Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Letihaugurinn þinn

$
0
0

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju dauðasyndirnar sjö eru kallaðar dauðasyndir. Í hverju dauðarefsingin liggur. Til dæmis letin, hversvegna liggur dauðarefsing við henni?

Góður vinur minn segir gjarnan: „já, hann dó í sófanum fyrir framan sjónvarpið liðlega tvítugur en var samt ekki jarðaður fyrr en um áttrætt.“

Það er einmitt þarna sem minn skilningur liggur á hugtakinu „dauðasynd“. Með því að iðka letina þá neitar maður sér um svo margt gott í lífinu og bara druslast í gegn um það hálfdauður. Fer á mis við allskonar góðgæti sem í boði er á hlaðborði hamingjunnar. Maður tekur ekki ábyrgð á eigin lífi, gjörðum, hugsunum, skoðunum og svo framvegis, af því að maður nennir því ekki.

Á fyrsta ári lífsins snýst allt um að ná tökum á handleggjum og fótum. Stendur upp aftur og aftur þrátt fyrir endalausar byltur. Alveg harðákveðinn í að labba út í þennan heillandi heim sem bíður manns. En svo hægt og rólega vinnur maður sig inn í einhvern þægindaramma og bara dvelur þar.

Ég er ekki að tala um þegar maður nennir ekki í bíó eða nennir ekki að standa upp og ná í meira snakk eftir erfiðan vinnudag. Það er stór munur á því að vera latur og vera þreyttur. Reyndar getur þreytan gert mann latan en það hristir maður af sér. En svo gerir letin mann líka þreyttan. Það er miklu erfiðara að losna þaðan.

Hjá mér er letin svo inngróin einhvernveginn finnst mér að ég þarf að beita sjálfan mig heraga til að komast í gegn um daginn sáttur. Besti tími dagsins er fjallgangan með hundinn. Við höfum farið nær daglega upp Úlfarsfellið og þetta er það sem líf hundsins snýst um. En ég … ég þarf að standa í samningaviðræðum við sjálfan mig í næstum hvert einasta skipti. Taka veðrið, tékka óunnin húsverk, kíkja á heimaverkefni úr vinnunni og skoða streymið.

Ég hef sem betur fer oftast tapað þessum samningaviðræðum hundinum í vil.

Það skrítna er að ég elska útiloftið og veit alveg upp á hár hvað mér líður alltaf vel um leið og ég er kominn í skóna, að ég tali nú ekki um þegar ég er að fara úr þeim eftir gæðastund á fjallinu með Oríon, en samt þarf ég þvílíkt að peppa mig. Ef mig hinsvegar langar í kex og mjólkurglas þarf engar samningaviðræður. Samt verður mér alltaf bumbult af því.

Stjórnvöld misgóð starfa alla jafna í skjóli letinnar. Flestir nenna ekki að hafa skoðanir á þjóðfélagsmálum. Fólki finnst leiðinlegt að mynda sér skoðun. Auðveldasta leiðin er að hlusta á sérfræðinginn og besservisserinn á kaffistofunni þusa og jánka og bölva með yfir því hvað allt sé glatað og óréttlátt og kjósa svo bara samt eitthvað sem maður þekkir svona bara af því að maður veit alveg upp á hár hversu bumbult manni verður af Homeblestinu en það fylgir því samt eitthvað öryggi og hlýja.

Það er meira en að segja það að fara út í að mynda sér sjálfstæða skoðun. Ég meina, er ekki mjög ólíklegt að menn eins og Sigmundur og Bjarni ljúgi?? Að trúa í blindni útheimtir minnst jarðrask. Best að velja það. Það er þetta sem við veljum að kalla „gullfiskaminni kjósenda“, en þetta er auðvitað bara leti. Ef allir á kaffistofunum nenntu að fylgja skoðunum sínum eftir værum við kannski í sameiningu að byggja upp fallegt og spennandi samfélag.

Það er búið að malla þó nokkurn tíma í hugskoti mínu að gerast grænmetisæta. Borða oft hjá Sollu í hádeginu og ég verð bara að viðurkenna að mér líður alltaf svo vel eftir matinn hennar. Svo draga ákveðnir vinnufélagar mig stundum upp i Múlakaffi eða eitthvað annað í kjötflykki og ég er líka ansi sleipur að hantera kjöt sjálfur en maginn er bara alltaf níðþungur á eftir. Bara átök að melta bola meðan maður er algjörlega banahress fyrir seinnihálfleik eftir Sollu.

En góðir hálsar, það sem hindrar mig í að taka skrefið er leti. Ég nenni ekki að ganga í gegnum þann pakka að læra að elda uppá nýtt, læra að kaupa inn, læra hvar nauðsynleg næringarefni fást, taka slaginn á heimilinu með nýjan matseðil. Samt er ég algjörlega sannfærður um að þetta væri heillaskref fyrir alla. En það standa yfir samningaviðræður. Spennandi að vita hvort skynsemin nær að leggja letina.

Ég veit líka að ég er umhverfissóði. Það er engin afsökun fyrir mig þó þjóðin sé það meira og minna öll. Ef ég legg ekki mitt af mörkum til bættrar umgengni við náttúruna get ég þá ætlast til að aðrir geri það? Undarlegt hvað menn eru alltaf miklir talsmenn lausna sem innifela fyrirhöfn fyrir aðra en þá sjálfa. Ég viðurkenni að hvert skref í rétta átt getur verið flókið.

Bara einfalt mál eins og að minnka plastpokanotkun. Ég meina nennir maður að muna alltaf eftir margnotapokanum þegar lagt er út í daginn á morgnana eða nennir maður að keyra heim eftir honum áður en farið er í búðina? Á maður að nenna að koma sér upp einhverju kerfi fyrir þetta smámál? Það var reyndar ekki flókið þegar á reyndi. Margnota innkaupapokarnir eiga heima í hanskahólfinu á bílnum. Alltaf þar tilbúnir í slaginn. Þurfti aðeins að þjálfa minnið, það var allt og sumt. En það er bara svo ofboðslega margt sem ég get gert meira til að heiðra móður náttúru sem ég hef ekki nennt í ennþá.

Lötustu þingmennirnir okkar eru sennilega svokallaðir frjálshyggjumenn. „Látum markaðinn ráða,“ kyrja þeir. Við nennum ekki að spá í hvað það nákvæmleg þýðir, en það hljómar sannfærandi. Þeir samt í leti sinni nenna ekki að upphugsa neitt sniðugt fyrir markaðinn að lifa á. Allt og sumt sem þeir nenna er að hjóla í sameignina, klípa af henni. Það er minnst fyrirhöfnin og kallar ekki á neina frjóa hugsun.

Þjóðin er hvort sem er í leti sinni öll með Nóbelsverðlaun í „Gullfiskaminningum“ því það útheimtir nákvæmlega ekki neina fyrirhöfn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283