Fyrst vil ég þakka Auði Styrkársdóttur, formanni afmælisnefndar 100 ára kosningaréttar kvenna og forstöðukonu Kvennasögusafnsins, fyrir að leggja umræðunni lið með grein sinni Rangfærslur um kosningaréttinn. Að því sögðu er mér ekkert að vanbúnaði að svara athugasemdum þeim sem hún gerir við grein mína Prúðmenni í pilsvasa.
Auður óskar eftir heimildum þeim sem ég styðjist við er ég fullyrði í greininni hvenær stjórnarskráin hafi gengið í gildi. (Auður segir reyndar að ég hafi skrifað að það hafi gerst 16. janúar 1916 en í greininni stendur 19. janúar 1916. Látum það vera.)
Heimild mín fyrir þessari fullyrðingu er samtímaheimild, grein Bríetar Bjarnhéðinsdóttur „Íslenzkar konur pólitískir borgarar – Stjórnarskráin nýja gengin í gildi“, sem birtist 19. janúar í fyrsta tölublaði 22. árgangs Kvennablaðsins og hefst á orðunum:
„Í dag, þann 19. janúar 1916, gekk hin nýja stjórnarskrá vor í gildi, og þar með hafa íslenzkar konur öðlast að fullu sömu stjórnmálaréttindi og karlmenn.“
Ég taldi víst að útgefandi og ritstjóri Kvennablaðsins og ein fremsta baráttukona Íslandssögunnar fyrir kvenréttindum, vissi um hvað hún væri að tala og væri ekki að bera á borð fyrir lesendur sína einhverja vitleysu og auðhrekjanlega sögufölsun.
Grein Bríetar má lesa í heild sinni hér.
Aðra heimild má finna hér á bls. 33 í þessu skjali, þar sem stendur:
„Stjórnskipunarlögin nr. 12, 19. júní 1915, öðluðust gildi 19. janúar 1916“:
Auður finnur að orðalagi í þessari setningu í grein minni: „Það ár, 1916, fékk líka stór hluti karlmanna að kjósa í fyrsta sinn.“ Og bendir réttilega á að orðalagið – stór hluti – sé nú kannski orðum aukið því í raun hafi aukning á þátttöku karlmanna sem fengu kosningarétt um leið og konur einungis numið um 14 prósentum.
Ég get svosem sæst á það að 14% sé ekki tilefni til að skrifa „stór hluti“, en kannski fannst mér full ástæða til að taka svolítið upp í mig. Í allri umræðu um kosningaafmælið er ekki minnst á þá staðreynd að nokkur hluti karlmanna hafði ekki kosningarétt fyrr en 1916. Þessa sögulegu staðreynd mátti að mínum dómi alveg rifja upp svo að eftir væri tekið – í nafni jafnréttis.
Hvað varðar hugmyndina frá borgarstjórnarheimilinu um að slá saman dögunum tveimur sautjánda og nítjánda hef ég svosem litlu að bæta við það sem ég hef áður skrifað, nema að spyrja hvort konum finnist nú tilhlýðilegt að úthýsa Jóni Sigurðssyni, lýðveldinu og fátækum körlum í nafni ‚kosningaréttar kvenna‘ og undir yfirskyni sparnaðar?
Að endingu má benda á að það var verulega ljótt af Jóni að fæðast ekki 19. júní svo hægara væri að slá upp heljarinnar veislu til heiðurs lýðræðinu, Jóni Sig. og Degi B.