„Það er engin varkárni í gangi þegar kemur að stóru ákvörðunum hjá þeim konum sem til okkar leita,“ segir Guðrún Margrét Snorradóttir en þær Ágústa Hlín Gústafsdóttir, Ragnhildur Vigfúsdóttir og Ylfa Edith Jakobsdóttir vinna við að markþjálfa með áherslum jákvæðrar sálfræði.
Þær halda fyrirlestur á markþjálfunardaginn sem haldinn verður á Hilton, Nordica þann 5. febrúar næstkomandi. Fyrirlestur þeirra ber heitið „Markþjálfun og jákvæð sálfræði“.
En hver er munurinn á markþjálfun með eða án jákvæðrar sálfræði og af hverju að spyrða þessum tveim aðferðum saman?
Ágústa Hlín segir að markþjálfun og jákvæð sálfræði virki mjög vel saman. „Markþjálfunin er vettvangurinn en jákvæða sálfræðin er með tækin og tólin. Í jákvæðri sálfræði er áhersla lögð á það sem einkennir vel virkan einstakling, hópa og samfélög án þess þó að útiloka hið neikvæða. Með því að leggja rækt við eigin styrkleika og nýta hann betur næst aukinn árangur í starfi og einkalífi.“
„Aðferðirnar byggjast á vísindalegum grunni, prófum, mælingum og inngripum sem rannsóknir hafa sýnt að skila árangri fyrir einstaklinga og fyrirtæki,“ bætir Guðrún Margrét við.
Við vinnum alltaf með styrkleika viðskiptavinarins en jákvæð sálfræði gengur mjög mikið út á mannlega hegðun og hvernig hægt er að vinna markvisst að árangri manneskjunnar á hennar forsendum.“
Í fyrirlestrinum munu þær koma með dæmi um hvernig slík vegferð getur litið út.
„Margar konur hafa í raun tekið U-beygju í lífinu þegar þær hafa áttað sig á að þær væru ekki á þeim stað sem þær vildu vera,“ segir Ragnhildur og Ylfa Edith bætir við að með aðferðum jákvæðrar sálfræði þá finni viðskiptavinurinn mjög fljótt út hvaða stefna skuli vera tekin.
Þær segja það mikilvægasta í þessu samspili að vita hvaða markmið virka og hver ekki og þá geti viðskiptavinurinn áttað sig á hvernig hann setur sér þau og nái þeim.
Þetta snýst nefnilega allt um að nota styrkleika sinn, vinna með gildin, jákvæðar tilfinningar og velfarnað almennt og þá fyrst fara hjólin að snúast, segja þær að lokum.