Það er óhætt að segja að tjáningarfrelsi hafi verið aðalumræðuefnið í Evrópu ef ekki um heim allan undanfarna viku. En nákvæmlega hvað er tjáningarfrelsi og hver eru takmörk þess? Ég ætla hér að leitast við að útskýra, í tveimur hlutum, rétt allra til þess að tjá sig og hvaða lagalegu takmörkum sá réttur sætir.
„But at least let us have no more nonsense about defending liberty against Fascism. If liberty means anything at all it means the right to tell people what they do not want to hear.“
George Orwell
Tjáningarfrelsi hefur verið mjög til umræðu undanfarið og virðist mörgum þessi grundvallarréttur lýðræðissamfélagsins eiga undir högg að sækja nú sem aldrei fyrr. Fyrst og fremst er tjáningarfrelsisumræða undanfarinna daga sprottin af þeim voðaverkum sem áttu sér stað í París fyrir rétt rúmri viku síðan þegar ódæðismenn réðust inn á ritstjórnarfund skopteiknitímaritsins Charlie Hebdo og myrtu tólf manneskjur, að því er virðist til þess að hefna móðgandi skopteikninga blaðsins af Múhameð spámanni.
Árásin hefur víða verið stimpluð sem hrottaleg aðför að tjáningarfrelsinu og milljónir manna um allan heim hafa sýnt starfsmönnum Charlie Hebdo og rétti þeirra til tjáningarfrelsis samstöðu.
Morðin í París voru kveikja að ógrynni greina og hugleiðinga um tjáningarfrelsi og frjálsa fjölmiðlun. Þá ekki síst hér heima þar sem umræðan hefur snúist í eins konar naflaskoðun Íslendinga um tjáningarfrelsi hérlendis.
Nýleg eigendaskipti á DV og fordæmalaus niðurskurður á fjármagni til Ríkisútvarpsins hafa verið tekin sem dæmi um aðför að frjálsri fjölmiðlun á Íslandi á sama tíma og gagnrýni á fordómafull ummæli Ásmundar Friðrikssonar hafa verið sögð skerða tjáningarfrelsi þingmannsins.
Hvað er tjáningarfrelsi?
Nú þykist höfundur alls ekki hafa lesið allar greinar né kynnt sér alla fjölmiðlaumfjöllun um voðaverkin í París – nú eða stöðu tjáningarfrelsis á Íslandi – en það lítur út fyrir að fjölmiðlum sem og pistlahöfundum hafi láðst að útskýra tjáningarfrelsið sjálft. Það er miður því tjáningarfrelsi er ekki auðskilið hugtak og því alls ekki gefið að fólk átti sig á því í hverju það felst.
Áðurnefndar staðhæfingar um að gagnrýni á Facebook-stöðufærslu þingmannsins Ásmundar Friðrikssonar um að rannsaka eigi bakgrunn allra sem aðhyllast íslam á Íslandi teljist skerðing á tjáningarfrelsi eru dæmi um skilningsleysi á hugtakinu. Ekki nóg með það heldur virðist sjálfur forsætisráðherra Íslands ekki skilja almennilega út á hvað tjáningarfrelsið gengur ef marka má nýlegt viðtal við hann í Reykjavík síðdegis.
Rétturinn til tjáningarfrelsis á sér langa sögu og skilgreining þess og takmarkanir eru ólíkar eftir heimshlutum. Eflaust má því skrifa mikið ítarlegri grein um tjáningarfrelsið, sögu þess og mismunandi birtingarmyndir heldur en það sem hér fer á eftir. En þar sem voðaverkin áttu sér stað í París og lesendur Kvennablaðsins eru í meirihluta búsettir á Íslandi er ætlunin hér að útskýra tjáningarfrelsi eins og það er skilgreint af Mannréttindadómstól Evrópu.
Greininni verður skipt í tvo hluta, sá fyrri mun snúa að skilgreiningu á tjáningarfrelsi og hvað fellur undir það en sú síðari mun útskýra takmarkanir tjáningarfrelsisins og þær hömlur sem ríkisvaldið má setja því.
Tjáningafrelsi: Mannréttindasátttmáli Evrópu versus Stjórnarskrá Íslands
10. Grein. Tjáningarfrelsi
1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.
Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur á Íslandi þann 19. maí 1994 og rúmu ári síðar var íslensku stjórnarskránni breytt til þess að samrýnast ákvæðum sáttmálans. Það á líka við um skoðanafrelsið sem er útlistað í 73. grein Stjórnarskrárinnar:
73. Grein Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Eins og sést eru ákvæðin svipuð þó segja megi að tjáningarfrelsinu sé sniðinn þrengri stakkur í íslensku stjórnarskránni heldur en í Mannréttindasáttmálanum. Þess ber þó að geta að samkvæmt þjóðarétti eru ákvæði Mannréttindasáttmálans æðri stjórnarskrám og öðrum lögum innan einstakra meðlimaríkja. Þetta þýðir að ef íslensk lög stangast á við ákvæði Mannréttindasáttmálans eiga þau að víkja. Það þýðir líka að túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á tjáningarfrelsisákvæði sáttmálans ætti að hafa fordæmisgildi í íslenskum dómstólum.
Því miður virðast dómstólar á Íslandi alls ekki sammála þessu mati höfundar þar sem þeir hafa írekað hundsað tilraunir verjenda sakborninga í meiðyrðamálum til þess að reiða sig á túlkun Mannréttindadómstólsins á tjáningarfrelsinu. Þessi afneitun íslenskra dómstóla á skilgreiningarvaldi Mannréttindadómstólsins hefur að því er virðist haldist óbreytt þrátt fyrir ítrekaðar ávítur og dóma hins síðarnefnda um ólögmæti úrskurða hinna fyrrnefndu.
Tjáningarfrelsið: Innihaldslýsing
Eins og sjá má á fyrstu málsgrein tíundu greinar Mannréttindasáttmálans einskorðast tjáningarfrelsið ekki við rétt fólks til þess að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti. Heilt yfir nær tjáningarfrelsið yfir eftirfarandi:
- Frelsi til þess að hafa skoðanir
- Frelsi til þess að meðtaka upplýsingar og skoðanir
- Frelsi til þess að dreifa upplýsingum og skoðunum
Ríkisvaldinu er óheimilt að hefta flæði upplýsinga og tjáningar innanlands sem utan nema í samræmi við þær undanþágur sem finna má í annarri málsgrein ákvæðisins.
Frelsi til þess að hafa skoðanir
Frelsi til þess að hafa skoðanir er frumskilyrði þess að njóta megi frelsis til þess að meðtaka og dreifa upplýsingum og skoðunum. Frelsið til þess að hafa skoðanir er sérstakt að því leyti að takmarkanir annarrar málsgreinar eiga ekki við um það. Þannig má ríkisvaldið ekki mismuna borgurum á grundvelli skoðana þeirra né heldur neyða þá til þess að tjá skoðun sína. Frelsi til þess að hafa skoðanir felur einnig í sér vernd gegn neikvæðum áhrifum þess að fólki séu gerðar upp skoðanir með því að álykta út frá fyrri ummælum þeirra eða tjáningu.
Frelsi til þess að hafa skoðanir þýðir líka frelsi frá heilaþvotti stjórnvalda. Það er að segja að ríkisstjórnir eiga að forðast að heilaþvo þegna sína, til dæmis með einhliða og einsleitri upplýsingagjöf til almennings.
Frelsi til þess að meðtaka og deila upplýsingum og skoðunum
Eðli málsins samkvæmt hlýtur frelsið til þess að meðtaka og deila upplýsingum og skoðunum að fara saman og telst þessi pakki grundvallarskilyrði fyrir lýðræðislegu þjóðfélagi. Þar er sérstaklega átt við frelsi fólks (og þá sérstaklega fjölmiðlafólks) til þess að gagnrýna ríkisstjórnina en það er einmitt algert skilyrði fyrir frjálsum kosningum.
Tjáningarfrelsið er líka frelsi til þess að þegja eða neita að tjá skoðun sína.
Þá fellur listsköpun (og skoðun) undir tjáningarfrelsið, en einnig önnur form tjáningar og framsetningar upplýsinga eða skoðana eins og ljósmyndir, myndir, ákveðið háttarlag og jafnvel klæðaburður.Frelsið nær yfir allar mögulegar leiðir til þess að meðtaka og deila upplýsingum og skoðunum, þ.e. með ræðum og riti, með útvarpi eða sjónvarpi, í gegnum samfélagsmiðla eða netveitur eins og Youtube eða í gegnum gagnaveitur hvers kyns.
Fjölmiðlafrelsi
Þó að orðalag tíundu greinar minnist ekki sérstaklega á fjölmiðlafrelsi þá hefur Mannréttindadómstóllinn gert því sérstaklega hátt undir höfði í dómum sínum og þróað ítarlega skilgreiningu á réttindum og skyldum fjölmiðla vegna þess hvað þeir gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki í að tryggja tjáningarfrelsið. Hlutverk fjölmiðla er þannig að stuðla að opinni og gagnrýnni umræðu um stjórnmál og önnur mikilvæg mál er varða almannahag og yfirvöld þurfa að réttlæta það alveg sérstaklega ef þau ætla sér að skerða málfrelsi fjölmiðla á einn eða annan hátt.
Tjáningarfrelsi er ekki allra alltaf
Það virðist algengur misskilningur á Íslandi (og örugglega víðar) að gagnrýni eins á skoðanir annars feli í sér skerðingu á tjáningarfrelsi. Það er ekki réttur skilningur á tjáningarfrelsinu og takmörkunum þess. Næsti kafli mun útskýra hvað felst í því að skerða tjáningarfrelsi, hvenær það má og hvenær ekki. Þar mun einnig koma fram af hverju hvatning til ofbeldis, hatursorðræða og rasismi falla ekki undir tjáningarfrelsið og hvaða aðstæður aðrar ríkisvaldið má lögum samkvæmt telja upp sem ástæðu takmarkana á tjáningarfrelsi samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.