Nýverið var leiksýningin Konubörn frumsýnd og standa sýningar yfir í Gaflaraleikhúsinu. Leikstjóri sýningarinnar er kraftaverkakonan Björk Jakobsdóttir leikkona, leikskáld og leikstjóri. Björk á heimsigra að baki en leikrit hennar Sellófan hefur eins og margir vita farið víða um lönd við frábæran orðstír. Björk hefur fyrir utan vel þekkt starf sitt í atvinnuleikhúsunum starfað heilmikið með ungu fólki sem leikstjóri og sinnt mikilvægu skapandi uppeldi innan framhaldsskólanna. Björk er ein af þessum konum sem getur allt. Hún er sjálfsörugg, það sópar að henni og hún liggur ekki á skoðunum sínum. Konubörn er nýjasta sýningin sem Björk leikstýrir og verkið sem samið var af þessum sex ungu leikkonum varð til undir hennar stjórn.
Konubörn. Frábært orð. Orð sem allar konur skilja. Í auglýsingu um sýninguna stendur:
„Hvað gerir maður við líf sitt þegar maður er hvorki barn né kona? Hvenær verður maður eiginlega fullorðinn? Er það þegar maður hættir að borga barnagjald í sund? eða þegar maður fermist?, eða þegar maður hættir að skammast sín fyrir að kaupa túrtappa? Eða er það þegar maður er farinn að nota orð eins og meðvirkni og öll boð sem maður fer í eru með sushi og kampavíni og allir eru að tala um áhrif hrunsins?“
Björk þú stoppar ekki, hvaðan færðu þessa orku til að fást sífellt við nýsköpun?
Þegar maður byrjar að fást við nýsköpun er erfitt að fara til baka. Það er svo miklu skemmtilegra að skapa frá grunni. Mín ástríða er að gera leikrit sem eru um og tala til fólks á Íslandi í dag. Ætli ég fái ekki orkuna mína úr því að gera hluti sem mér finnast skemmtilegir.
Annars er nú ekki mikil orka í minni í dag. Maður er alltaf eins og tóm blaðra eftir frumsýningu, en nú safnar maður orku um helgina og byrjar svo á nýju verki með Gunna og Felix, “Bakaraofninn þar sem matargerð er list.” Svo þarf líka að æfa upp Heili, Hjarta Typpi sem byrjar aftur í sýningum 6. febrúar. Þannig að við verðum með þrjú frumsamin íslensk verk í vetur á sviði Gaflaraleikhússins.
Geri aðrir betur segi ég nú bara! Ég verð hálf örmagna á því að hugsa um vinnuálagið á þér en segðu mér Þú hefur ekki einskorðað þig við leiklistina, þú skrifar og leikstýrir, á leikhúsið hug þinn allan?
Nei, leikhúsið á ekki hug minn allan. Ég er ekki sú týpa sem held að leikhúsið sé upphaf og endalok alls. Leikhúsið er bara einn af mínum vinnustöðum. Ég hef líka gríðarlegan áhuga á að efla sköpun í skólastarfi og því að vinna með ungu fólki. Ég hef séð hvað þetta hefur mótandi áhrif á krakka og það er klár munur á hugmyndaauðgi og sjálfstrausti barna sem fá virka kennslu í sköpun. Svo er ég líka mikil sveita- og dýrakona og er farastjóri á hestbaki á sumrin. Nú og svo er ég mamma allt árið um kring.
Finnst þér listnámi gert nógu hátt undir höfði í skólakerfinu og hvers vegna er það mikilvægt að vinna með ungu fólki í leiklistarstarfi?
Af því að það er ekki nóg að vera góður á bókina. Þótt þú fengir 11 í meðaleinkunn þá skiptir það engu máli ef að þú getur ekki staðið í lappirnar og horft óhræddur í augun á fólki og kynnt hugmyndir þínar, staðið fyrir máli þínu.
Ég er gríðarlega ánægð að það sé farið að leggja meiri áherslu á skapandi nám í skólum. Ég hef aldrei skilið af hverju leiklist þykir ekki þess verðug að fá fastan sess í námskrá. Leiklist er svo sannarlega ekki bara fyrir þá sem vilja verða leikarar. Hún kennir félagsfærni, sjálfstraust, framkomu og samvinnu sem börnin okkar þurfa einmitt svo mikið á að halda. Ég hef eðlilega oft sem foreldri mætt á skólauppákomur og þar sést þetta klárlega. Þeir krakkar sem hafa verið til dæmis á námskeiði hjá okkur í leikhúsinu, bera sig betur, tala hærra og af meira öryggi og alltaf hugsa ég – af hverju í ósköpunum er þetta ekki kennt í skólanum?
Nú erum við komin í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ og bjóðum upp á leiklist fyrir unglingadeildir grunnskólanna. Enn sem komið er er það ekki skylda heldur val þannig að unglingarnir sem þurfa mest á þessu að halda og myndu aldrei velja þetta sjálfviljug missa því miður af þessari sjálfstyrkingu.
Minn draumur er að leiklistarnám verði skylda og byrji í miðdeild því að það er svo gott að byrja að vinna með þau á þeim aldri því þá lokast þau ekki og haldast opin inn í unglingsaldurinn.
Svo þarf að sjá til þess að til séu nægilega margir menntaðir og hæfir kennarar.
Ég er þeirrar skoðunar að leikhæfileikar séu meðfæddir og ef fólki er leiklist ekki eðlislæg þá sé leiklistartækninám til lítils, hvað segir þú?
Ég held að það sé eins með leiklist og allt annað. Það verður alltaf til afburðafólk. En við æfum öll íþróttir þó að við séum ekki öll á leið í landsliðið. Það er hollt fyrir líkama og sál að æfa íþróttir. Líkaminn verður stæltari og samhæfing betri. Eins er með leiklistina, það verða ekki allir leikarar en þetta er bara svo hollt fyrir sál og líkama. Litla egóið stækkar og í staðinn fyrir að sjá kettling þegar þú lítur í spegilinn sérðu ljón og ljón geta allt!
Þessar stelpur sem þú ert að vinna með í sýningunni hafa fengið lof fyrir leik sinn og auðvitað leikritasmíðina? Eru þarna á meðal upprennandi listamanna?
Þær eru klárlega algerir snillingar. Þær voru allar í lokahóp í leiklistarskólanum í fyrra en komust ekki inn og í staðinn fyrir að leggja skottið á milli lappanna og fara heim og vera miður sín ákváðu þær að sýna skólanum af hverju hann hefði misst. Þetta er búið að vera frábært æfingatímabil og ég myndi svo sannarlega taka þær inn í leiklistarskólann ef að ég væri í dómnefnd.
Hvað kom þér mest á óvart þegar sýningin var að verða til? Þetta eru ungar stúlkur, er eitthvað í þeirra veruleika sem kom þér á óvart og er öðruvísi en þegar við vorum stelpur að alast upp?
Já, mér finnst stelpur sjálfsöruggari, femínískari og flottari en þegar ég var unglingur. Aldrei hefði ég haft sjálfstraust til að gera það sem þær eru að gera núna á þeirra aldri.
Auðvitað er hellingur í þeirra veruleika sem er algerlega nýtt. Það stærsta er náttúrlega netsamfélgið sem var ekki til þegar ég var unglingur. Hvernig deitar maður á Tinder og Snapchat og hvað má og hvað ekki í net tilhugalífinu? Senda læk en samt ekki of mörg svo að hann haldi ekki að þú sért desperat sækópat?
En langflest í þeirra veruleika er samt eitthvað sem ég og allar konur tengja við.
Það er bara umhverfið sem hefur breyst. Við erum og verðum alltaf sömu stelpuskottin með okkar tilfinningarússíbana. Það sem er fallegast við þessa sýningu finnst mér vera hvað hún er einlæg og hvað stelpurnar þora að tjá sig um allt sem þær eru að hugsa en ekki bara það sem þær halda að samfélagið vilji að þær segi.
Þú hefur verið talsmaður þess að listin í öllum sínum margbreytileika eigi að vera aðgengileg og öllum opin. Hvernig getum við glætt áhuga almennings á listrænu starfi?
Með því að reka leikhús í góðu samstarfi við yfirvöld, bæjarfélög og taka virkan þátt í listrænu uppeldi komandi kynslóða. Eins er mikilvægt að hafa leikhúsið eins opið og kostur er fyrir alla. Í Gaflaraleikhúsinu fá til dæmis leikskólar að koma og vera með sýningar hjá okkur. Lúðrasveitin, bæjarpólitíkin, dansfélögin, grunnskólahátíðir, foreldrafundir og starf Flensborgar fær allt inni í leikhúsinu þegar við getum komið því við meðfram sýningum. Gaflaraleikhúsið er fyrir alla Hafnfirðinga en ekki bara lítinn leikhóp.
Hvað er fram undan hjá þér?
Gunni og Felix, nýi fjölskyldufarsinn er næstur á dagskrá og ég hlakka mikið til að vinna með því snilldarliði sem er með mér þar. Frumsýning er 20. febrúar og ég hef trú á því að það eigi eftir að framkalla hlátursköst hjá fjölskyldunni og það er fátt skemmtilegra en að hlæja saman.
Hvaða ráð gefurðu ungum stelpum sem langar að verða leikkonur?
Byrjið á að finna ykkur leiklistarnámskeið. Lærið að spinna og verða frjálsar. Með frelsi meina ég að þora að gera það fyrsta sem manni dettur í hug og hætta að gagnrýna allt í hausnum á sér. Skólinn kennir okkur of mikið að hugsa áður en við framkvæmum. Í leiklist kennum við að framkvæma án þess að hugsa. Að gera það fyrsta sem manni dettur í hug. Þegar heilinn hættir að stýra öllu sem við gerum þá fyrst verður gaman.
Svo kemur bara í ljós hverjar af ykkur enda upp á leiksviði. Þær sem ekki fara þangað fara bara með bullandi sjálfsöryggi í eitthvað annað.
Sýningin Konubörn er sýnd í Gaflaraleikhúsinu og miða er hægt að kaupa hér.
Leikhópurinn sem skrifar og leikur Konubörn eru þær: Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir.