Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Heimsókn á Dúkkuheimili

$
0
0

Fór í heimsókn á Dúkkuheimili. Sá sýningu Borgarleikhúss á þessu gamla verki í nýrri þýðingu Hrafnhildar Hagalín. Var mjög spennt. Þekki verkið ekki vel en vissi þó að þetta væri dramatískt ádeiluverk.

Dúkkuheimilið var skrifað af Norðmanninum Henrik Ibsen og fyrst frumsýnt árið 1879 og álitið innihalda mikla ádeilu á hlutverk konunnar, þótt höfundur sjálfur hafi sagt að hann væri einungis að lýsa manneskjunni og stöðu hennar í samfélaginu.

Á þeim tíma hefur hlutverk konunnar berskjaldast í verkinu og vakið mesta athygli en það er svo margt annað í því sem á einstaklega vel við nú um stundir. Enda kemur það vel fram í þessari sýningu. Með tengingu við samtímann, kristallast í gegn endurspeglun á óendanlegri eigingirni mannskepnunnar og hvernig hún eitrar út frá sér. 

Áherslan er á firringuna í samfélaginu og brenglaða hlutverkaskipan, hvorutveggja úr tengslum við tilfinningar og raunveruleg gæði. Sjálfhverfan alger og persónurnar í þrældómi brenglaðra gilda sjúks neyslusamfélags. Hljómar kunnuglega! Líklega, því þetta á einstaklega vel við í dag. Öll hlutverk í lífi manneskjunnar orðin uppfull af óraunverulegum gildum og kröfum, þannig að allir reyna að hlaupa hratt undan ábyrgð, sársauka, erfiðleikum. Þessi sanna lýsing á raunveruleikanum birtist ljóslifandi á sviðinu í Borgarleikhúsinu.

Kannski gerði þessi svipmynd af tengslalausum, veruleikafirrtum og fölskum manneskjum það að verkum að mér fannst persónurnar sem birtust á sviðinu flatar. Þær náðu mér ekki.

Mér var bara alveg sama um Nóru, sem er aðalkvenpersónan, þótt hún lendi í hremmingum. Að hennar mati. Jú, jú veröldin hennar riðar til falls, veröld sem hún hefur átt þátt í að skapa. Hún er nefnilega ekki eina dúkkan á þessu heimili. Eiginmaðurinn er ekki síðri dúkka og það fannst mér koma skýrt fram.

V2-712319997

Hann er líka í sjálfsmyndarkrísu og fangelsi óraunhæfra væntinga, sinna eigin, samfélagsins og eiginkonunnar. Í raun allt saman hálfgert brúðuleikhús. Þrjár aukapersónur koma inn í heim hjónanna, þær eru alveg jafn lausar í lofti eins og hjónin.

Eftir hlé breytist sýningin talsvert og náði meiri dýpt að mínu mati. Nóra fær nóg og setur niður fótinn. Gerir sér grein fyrir því að hlutverkaleikurinn virkar ekki. Það var fallegt og þá náði hún mér aðeins.

Leikmyndin og öll umgjörðin er mjög flott og í takt við tón verksins. Sandurinn á sviðinu fannst mér sterk tilvísun til þess kviksendis sem lífið og tilveran er. Og það er erfitt að byggja eitthvað á sandi.

Samt var eitthvað sem angraði mig alla sýninguna. Eitthvað sem mér fannst ekki ganga upp, fannst vanta einlægni í leikinn, þar til alveg í restina. En ég er ekki sérfræðingur í uppbyggingu karaktera sem settir eru fram á leiksviði.  Kannski var ég bara ekki upplögð og ekki ætla ég að kenna dúkkum þessa töff heimilis um það.

En ég vil finna eitthvað, innra með mér þegar ég fer í leikhús, láta persónurnar á sviðinu heilla mig. En það gerðu þær ekki, því miður. En ádeilan náði mér. Og fyrir það þakka ég. Ég vona bara að aðrir í salnum hafi líka tekið hana til sín en ekki bara klappað því sýningin hafi verið töff og fengið góða dóma.

En misjafn er smekkur manna og er það vel. Munum bara að skortur á sjálfstæðri hugsun er nú einmitt hluti firringarinnar. Vildi bara nefna það.

Dúkkuheimili eftir Henrik Ibsen í þýðingu Hrafnhildar Hagalín, frumsýnt 20. desmember 2014 á stóra sviði Borgarleikhúss. Leikstjóri: Harpa Arnardóttir. Leikendur: Unnur Ösp Stefánsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Þorsteinnn Bachmann, Valur Freyr Einarsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir, búningar: Filippía I. Elíasdóttir, lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson, dramatúrgía: Hrafnhildur Hagalín, tónlist: Margrét Kristín Blöndal, hljóð: Garðar Borgþórsson, leikgervi: Margrét Benediktsdóttir, sýningarstjórn: Ingibjörg E. Bjarnadóttir.

Ljósmyndir/Borgarleikhús


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283