Til hamingju með að sækja um stöðu útvarpsstjóra. Óttastu ekki eins og margir að þetta verði pólitísk ráðning og því sé umsóknarferlið í reynd aðeins sýndarleikur?
Ég hef ákveðið að vera mjög bjartsýn hvað ráðningarferlið varðar. Ég er viss um að stjórn Ríkisútvarpsins hefur engan áhuga á að ráða pólitískt í stöðuna, því slíkt væri bæði of gamaldags og of mikill ábyrgðarhluti. Ég ætla að trúa því staðfastlega að heiðarleiki verði hafður í fyrirrúmi og sá allra hæfasti að mati stjórnar verði ráðinn. Ég veit að fæstir draga í efa hæfni mína til að gegna stöðunni. Hins vegar er minn stærsti annmarki að vera ekki karlmaður og því get ég ekki breytt. Það var athygli vert að einungis karlar voru nefndir til leiks í vangaveltum fram að lokum umsóknarfrests. Það sýnir kannski hvað við eigum öll erfitt með að reikna með konu í starf af þessu tagi.
Hverjar yrðu þínar áherslur ef þú fengir útvarpsstjórastöðuna?
Nú er ég bæði óþekk og mikill vinnuforkur svo fyrstu áherslur yrðu að gera sér grein í smáatriðum fyrir vanda RÚV. Það er ekki nóg að hafa slíkt á tilfinningunni, lesa ársreikninga eða hlusta á sögusagnir.
Ég sé RÚV sem lifandi fjölmiðil allra landsmanna og sem merkisbera og afl í nýjum heimi miðlunar og upplýsingar. En til að RÚV eigi sér lífsvon í þeirri umbyltingu miðlunar, sem þegar er hafin og er framundan, þarf að gera gagngerar breytingar á rekstrinum. Ég er óhrædd að takast á við það krefjandi verkefni og hef þekkingu í farteskinu sem nýtist til að tryggja viðgang RÚV til framtíðar. Slíkar aðgerðir eru hvorki einfaldar né sársaukalausar, en nauðsynlegar á þeim tímamótum, sem RÚV stendur frammi fyrir. Ég ber óumdeilda væntumþykju til RÚV og þess sem það stendur fyrir og kærleikur er m.a. nauðsynlegur í starfi útvarpsstjóra á byltingatímum. Ég lít ekki á útvarpsstjóra sem puntudúkku heldur sem öflugan samstarfsaðila stjórnar og bandamann starfsmanna fyrirtækisins.
Margir færa rök fyrir því að RÚV hafi mikilvægi í upplýsingadreifingu þegar kemur að öryggi landsmanna. Eru þessi rök ekki úrelt á tímum nú-fjölmiðlunar þar sem fréttir, jafnvel hamfarafréttir birtast á samskiptamiðlum áður en þær rata í hefðbundna fjölmiðla?
Ég vel að líta á þessa spurningu öðrum augum en hún kannski ber með sér. Ég tel að öryggishlutverk RÚV sé ekki endilega hamfaratengt, heldur samfélags- og menningartengt. Í markaðssamfélagi nútímans þarf að tryggja að upplýsingamiðlun verði ekki einsleit. RÚV hefur enn stóru hlutverki að gegna sem ábyrgur og trúverðugur upplýsingamiðill hvað sem líður þeirri staðreynd að RÚV er ekki lengur dyravörður allrar ljósvakamiðlunar í landinu eins og var t.d. þegar ég var að alast upp þar á bæ. Ég vil vísa í 1. mgr. laga um RÚV til að hnykkja á hugmyndafræðinni eins og ég lít á hana hvað varðar öryggishlutverkið.
“Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.”
Engin kona hefur gegnt þessari stöðu, er mál til komið að kona verði ráðin í starf útvarpsstjóra?
Já, það er tvímælalaust kominn tími á konu í starf útvarpsstjóra. Ég hef árum saman haldið námskeið í samfélagsmiðlun í Endurmenntun Háskólans, með sérstaka áherslu á Facebook fyrir fyrirtæki. Ein af æfingunum er að gefa fyrirtækinu sínu persónuleika. Ég hef notað RÚV sem æfingafyrirtæki, því öll eigum við jú RÚV. Undantekningalaust komast þátttakendur að þeirri niðurstöðu að persónuleiki RÚV sé: “gamall, frekur, leiðinlegur, ábyrgðarfullur, traustvekjandi, kall” – ég held að ráðning konu í starfið geti breytt þessari sýn. Að auki held ég að RÚV veiti ekki af konu við stjórnvölinn á þeim umbreytingatímum, sem svo sannarlega eru fram undan.
Hvaða gerir þig einstaka sem umsækjanda?
Ég hef kannski fjölþættasta reynslu allra umsækjenda þegar kemur að þekkingu og starfsreynslu í mismunandi fjölmiðlum. Ég hef starfað stóran hluta ævinnar erlendis, er eini Íslendingurinn sem hef verið framkvæmdastjóri á erlendri sjónvarpsstöð og er raðfrumkvöðull með skipulagshæfileika. Ég hef gífurlega þekkingu á þróun í ljósvakamiðlum. Mér líður afskaplega vel þegar einhver segir: “þetta er ekki hægt”. Þar að auki hef ég einn einstakan hæfileika, sem er að sjá í sviphendingu samhengi í hlutum/aðstæðum, sem ekki virðast hanga saman á nokkurn hátt. Ég er mjög vel að mér í þeirri framtíðarsýn sem blasir við í fjölmiðlaheiminum. Þar að auki á ég yfirleitt mjög gott með að vinna með fólki og fá það til að vinna saman að því að lyfta Grettistökum.
Hvernig myndir þú hagræða í rekstrinum því það liggur fyrir að það verður að gera?
Það er ekki hægt að svara þessari spurningu að óathuguðu máli. Hér þarf að gera nokkrar skemmtilegar og áhugaverðar æfingar til að skoða í þaula reksturinn frá kjallara og uppúr eins og það heitir. Sjá samhengið í rekstrinum, ekki einblína á einstakar stöður og stöðugildi. Það þarf að hugsa óhefðbundið og þora að taka mjög óvinsælar ákvarðanir. Samstarf, samskipti eru lykillinn að þeim ákvörðunum. En ég get lofað því að fílabeinsturninn á 5. hæð fær annað hlutverk og útvarpsstjóri keyrir ekki um á jeppa ef ég verð ráðin.
Hvernig fannst þér staðið að uppsögnunum? Ef þú hefðir þurft að vera með niðurskurðarhnífinn á lofti, hvar hefðir þú tekið til hendinni innan stofnunarinnar?
Mér fannst uppsagnirnar bera vitni um gamaldags aðferðafræði og vera úr samhengi við framtíðarþarfir RÚV. Ég hef sjálf staðið í endurskipulagningu sjónvarpsstöðvar í Danmörku þar sem þurfti að segja upp fleirum en gerðist á RÚV í síðustu atrennu. Þá var færri sagt upp en til stóð fyrst af hálfu eigendanna og ég talaði persónulega við hvern og einn. Hræðilegt ferli, en nauðsynlegt því annars hefði fyrirtækið lognast útaf en ekki orðið grunnsteinn að þeim fjölmiðlarisa sem þar er í dag. Það er ekki endurskipulagning að segja upp fólki, það þarf miklu, miklu meira til. Slíkt gerist eingöngu með nýjum áherslum í rekstrinum. Það hefur margt breyst frá 1930 þegar Ríkisútvarpið var stofnað og enn meira breyst frá 1966 þegar Sjónvarpið hóf starfsemi. Eitt er víst í þessum heimi og það er að breytinga er alltaf þörf og við eigum að gangast við þeim með gleði og atorku.
Hvernig á að laða unga hlustendur að Rás 1 og 2?
Þessari spurningu er hægt að svara á margan hátt. Fyrst og fremst sækja hlustendur í það efni, sem þeir hafa áhuga fyrir svo það er ljóst að framleiða þarf efni, sem markhópurinn vill og telur sig þurfa á að halda. En svo má spyrja á móti hvort ungt fólk eigi endilega að hlusta á Rás 1 í línulegu formi? Kannski þarf frekar að gera það dagskrárefni sem framleitt er bæði á Rás 1 og Rás 2 betur aðgengilegt og meira kúl á þeim miðlum sem hlustendur eru með í höndunum hverju sinni. Ég hlusta t.d. aldrei á útvarpsstöðvarnar hjá Danmarks Radio, en ég hlusta á mjög mikið af þáttum, sem eru sérlega fróðlegir og skemmtilegir og hægt er að vera áskrifandi að í podcasti. Ég myndi vilja í samstarfi við dagskrárgerðarfólk útvarpsrásanna finna nýjar leiðir til að koma því frábæra dagskrárefni, sem framleitt er, á framfæri við hlustendur, sem virkilega gætu haft gagn og gaman af.
Í dag, þegar dagskrárefni er aðgengilegt á svo ólíkum miðlum sem raun ber vitni, hvaða áherslur á að leggja í dagskrárgerð hjá sjónvarpsarmi RÚV til þess að búa til efni sem hefur aðdráttarafl og ekki er aðgengilegt annars staðar og skapa þannig eftirspurn og sérstöðu?
Þessi spurning er víðfeðm og ekki hægt að svara henni í stuttu máli né á einfaldan hátt. Og ég vel að hafa svarið opið í báða enda.
Það er ljóst að RÚV þarf að gegna skyldu sinni sem upplýsingamiðill í sjónvarpi. Og RÚV verður að sinna gerð barnaefnis í háum gæðaflokki, því ekki er það markaðsvænt ef taka má þannig til orða.
RÚV hefur ekki sinnt skyldu sinni sem frumkvöðull í frameiðslu á leiknu sjónvarpsefni í áratugi. Og þá er ég ekki að tala um að Sjónvarpið eigi endilega sjálft að framleiða hverja sekúndu, sem boðið er upp á eins og gerðist á fyrst árunum. Ég tel að með því að taka höndum saman og brúa þá gjá, sem hefur verið byggð milli RÚV annars vegar og kvikmynda- og sjónvarpsgerðarfólks “úti í bæ” hins vegar sé fyrsta skrefið. Mig langar til að búa til “nýja sýn” þar sem óumdeildir, uppsafnaðir, hæfileikar og reynsla innanhúss í RÚV fær að blandast sömu hæfileikum utanfrá, þar sem gamlir og ungir, reyndir og óreyndir koma saman og búa til nýja sýn í gróðurhúsi dagskrárgerðar RÚV.
Þar sem RÚV er í þjóðareigu og allir geta í dag verið sinn eigin fjölmiðill væri líka upplagt að nýta nútíma samskiptatækni til að koma upp nánari samskiptum um dagskrárhugmyndir við þjóðina sjálfa og síðan sameinast þessari “nýju sýn” þar sem skapandi einstaklingum er gefið rými til að bjóða upp á eitthvað sem okkur hreinlega dettur ekki í hug á þessari stundu. Það er lifandi dagskrárgerð!