Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina drógu til bakaskipun Gústafs Níelssonar sem varafulltrúa í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar í hádeginu í dag. Á fundi Borgarstjórnar í gær lögðu borgarfulltrúar framsóknarflokksins fram tillögu um að Gústaf Níelsson tæki sæti Katrínar Salimu Daggar Ólafsdóttur sem varamanns í mannréttindaráði.
Tillagan var svo samþykkt með 10 atkvæðum en eftirtaldir borgarfulltrúar meirihlutans sátu hjá við afgreiðslu málsins: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson.
Athygli vekur að fjórir meðlimir meirihlutans greiddu atkvæði með skipun Gústafs eða þau:
Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, S. Björn Blöndal og Elsa Hrafnhildur Yeoman.
Ætla má að með afgerandi afstöðu alls meirihlutans hefði mátt koma í veg fyrir að skipunin hefði náð fram að ganga þegar svo augljóslega var um að ræða vanhæfan mann til að sitja í nefnd sem kennir sig við mannréttindi.
Kvennablaðið heyrði stuttlega í Sóleyju Tómasdóttur eftir að skipun Gústafs var dregin til baka og hún hafði þetta um málið að segja:
„Framsókn og flugvallarvinir hafa verið að teygja mörk pólitískrar umræðu í átt að rasisma með málflutningi sínum frá því þær fyrst hófu máls á stóra moskumálinu. Gerningurinn í gær var stórt og alvarlegt skref.
Jafnvel þótt þær hafi séð að sér og muni skipta manninum aftur út, þá hefur rasískum sjónarmiðum verið komið skilmerkilega á framfæri og mörkin þar með enn teygðari. Það er greinilegt að borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina eru hvergi nærri hættar.
Það er mjög brýnt fjölbreytileikanum verði hampað og fagnað hvar og hvenær sem tækifæri gefst – og að við hin stöndum vörð um lýðræði og mannnréttindi einstaklinga og hópa.“