„Lífið er eins og að hjóla. Til að halda jafnvægi þá verðurðu að halda áfram!“ – Albert Einstein
Það sem mér finnst best við áramót er að það er eins og við séum að byrja upp á nýtt.
Við fáum að bæta okkur, gera hlutina öðruvísi, setja ný markmið og prufa nýja hluti.
Samfélagsmiðlarnir loga af alls kona heilsusamlegum hernaðaráætlunum sem eiga að láta mann sigra stríðið á stuttum tíma og með miklum krafti.
Ég man að áramót voru alltaf erfið fyrir mig.
Ég vildi að hlutirnir væru öðruvísi og ég vildi að allt yrði miklu betra á komandi ári.
Síðan breyttist ekkert og öll áramót voru sorgleg að þessu leyti.
Ég var eins og enn að hjakkast í sömu vanlíðaninni.
Ég byrjaði alltaf janúar á því að ætla að bæta mig. Hreyfa mig og borða hollt.
Yfirleitt entist ég í viku því að breytingin var svo mikil að ég náði ekki að halda hana út.
Það er nauðsynlegt að taka þetta í skrefum.
Ef markmiðið er að hreyfa sig meira á komandi ári og þú ert ekki manneskjan sem hefur átt kort í líkamsræktarstöð, ekki byrja þá að fara í ræktina sex sinnum í viku. Settu þér það markmið að fara einu sinni í ræktina og kannski tvisvar í göngutúr.
Ef þú hefur aldrei tekið mataræðið þitt í gegn en ætlar að gera það núna, ekki byrja þá á því að taka út glúten, sykur, hveiti og allt hvað þetta nú heitir. Taktu lítil og léttari skref. Hvernig væri að byrja bara á því að hætta að drekka sykraða drykki? Drekka bara vatn.
Við verðum að muna að það er stórvarasamt að ætla sér að sigra heiminn með töfralausnum, öfgahugmyndum og áætlunum sem eru svo langt frá daglegri rútínu manns. Og hvað þá að ætla sér það á örfáum vikum. Það er eins og skólabókardæmi að það virðist ekki ganga upp og nær ekki að verða að lífsstíl. Við viljum það, er það ekki? Við viljum að árangurinn endist ævilangt en ekki bara fram á sumar, er það ekki annars?
Ég vildi óska þess að einhver hefði komið til mín í byrjun hvers árs og sagt:
„Harpa, þú ert búin að standa þig vel, þú ert frábær eins og þú ert! Þú getur og vilt gera betur, vandaðu þig meira og þá sigrarðu þína ósigra. Mundu samt að það gerist ekki á einni viku, einum mánuði eða einu ári! Þetta er ævilangt verkefni!“
Ég er búin að ákveða að þetta ár verður frábært.
Enda er það einungis undir mér komið að hafa það þannig en ekki einhverjum öðrum.
Ég ætla að sigra nokkra af mínum ósigrum og setja mér markmið í átt að því að komast yfir aðrar hindranir sem taka lengri tíma að vinna í. Ég ákveð hvort árið verði betra en eitthvað annað ár. Ég set mín markmið og ég ákveð hvernig ég vinn í þeim. Ég mun pottþétt fá aðstoð við þau, enda er það bara frábær leið til að komast nær þeim. Ég mun ekki þurfa á skyndilausnum að halda né óraunhæfum heráætlunum því að ég er að vinna í sjálfri mér til frambúðar.
Munum bara að þegar við förum af stað, full af krafti í að vilja breyta lífsstílnum til betri vegar, að við erum frábær eins og við erum!
Núna hefst nýtt ár og er það eins og óskrifuð bók með 365 blaðsíðum.
Ég ætla að skrifa þessa sögu þannig að hún verði eftirminnileg, spennandi og áhugaverð.
Hvernig verður þín saga?
Gleðilegt nýtt ár!