki vegna nátturúhamfara eða eðilegrar þróunar heldur vegna hugsunarleysis og skammsýni.

Og hroka. Göngum við að styrk okkar vísum, dæmum grundvöll okkar sem gamaldags og óþarft safn sem við þurfum ekki lengur á að halda til að bjarga okkur?

Ríkisútvarpið er ekki minning um liðinn tíma. Ríkisútvarpið er meginstofnun lýðræðis okkar og sjálfstæðis. Við ættum að vera stolt af þvi að eiga opinberan vettvang skapandi tilraunastarfs á nærandi grunni arfleifðarinnar. Tökum höndum saman við að gera öllum kleift að eiga aðgang að þeim vettvangi.

Nú er tími umbreytinga. Leyfum ekki að þessi grunnstofnun lýðræðis sé ábyrgðarlaust brotin niður. Virkjum heldur kraft og hugrekki til að byggja áfram upp vettvang fyrir raddir þjóðarinnar.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands

Kristín Helga Gunnarsdóttir formaður
Jón Kalman Stefánsson varaformaður
Hallgrímur Helgason
Sölvi Björn Sigurðsson
Úlfhildur Dagsdóttir
Gauti Kristmannsson
Oddný Eir Ævarsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283