Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hægri, vinstri, snú…

$
0
0

Undanfarna daga hefur svokallaður Political Compass; áhugavert sjálfspróf á netinu um hægri/vinstri hugmyndafræði í stjórnmálum, komist svolítið á kreik á félagsmiðlunum.

Prófið er skemmtilegt og útgangspunktur þess er skynsamlegur; að skipta hægri/vinstri ásnum í tvennt, hnitakerfi þar sem frjálslyndi er mælt á einum ás og markaðshyggja á öðrum. Hins vegar hafa líklega flestir tekið eftir því að spurningarnar eru frekar „bandarískar“; þ.e. byggja á bandarískum klofningsþáttum (deilumálum) miklu frekar en íslenskum. Hugsanlega hafið þið líka tekið eftir því að langflestir Íslendingar lenda í græna svæðinu neðst til vinstri, jafnvel á mjög svipuðum stað.

Það er reyndar áhugaverð niðurstaða í sjálfu sér – en sem innri samanburður Íslendinga fremur gagnlítið. Að öllum líkindum er það vegna þess að flestar spurningarnar sem draga mann til hægri eru um frekar róttæka markaðshyggju, á meðan flestar sem draga mann upp snúast um býsna trúarlega íhaldssemi, andstöðu við fóstureyðingar o.þ.h. Þessi viðhorf eru (blessunarlega) í nokkrum minnihluta á Íslandi.

Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að hægri og vinstri eru mjög huglæg og samfélagslega mótuð hugtök. Þau þýða gjarnan voðalega misjafna hluti milli samfélaga og tímabila; þó almenn afstaða til ríkisafskipta sé nokkuð sameiginleg merking þá er nánari merking kvarðans býsna mismunandi. Raunar táknuðu hugtökin upphaflega og lengi vel afstöðu til breytinga, íhaldssemi vs. umbætur. Ýmsir stjórnmálasálfræðingar hafa síðan komist að þeirri niðurstöðu að afstaðan gagnvart breytingum annars vegar og ójöfnuði hins vegar skýri enn í dag best hægri/vinstri stöðu einstaklinga á alþjóðavísu. Þessi tvívíða merking hugtakanna er enn víða við lýði, sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem ruglingurinn milli íhaldsmanna og frjálshyggjumanna á hægri vængnum er sérstaklega áberandi.

Upphafleg merking hugtakanna á rætur sínar í frönsku byltingunni við lok 18. aldar; þar sem íhaldsmenn, aðalsmenn og stuðningsmenn konungsins sátu hægra megin í salnum frá þingforseta séð, en umbótamenn, lýðræðissinnar og róttæklingar vinstra megin. Sagan segir að þegar leið á 19. öld hafi vaxandi hreyfing sósíalista og kommúnista beinlínis sest vinstra megin við lýðræðissinnana þannig að þeir neyddust til að sitja sífellt nær íhaldsmönnunum á hægri vængnum!

Nánari umfjöllun um þetta má finna í BA-ritgerð sem svokallaður ég skrifaði við HÍ vorið 2012. Þar leitaðist ég m.a. við að kanna merkingu hugtakanna í íslensku samhengi og gerði könnun meðal Íslendinga – því miður sjálfvalda og því með ódæmigerðu úrtaki, vegna praktískra takmarkana (monní) – sem engu að síður leiddi mig að ýmsum ályktunum sem mér þóttu áhugaverðar.

Íslenska samhengið

T.d. var mjög áberandi samhljómur um það hvaða fullyrðingar/hugmyndir teldust til hægri/vinstri hugmyndafræði og þá hvoru megin kvarðans þær væru (yfirleitt yfir 90% samhljómur). Með aðstoð þáttagreiningar einfaldaði ég þetta í amk. tvær víddir hægri og vinstri sem hefðu nokkuð sterka fylgni en þó alls ekki algilda (ca. 0,4 Pearson’s R, fyrir nörda); nefnilega félagslegt frjálslyndi annars vegar og markaðshyggju hins vegar.

Hins vegar var mjög sterk samstaða um að frjálslyndi væri hægra megin á  kvarðanum, sem er einmitt öfugt við bandaríska samhengið sem birtist í Political Compass. Þá var mjög athyglisvert að klassísk eða kristileg íhaldssemi virtist almennt ekki talið hluti af kvarðanum og þau viðhorf höfðu auk þess litla fylgni við hægri/vinstri viðhorf. Með fyrirvara um ódæmigerð úrtaksins, þá virtist yfirlýstur áhugi, hægri/vinstri staða svarenda o.fl. ekki hafa marktæk áhrif á þessar skoðanir svo þær gefa amk. áhugaverða vísbendingu.

Í nýlegu viðtali virðast Eiríkur Bergmann og/eða Jakob Bjarnar (svolítið erfitt að sjá hvað kemur frá hvorum þeirra) ganga út frá svipaðri skiptingu, nema þar er alþjóðahyggju blandað við frjálslyndisskalann og það er óljóst á hverju þeir byggja staðsetningu flokkanna. Gögnin úr okkar könnunum benda ekki til sérstaklega sterkrar fylgni frjálslyndis og „alþjóðahyggju“ (ESB) og það er t.d. ekki ljóst hvers vegna Píratar eru hærra en Samfylkingin sem er þó hærri en Björt Framtíð… né þá hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er talinn nær þjóðernishyggju en frjálslyndi.

Eiríkur Bergmann segir að vinstri/hægri dugi ekki lengur til skilgreiningar á hinu flokkspólitíska korti.

Kosningavitinn

M.a. með þessar hugmyndir að leiðarljósi gerðum við Eva Heiða Önnudóttir sambærilegt sjálfspróf í snarhasti fyrir Alþingiskosningarnar 2013; Kosningavitann eða HelpMeVote-Iceland – í samvinnu við Ioannis Andreadis, sem stofnaði HelpMeVote kerfið og stýrði í Grikklandi 2012 sem og víðar, Félagsvísindastofnun, Áttavitann o.fl.

Prófið byggir á spurningum úr BA-rannsókninni, Íslensku Kosningarannsókninni og um fleiri dægurmál og mælir annars vegar almenna málefna-nálægð við flokkana sem voru í framboði þar, sem og staðsetningu svarenda m.v. framboðin á íslenskum „Political Compass“ (staðsetning framboða byggðu á þeim svörum sem bárust frá frambjóðendum og staðsetningu sérfræðinga á stefnumálum þeirra).  Sá viti er semsagt lagaður að íslenskum aðstæðum og klofningsþáttum, og að hugmyndum Íslendinga um hægri og vinstri eins og þau birtust í áðurnefndri rannsókn. Viðbrögðin voru framar væntingum; okkur bárust yfir 30 þúsund svör á þessum ca. 2-3 vikum sem Kosningavitinn var í hámæli!

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_allir

Kosningavitinn – Dreifing flokka og allra svarenda

 

Úrtakið var auðvitað líka ódæmigert en þó miklu stærra en hitt og var að flestu leyti í samræmi við þær niðurstöður. Dreifing svarenda á vitanum var líka verulega mikil og náði yfir hann nánast allan, sem er til marks um að honum hafi tekist að mæla ansi vel íslenska klofningsþætti.

Ekki er síður áhugavert að skoða hvernig þeir ca. 16 þúsund svarendur, sem merktu við hvaða flokk þeir ætluðu að kjósa í alþingiskosningum það vorið, dreifast á kortinu. Kort af kjósendum hvers flokks fylgja hér á eftir, ásamt meðalstöðu (á bilinu 0 -1) á félagshyggju/markaðshyggju og forsjárhyggju/frjálslyndi kvörðunum. (Staðalfrávik hópanna var mjög svipað, á bilinu 0,24-0,34 – Ath. aftur að úrtakið var ekki dæmigert þó það væri stórt)

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins – Markaðshyggja: 0,361 Frjálslyndi: 0,133

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_Sjálfst.

Kjósendur Framsóknarflokksins – Markaðshyggja: 0,032 Frjálslyndi: -0,079

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_Framsókn

Kjósendur Bjartrar Framtíðar – Markaðshyggja: -0,158 Frjálslyndi: -0,032

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_BF

Kjósendur Samfylkingarinnar – Markaðshyggja: -0,217 Frjálslyndi: -0,136

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_samfylking

Kjósendur Vinstri-Grænna – Markaðshyggja: -0,465 Frjálslyndi: -0,275

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_VG

Kjósendur Pírata- Markaðshyggja: -0,182 Frjálslyndi: 0,317

Kosningavitinn_kjósendur&flokkar_Píratar

Segið svo að stjórnmálafræði sé ekki skemmtileg!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283