Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mun ekki styðja tilnefningar Framsóknar og flugvallarvina

$
0
0

S. Björn Blöndal skrifaði eftirfarandi færslu á Facebooksíðu sinni í dag vegna skipunar Gústafs Adolfs Níelssonar og þeirrar gagnrýni sem borgarstjórn sætti vegna atkvæðagreiðslunnar. S. Björn Blöndal er formaður borgarráðs.

„Ég hef litið svo á að það sé á ábyrgð hvers flokks eða framboðs að skipa fulltrúa í ráð og nefndir og ekki talið það í mínum verkahring að filtera það sérstaklega. Kjósendur hafa veitt flokknum sem tilnefnir umboð til þess.

Það er því miður endanlega ljóst að Framsóknarflokknum í borgarstjórn Reykjavíkur og oddvita framboðsins, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur er ekki einu sinni treystandi til að tilnefna fulltrúa í ráð og nefndir.

Sveinbjörg hefur ítrekað sýnt dómgreindarskort í ýmsum efnum og sú ákvörðun Framsóknarflokksins að tilnefna Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráð er staðfesting þess að allt sem hún gerir og segir krefst mikils eftirlits.

Öllu heilli hafði þessi Gústaf Níelsson farið algjörlega fram hjá mér þangað til í gærkvöldi. Eftir að hafa gúgglað manninn er ljóst að hans skoðanir eru vægast sagt vafasamar, fordómarnir, mannhatrið og hrokinn vella út í öllu sem hann virðist senda frá sér.

Ég geri það ekki að vana mínum að vitna í tveggja manna tal, en ég ætla að gera það hér. Eftir borgarstjórnarfundinn í gærkvöldi gekk ég til Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og spurði þær hvort þessi maður sem verið var að tilnefna af þeirra hálfu sem fulltrúa í mannréttindaráð hefði verið á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Sveinbjörg svaraði mér því að svo hefði ekki verið og Guðfinna bætti við að hann væri Sjálfstæðismaður. Ég spurði þær þá af hverju þeim hefði fundist góð hugmynd að sækja þennan mann út í bæ og biðja hann sérstaklega um að gerast fulltrúi þeirra.

Guðfinna spurði mig á móti hvort allar raddir ættu ekki að heyrast í mannréttindaráði. Svo bætti hún við: „Svo fannst okkur þetta bara sniðugt.“

Gott og vel, þetta er sérkennileg aðferð við val á fulltrúa. Niðurstaða mín eftir að hafa sofið á þessu er að það hafi verið mistök að sitja ekki hjá við atkvæðagreiðsluna í borgarstjórn. Aukið gúggl staðfesti að það væri ástæða til að spyrna við fótum gegn þessari tilnefningu.

Það voru 5865 einstaklingar sem kusu Framsóknarflokkinn og flugvallarvini með Sveinbjörgu Birnu í fararbroddi í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þetta eru 10,73% þeirra sem kusu. Þessir 5865 einstaklingar eiga rétt á sínum fulltrúa inn í öll helstu ráð og nefndir borgarinnar. Þessa fulltrúa tilnefnir oddviti listans, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir væntanlega í samráði við borgarfulltrúann Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, varaborgaborgarfulltrúann Grétu Björg Egilsdóttur og varaborgarfulltrúann Jónu Björg Sætran.

Hér eftir mun ég ekki styðja tilnefningar Framsóknar og flugvallarvina á fulltrúum í ráð, nefndir, starfshópa eða önnur trúnaðarstörf á vegum borgarinnar. Ég vil ekki taka nokkra ábyrgð þessu fólki.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283