Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fyrirtæki í eigu Íslendings sér alfarið um birgðaflutninga til Guantanamo

$
0
0

Í grein Hauks Más Helgasonar í sem birt var í Reykjavík Grapevine í dag má ráða að fyrirtæki í eigu Íslendings gegni lykilhlutverki  í því að viðhalda kerfisbundinni pyntingarherferð Bandaríkjamanna í hinu svonefnda „stríði gegn hryðjuverkum.“

Guðmundur Kjærnested er meðeigandi og varaframkvæmdarstjóri bandaríska skipaflutningafyrirtækisins Transatlantic Lines LLC sem hefur séð alfarið um að flytja birgðir frá Bandaríkjunum til herstöðvar þeirra í Guantanamoflóa frá árinu 2001.

Guðmundur Kjærnested

Guðmundur Kjærnested

Fram kemur í frétt Grapevine að Guðmundur vildi ekki veita viðtal þegar hann fékk að vita efni umfjöllunar blaðsins.

Í greininni kemur ennfremur fram að Transatlantic Lines LLC hafi séð herstöðinni í Guantanamo – og þar með hinum margfordæmdu fangabúðum sem þar eru staðsettar – fyrir öllum birgðum frá árinu 2002. Samkvæmt Grapevine var Transatlantic Lines LLC stofnað af Guðmundi Kjærnested í Connecticut í Bandaríkjunum árið 1998 á svipuðum tíma og dótturfyrirtæki þess, Atlantsskip.

Sama ár hlutu fyrirtækin tvö sinn fyrsta samning við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna til þess að sjá herstöðinni í Keflavík fyrir birgðum. Þegar herstöðinni var lokað árið 2006 var Transatlantic Lines þó búið að tryggja aðra þjónustusamninga við varnarmálaráðuneytið bandaríska.

Í fréttabréfi herdeildarinnar sem fer með umsjón fangabúðanna og herstöðvarinnar sem birtist 2002 kemur fram að fraktskipið „The Guantanamo Express“ sé „líflína“ herstöðvarinnar en það hefur flutt birgðir frá Florida til Guantanamo tvisvar í mánuði allar götur síðan.

Að Guantanamo-samninginum frátöldum sem Haukur Már verðmetur í tugum milljóna Bandaríkjadala tók fyrirtækið einnig að sér að flytja birgðir til Camp Justice herstöðvarinnar sem staðsett er á eyju í Indlandshafi.

Camp Justice hefur lengi verið nefnt líkleg sem eitt leynifangelsanna sem Bandaríkjamenn notuðu til þess að pynta grunaða hryðjuverkamenn. Transatlantic Lines hefur landað 27 samningum við varnarmála- og öryggisráðuneyti Bandaríkjanna frá árunum 2000-2014 og er því skilgreint sem „large government contractor“ en samningana segir Haukur samtals vera að andvirði 184 miljóna Bandaríkjadala.

Samkvæmt Grapevine varð Atlantsskip, systurfyrirtæki Transatlantic Lines gjaldþrota árið 2008 en óljóst er hvort Atlantsolía sem áður var einnig skilgreint sem systurfyrirtæki Transatlantic sé enn tengt stórabróður vestanhafs.

Eins og flestum er kunnugt hýsir herstöð Bandaríkjamanna í Guantanamoflóa alræmdar fangabúðir þar sem hundruðum einstaklinga hefur verið haldið í meira en áratug vegna meintra tengsla þeirra við hryðjuverkasamtök á borð við Al Qaida og Talíbana.

Búðirnar hafa víða verið fordæmdar fyrir gróf mannréttindabrot gegn föngum sem flestir hafa setið inni í fleiri ár án réttarhalda. Ásakanir um pyntingar og aðra ómannúðlega meðferð hafa meðal annars verið staðfestar af Amnesty International og fyrrverandi föngum og nú síðast af Bandaríkjamönnum sjálfum í pyntingaskýrslu þingnefndar njósnamála í Bandaríkjunum.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283