Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lögmaður hótar á Facebook

$
0
0

Í fréttatilkynningu sem lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sendi Kvennablaðinu í dag bendir hann réttilega á að það sé hlutverk dómstóla en ekki fjölmiðla að kveða upp dóma í sakamálum. Kvennablaðið hefur mér vitanlega ekki kveðið upp neina dóma í sakamálum hingað til og hefur ekki í hyggju að gera það eftirleiðis.

Í gær fékk Kvennablaðið sent afrit af kröfu um afsökunarbeiðni og leiðréttingu – Aðvörun um málshöfðun, sem Vilhjálmur sendi konu, pistlahöfundi Kvennablaðsins og meints þolanda í kynferðisbrotamáli. Kröfuna sendi Vilhjálmur konunni í Facebook skilaboðum.

Konan hefur lagt fram kæru vegna meintra kynferðisbrota sem hún varð fyrir á barnsaldri og hefur tjáð sig um málið í fjölmiðlum án þess þó að nefna gerandann á nafn. Konan er með skipaðan réttargæslumann.

Í kröfu Vilhjálms til konunnar er tilgreindur sólarhringsfrestur til að bregðast við.

Kvennablaðið grennslaðist fyrir um það hjá Lögmannafélagi Íslands hvort það væri sæmandi starfsháttur lögmanna að senda slíkar kröfur í einkaskilaboðum á Facebook og hvort það samræmdist siðareglum lögmanna að hafa samband við konuna beint ef litið er til 1. mgr. 26. greinar í siðareglum lögmanna en þær hljóða svona:

 „Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Ef aðili, sem falið hefur mál sitt lögmanni, snýr sér sjálfur til lögmanns gagnaðila um það mál, skal lögmaður gagnaðila vísa aðila frá sér, nema brýnar ástæður bjóði annað. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni um það tilkynnt.“

Eftir samtal við Ingimar Ingason framkvæmdastjóra LFMÍ sem sagðist ekki muna eftir fordæmi um slíkar skilaboðasendingar á Facebook og eftir tölvubréfaskipti okkar á milli fékk ég frekar afdráttarlaust svar frá Ingimari við spurningu minni sem var svona:

Sæll Ingimar,

Einföld spurning. Er það brot á siðareglum 26. grein að hafa samband við málsaðila sem annar lögmaður annast? Þessu hlýtur sjálft Lögmannafélagið að geta svarað fjölmiðlum. Ég ætti ekki að þurfa að ónáða lögmann konunnar vegna þessa.

Bestu kveðjur

Steinunn Ólína

Og svar Ingimars barst strax:

 

Sæl Steinunn.

Einfalt svar við þessari spurningu er já, nema brýn nauðsyn krefji eða samþykki lögmanns liggi fyrir!

Kveðja,

Ingimar.

Seinna sama dag kom annað bréf frá Ingimar, þá stílað á bæði Vilhjálm og undirritaða.

Sæl bæði tvö.

Í dag barst Lögmannafélagi Íslands eftirfarandi fyrirspurn:

„Einföld spurning. Er það brot á siðareglum 26. grein að hafa samband við málsaðila sem annar lögmaður annast? Þessu hlýtur sjálft Lögmannafélagið að geta svarað fjölmiðlum.“ Í svari félagsins við þessu erindi segir:

„Einfalt svar við þessari spurningu er já, nema brýn nauðsyn krefji eða samþykki lögmanns liggi fyrir!“

Að gefnu tilefni er rétt að eftirfarandi komi fram:

Í svari félagsins er vísað til meginreglu 1. mgr. 26. greinar siðareglna lögmanna sem hljóðar svo: „Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.“

Það liggur í hlutarins eðli að til þess að þetta ákvæði eigi við, þarf gagnaðili að vera með lögmann og sá lögmaður sem hyggst beina erindi að gagnaðila að vera kunnugt um það og þá jafnframt hver sá lögmaður er.

Með kveðju,

Ingimar Ingason.

Var það virkilega ‚brýn nauðsyn‘ að hafa samband við konuna með þessum leiðum? Hafa lögmenn ekki greiðan aðgang til að afla sér upplýsinga um réttarstöðu einstaklinga? Getur lögreglan ekki svarað þessu með einu símtali frá þekktum hæstarréttarlögmanni?

Var í ljósi þessa ekki fullkomlega óásættanlegt og óþarft að hrella meintan brotaþola kynferðisofbeldis á samfélagsmiðlum sem fólk notar sér til skemmtunar og afþreyingar.

Maður getur ímyndað sér að það hafi áhrif á brotaþola að haft sé samband við hann með þessum hætti. Brotaþoli er vitni í sakamáli sem Vilhjálmur sem lögmaður vinnur við og ég veit ekki betur en að það sé algjörlega óheimilt sakborningi eða lögmanni hans að hafa samband við vitnið eða að reyna með einhverjum ráðum að hafa áhrif á það. En ég bíð átekta að Vilhjálmur leiðrétti mig ef ég fer rangt með, hann er jú löglærður.

P.s Við Vilhjálmur áttum símtal í gær þar sem hann m.a. benti mér á að ég væri hugsanlega óhæf til að fjalla um málið þar sem umrædd kona væri skyld mér. Um skyldleikann hefur hann rétt fyrir sér. Við erum af 2. og 3. ættlið.

Vilhjálmur bað mig í framhaldi af þessari umræðu um hæfi mitt að kynna mér siðareglur blaðamanna. Þær hef ég nú kynnt mér og bið lögmanninn að benda mér á hvaða siðareglur gætu átt við í þessu máli.

Ég hafna því að ég eða Kvennablaðið geti ekki fjallað um það þegar meintir þolendur kynferðisofbeldis verða fyrir aðkasti af hendi lögmanna í gegnum Facebook.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283