Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kiljan og markaðsöflin

$
0
0

Kristín Sigurðardóttir skrifar:

Kristín Sigurðardóttir

Kristín Sigurðardóttir

Eiga markaðsöflin að ráða hvenær fjallað er um nýútgefnar bækur?

Þá eru jólin liðin og á náttborðinu mínu er nýútgefin bók eftir íslenskan höfund. Þessi bók fékk umfjöllun og góða dóma í Kiljunni nokkrum vikum fyrir jól og ég get sótt umfjöllunina því nálgast má efni Kiljunnar þrjá mánuði aftur í tímann. Bókin er sú fyrsta sem ég les af nýútkomnu efni þessarar bókavertíðar.

Ég les nefnilega sjaldan nýjar bækur fyrir jól því þótt ég kaupi nýjar bækur þá eru þær yfirleitt ætlaðar til jólagjafa og síðan fæ ég sjálf og fjöldkylda mín nokkrar bækur í jólagjöf og lesning þeirra dugar mér oft fram á vorið.

Ég tel að svipað sé farið um fjöldann allan af hinni íslensku bókaþjóð. Fæstir hafa efni á að kaupa bækur til eigin lestrar á aðventunni. Almenningur les þær bækur sem koma á heimilin yfir jólin og nálgast aðrar hjá vinum og vandamönnum.

Það er greinilegt að bókakynningar og ritdómar um nýútkomnar bækur stjórnast af þörfum markaðsaflanna. Eftir jól fellur öll bókaumfjöllun í fjölmiðlum niður og engin Kilja er fyrstu tvo miðvikudagana í janúar. Vissulega þurfa rithöfundar að kynna afurðir sínar en þjóðin gæti trúlega líka þegið umræðu um bækurnar á mesta lestrartímanum.

Ég sakna Kiljunnar og vil benda Agli Helgasyni á að hægt er að vera með útdrætti úr fyrri Kiljuþáttum með völdu efni sem hann getur undirbúið fyrir jólafríið sitt eða nýtt á einhvern hátt hina undraverðu tækni og sent okkur efni þaðan sem hann er staddur þessa fyrstu daga janúarmánaðar.

Ráði markaðsöflin að miklu leyti hvenær fjallað er um nýútkomnar bækur er frekar hætta á að gestir Kiljunnar og aðrir bókagagnrýnendur fari varlega í óvægna gagnrýni af ótta við að slíkt hafi áhrif á sölu bókarinnar.

Bókmenntaþátturinn Kiljan er eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni, missi ég af þættinum sæki ég hann ætíð við fyrsta tækifæri vegna þess að ég hef gaman af umfjöllun og gagnrýni á bókmenntir og listir.

Ég sé á vef RÚV að sækja má Kiljuna þrjá mánuði aftur í tímann. Það finnst mér sem dyggur lesandi nýútkomins efnis of stuttur tími vegna þess að ég eins og fjöldinn allur af bókaunnendum hef skertan tíma til bóklestrar vegna atvinnuþátttöku og fjöldkyldustarfa.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283