Guðmundur Guðmundssons skrifar:
Að fátækrahverfi eru til á Íslandi vita allir sem vilja vita það. Í bíltúr að kvöldlagi um iðnaðarhverfi má telja gluggatjöld og ljóstýrur í öllum iðnaðarhverfum höfuðborgarsvæðisins.
Ljóstýrur þessar eru þögull vitnisburður um brauðmolahagfræðina í launa og húsnæðispólítík landsins undanfarna áratugi.
Samkvæmt könnun Mbl. frá fyrra ári fjór eða fimmfaldaðist íbúafjöldi í íslenskum iðnaðarhverfum á tímabilinu 2004 til 2014.
Aukningin er vitnisburður um þögla meðvirkni verkalýðsfélaga í brauðmylsnufræðunum sem hafa ár eftir ár samþykkt launakjör undir framfærslumörkum. Og húsnæðispólítík sem hrekur láglaunaða í ólöglegar kytrur í iðnaðarhverfum.
Nýlega komu fram tölur frá velferðarvakt að um 6200 manns lifa við sára fátækt á Íslandi. Sumt af þessu fólki er í fullri vinnu hjá borg eða ríki og býr í iðnaðarhúsnæði. Þessi hópur þarf í vaxandi mæli á aðstoð hjálparsamtaka að halda.
Nýlega hratt fjölskylduhjálp Íslands af stað söfnunarátaki.
Þekktasti gamanleikari landsins bað um framlög til að kaupa fisk handa fátækum börnum. Við fyrstu sýn leit átakið út sem grín, en svo var þó ekki.
Í landi sem á ein auðugustu fiskimið veraldar og hagnaður útgerðarfélaga mælist mánaðarlega í miljörðum!
Þessi börn gætu vel átt foreldra í fiskvinnslu sem búa í iðnaðarhverfi.
Ástandið í húsnæðismálum láglaunaðra hefur líklega aldrei verið verra á Íslandi. Sjö árum eftir hrun bólar ekkert á nýrri húsnæðispólítík og leigumarkaði sem kemur þak yfir höfuð láglaunastétta landsins.
Eru íslensk fátækrahverfi komin til að vera?
Höfundur er sjómaður og áhugamaður um launa- og húsnæðismál íslenskrar alþýðu.