Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Íslenzkar konur pólitískir borgarar

Stjórnarskráin nýja gengin í gildi.

í dag, þann 19. janúar 1916, gekk hin nýja stjórnarskrá vor í gildi, og þar með hafa íslenzkar konur öðlast að fullu sömu stjórnmálaréttindi og karlmenn. Nú eru þær ekki lengur lausar við ábyrgð landsmálanna. Nú eru þær orðnar pólitískir borgarar, sem með atkvæði sínu geta ráðið hverjir skuli fjalla um Iöggjafarstörf og landsstjórn á komandi tímum, og þar með hafa þær sjálfar fengið bæði völd í hendur og ábyrgð á því hvernig þetta verður af hendi leyst.

Ýmsar konur munu svara þessu því, að það verði að eins tiltölulega lítill hluti kvenna, sem geti notið þessara réttinda fyrst um sinn, þar sem það séu að eins þær konur, sem náð hafa 40 ára aldrinum og þar yfir, er nú fá þessi réttindi, og af þeim megi búast við að fullur helmingurinn séu konur, sem aldurs vegna, vanheilsu og ýmsra annara kringumstæðna, ekki muni geta notað sér þau, þótt þær hafi leyfi til þess. En aftur á móti hefðu yngri konurnar haft flestöll skilyrðin til þess bæði að geta og vilja nota sér þau.

Víst dregur þetta heimskulega ákvæði stjórnarskrárinnar úr gleði margra kvenna yfir þeim stóru réttindum, einkanlega yngri kvennanna, sem von er til. En vér megum ekki gleyma því að áratalan mætir oss á miðri leið, svo að engin kona þarf eiginlega að bíða meira en 11 ár eftir kosningarréttinum, og að kjörtímabilið er 6 ár, svo þannig verða jafnan allir þeir karlmenn, sem ekki eru fullra 25 ára, að bíða nær því heilt kjörtímabil eftir þvi, að geta notað kosningarrétt sinn, þótt þeir hafi fengið hann að lögum nær því 6 árum áður.

Það, að oss konum sé gerð svo mikil óvirðing, með því að veita oss kosningarréttinn svona miklu síðar en karlmenn hafa fengið hann, viljum vér eiginlega ekki kannast við. Í þessu ákvæði liggur ekki annað heldur en hið alþekta venjulega íhald valdhafanna, að láta aukin réttindi af hendi. Þetta er því ekki annað en seinasta neyðarúrræðið, sem gripið er til, þegar því verður ekki frestað, sem fram á að koma. Það er örlítill hengingarfrestur afturhaldsins, sem er auðvitað ósanngjarn, en þó ennþá fremur broslegur, og í sjálfu sér gerir oss ekki mikið til.

Aðalatriðið er að þessi réttur er nú þegar eign allra ísIenzkra kvenna, sem náð hafa lögaldri, með sömu skilyrðum og íslenzkra karlmanna, þótt notkun hans sé lítið eitt frestað fyrst um sinn, fyrir yngri konur, sem tímann hafa vonandi fyrir sér til þess því betur að njóta hans og nota, þegar röðin kemur að þeim.

Kvennablaðið vill því alvarlega hvetja yngri konurnar til að setja þetta ekki fyrir sig, en hjálpa nú eldri konunum með ráðum og dáð til þess að þær geti tekið þann þátt í kosningunum, sem þeim ber, bæði að lögum og vegna sæmdar vor allra. Það væri tilfinnanleg óvirðing fyrir oss allar íslenzkar konur, ef þær konur,sem öðlast hafa þessi réttindi, sýndu ekki í verkinu næsta sumar og haust, að þær bæði vildu og kynnu að nota sér þau.

Fyrsta sporið til þess er að fylgjast með öllum þeim kosninga undirbúningi sem verður, bæði í umræðum landsmálanna og listagerð. Með því móti getum vér gert oss nokkurnveginn grein fyrir því til hvers vér viljum nota atkvæði vor, hvaða málum vér viljum hrinda áfram, og hverja fulltrúa vér óskum að velja til að koma þessum málum í framkvæmd.

Með árinu 1916 hefst nýtt tímabil í framþróunarsögu vor íslenzku kvennanna. Vinnum allar að því að það verði til aukinnar hamingju fyrir ættjörðu vora og alla þjóðina.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283