Þorleifur Gunnlaugsson skrifar:
Það er þakkarvert að forysta Framsóknarflokksins skuli hafa gripið svo fljótt inn í skipan Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð. Að mínum dómi er mikilvægt fyrir mannréttindasinna að festast ekki í skotgröfum heldur styðja við allt sem spornar gegn mannréttindabrotum og ofsóknum á hendur minnihlutahópum.
Eftir sem áður eru gjörðir borgarfulltrúa Framsóknarflokksins þær sömu. Það er hæpið að tala um mistök þegar þær tóku þá meðvituðu ákvörðun fyrir nokkrum vikum að rödd enn öfgafullyllri fordóma ætti að hljóma í mannréttindaráði. Þá er það endanlega staðfest að þær Sveinbjörg og Guðfinna stuðla að hatursáróðri gegn minnihlutahópi og því er ekki annað hægt en að stimpla þær rasista!
Eins og Kvennablaðið benti á var tillaga Framsóknarflokks og flugvallarvina um Gústaf sem varamann í mannréttindaráði samþykkt af borgarstjórn. Sú kosning gildir þar til annað verður formlega ákveðið. Gústaf er því enn í ráðinu og verður það fram að næsta borgarstjórnarfundi sem að öllu óbreyttu verður eftir hálfan mánuð.
Þau sem greiddu athvæði með tillögunni voru Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir en þau Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson sátu hjá.
Af hverju greiddi enginn atkvæði gegn tillögunni?
Sú óskrifaða regla að borgarfulltrúar setji ekki fótinn fyrir tilnefningar kollega í nefndir og ráð hefur vafalaust ráðið ferðinni, en getur það verið algild regla að samykkja hvaða fulltrúa sem er, bara af því að tillagan kemur frá kollega í borgarstjórn? Hvað til dæmis ef tillaga kemur um barnaníðing í barnaverndarnefnd?
Nei, þarna féllu allir borgarfulltrúarnir á mikilvægu prófi, hvort sem þau greiddu atkvæði með tillögunni eða sátu hjá því það skiptir gríðarlegu máli þessa dagana að vera vel á vaktinni þegar mannréttindamál eru annarsvegar.
Ástandið í samfélaginu kallar á það að allir þeir sem vilja verja grundvallarmannréttindi, hvar í flokki sem þeir standa og hvaða skoðanir sem þeir annars hafa, taki til varna fyrir innflytjendur og þá sérstaklega þá sem aðyllast íslam.
Borgarstjórn getur sýnt viljann í verki og haldið strax aukafund til að skipa annan fulltrúa í mannréttindaráð og borgarfulltrúar ættu að skoða hug sinn varðandi það hvort fulltrúar Framsóknarflokksins og flugvallarvina hafi nú fyrirgert rétti sínum til að hafa þar nokkra aðkomu.
Ljósmynd af vef Reykjavíkurborgar.