Gunnar Smári Egilsson skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook síðu sinni og gaf Kvennablaðinu góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.
Talið er að af um 6 milljón Frökkum sem eru múslimar hafi um 1500 manns farið til Sýrlands og nágrennis að berjast fyrir samtökin Ríki Islam. Það eru 0,025% múslima í Frakklandi. (Reyndar eru það ekki bara múslimar sem fara til Sýrlands. Nokkur dæmi eru um að kristnir eða trúlausir Frakkar gerist múslimar til fá að vopnast, berjast og drepa. Fyrir þeim er það nokkurra bæna virði að fá að myrða annað fólk.)
Nú hefur þingmaður óskað eftir að rannsókn verði hafin á þeim 1500 manns á Íslandi sem eru annaðhvort múslimar eða koma frá löndum Islam vegna gruns um að þeir hafi eða séu til í að berjast fyrir ISIS eða al-Qaeta.
Miðað við hlutfall franskra múslima mætti reikna með að rúmur þriðjungur af íslenskum múslima (37,5% af einum manni) hefði farið til Sýrlands – eða rúm 25 kíló sé miðað við fullorðinn karlmann í góðri æfingu.
Úr þeim hópi Frakka sem hafa barist fyrir al-Qaeta eða ISIS var einn sem stóð að morðunum í París í síðustu viku. Það eru 0,0667% af þeim Frökkum sem hafa farið í stríð þessara samtaka. Ef við notum það hlutfall á þessi rúmu 25 kíló af fullorðnum íslenskum múslima sem tölfræðilega kynni að hafa farið til Sýrlands, þá getum við gert ráð fyrir að um 18 grömm af honum fremji ódæðisverk. Það er minna en einn putti.
Ef einhverjum finnst þetta skrítinn og tilgangslaus útteikningur þá bendi ég á að hann rýmir ágætlega við reynslu Íslendinga af múslimum. Þess eru engin dæmi að nokkur múslimi á Íslandi hafi hótað einu eða neinu í nafni trúar sinnar og þess eru engin dæmi að múslimi á Íslandi hafi skaðað nokkurn mann í nafni trúar sinnar. Allt tal um að Íslendingum stafi hætta af múslimum er hugarburður og þvættingur.
Þótt útvíðar buxur, bítlalög og órímuð ljóð hafi ratað til Íslands er það alls ekki svo að allt sem gerist í heiminum berist á endanum til Íslands. Það er ekki einu sinni svo að allt sem hugsað er í heiminum sé líka hugsað á Íslandi.
Ísland er strjálbýlt og fámennt jaðarsvæði langt frá næsta þéttbýli og fæst af því sem er til í heiminum fyrirfinnst á Íslandi. Þar hafa ekki verið borgarstyrjaldir í 750 ár og aldrei bylting; ekkert pólitískt morð, engin sjálfsmorðsárás, ekkert sprengitilræði.
Almenningi á Íslandi stafar engin ógn af öðru en þeim stjórnvöldum sem hann kýs yfir sig á fjögurra ára fresti. Þeir sem halda að allt sem gerist í París eða Baghdad muni á endanum líka henda á Íslandi hafa örugglega hvorki komið til Parísar eða Baghdad. Né vakað á Íslandi.
Ef Íslendingar vilja óttast voðaverk lík þeim sem framin voru í París ættu þeir fremur að líta til Bandaríkjanna þar sem læknar og hjúkrunarlið sem vinnur við fóstureyðingar er reglulega myrt og sjúkrastofur þeirra sprengdar í loft upp. Þar hafa lögreglumenn og öryggisverðir sem gæta þessa fólks einnig verið myrtir. Þessi morð eru framin með svipuðu hugarfari og morðin í París.
Þótt fóstureyðingar (skopmyndir af spámanninum) séu leyfilegar í samfélaginu þá stríðir slíkt gegn lögum Guðs og þau lög verða ávallt æðri lögum manna. Og samkvæmt lögum Guðs eru þeir réttdræpir sem framkvæma fóstureyðingar (teikna spámanninn) og það er heilög skylda trúaðra að framfylgja dómi Guðs þótt slíkt kalli yfir þá refsingu manna.
Kristnir eru miklu fleiri en múslimar á Íslandi og hættan sem stafar af þeim að sama skapi meiri. Öfugt við múslima hafa kristnir á Íslandi haft uppi allskyns hótanir í nafni trúar sinnar; hótanir sem reyndar beinast einkum að múslimum.
Á lóð kvennadeildar Landspítalans kemur lítill hópur kristinna saman einu sinni í viku til að lýsa andstyggð sinni á fóstureyðingum og krefjast þess að þeim verði hætt.
Það er því mun rökréttara að hefja rannsókn á mögulegum hermdarverkum kristinna en múslima á Íslandi. Kristnir eru fleiri, þeir eru herskárri og þeir hafa þegar hafið mótmælastöðu til að draga athygli trúbræðra sinna að því málefni sem helst getur kallað á morð og hermdarverk kristins fólks.