Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Suðrænn saltfiskur með kartöflumús úr sætum kartöflum

$
0
0
komduadborda

Borgarstúlkan með litla barnið.

Sumarið 1980 var saltfiskur út í eitt hjá mér. Ekki af því að ég fór að vinna í saltfiski. Heldur vegna þess að þá réð ég mig sem „ráðskonu“ eða hjálparstúlku í sveit austur á firði. Mér fannst það svo heillandi tilhugsun og mikið ævintýri að fara í sveitina með litla Jóa minn sem þá var rúmlega árs gamall. Þegar upp var staðið var þetta mjög góð ákvörðun, þrátt fyrir saltfiskinn. Við vorum á góðu heimili þar sem ég lærði heilmikið í matargerð og nýtni. Ég nota ekkert þekkinguna í matargerðinni í dag en ég reyni að vera nýtin. Á þessu heimili fór ekkert til spillis og allur matur unninn frá grunni og mest allt framleitt heima.

Þá kem ég aftur að saltfiskinum. Nánast í hverju einasta hádegi allt sumarið var soðinn saltfiskur í matinn. Ég er ekki að ýkja. Bóndinn á bænum veiddi fiskinn og saltaði. Saltfiskurinn var að sjálfsögðu borinn fram með kartöflum sem voru ræktaðar á bænum, heimagerðri hamsatólg og heimabökuðu rúgbrauði. Þetta hljómar ótrúlega vel. Hugsið ykkur, allt gert heima. Hreint út sagt dásamlegt! Og mér fannst það líka til að byrja með en öllu má nú ofgera. Líka saltfisk. Mikið var ég orðin leið á saltfiskinum í lok sumars. Mér fannst hann svo sem aldrei vondur en … Borgarstúlkan með litla barnið var vön meiri fjölbreytni í mat.

Ég veit ekki hvað það liðu mörg ár áður en ég borðaði saltfisk aftur ótilneydd. Eitt er víst að þau voru mjög mörg.

Áhugi minn á saltfiski fór smám saman að vakna eftir sumarleyfisferð til Spánar. Í þeirri ferð vildi Rúnar minn að við færum á saltfiskstað þar sem innfæddir borðuðu. Saltfiskur er jú hátíðarmatur Spánverja. Við fundum lítinn sætan stað, svona ekta spænskan. Þar var mikið úrval af framandi saltfiskréttum. Við pöntuðum bara eitthvað út í loftið af matseðlinum. Við heilluðumst algjörlega af matnum sem við fengum. Okkur fannst hann bæði bragðgóður og fallegur. Þegar heim var komið fór ég að skoða matreiðslubækur með saltfiskréttum og prófaði að elda þá. Það var ekki aftur snúið, saltfiskurinn var tekinn í sátt.

Ég er ekki frá því að mér finnist ég vera stödd á Spáni þegar ég elda þennan rétt. Það er ekki bara að fjölskyldunni finnist hann góður, okkur finnst hann líka ótrúlega fallegur.

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég uppgvötaði samsetninguna á saltfiskinum með sætu kartöflumúsinni. En mér finnst hún gera þennan rétt fullkominn.

ET saltfiskur hraefni

 

Suðrænn saltfiskurr

Stillið bakaraofninn á 190°C

Uppskriftin miðast við fjóra fullorðna.

Hráefnið í saltfiskréttinn.

Innihald:

  • 1200 g létt saltaðir þorskbitar.
  • Til að létta mér vinnuna nota ég roðlausa bita.
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar.
  • 40 stk. svartar steinlausar ólífur.
  • 1 krukka þistilhjörtu.
  • Það getur verið frekar erfitt að fá þistilhjörtu í búðum. Læt það fylgja, ég fæ þau alltaf í Hagkaup.
  • Svartur pipar.

Aðferð:

  • Raðið saltfiskinum í eldfast mót og piprið.
  • Saxið sólþurrkuðu tómatana frekar smátt niður.
  • Dreifið þeim ásamt ólífunum og þistilhjörtunum yfir saltfiskinn.Ég nota ekki olíuna úr krukkunni.
  • Bakið við 190°C í 25 mínútur.

ET saltfiskur tilbuinn

 

Svona okkar á milli bý ég alltaf til heldur meiri mús en ég þyrfti vegna þess að mér finnst hún svo ótrúlega góð. Ég verð svona eins og Nigella vinkona mín. Lauma mér í tíma og ótíma, þó ekki á nóttinni, í ísskápinn vopnuð skeið og fæ mér smakk.

Stundum virðist vera mikið vesen að útbúa eitthvað. Ef einhverjum líður þannig núna, lesið þá uppskriftina vel yfir og dembið ykkur í verkið.

Kartöflumús úr sætum kartöflum

Ég miða við 1/2 sæta kartöflu á mann í músina.

Innihald:

Fyrsta skref.

  • 2 stk. sætar kartöflur.
  • 4 msk. ólífuolía.
  • 3 stk. langar rósmaríngreinar.

Aðferð:ET saetar

  • Skrælið sætu kartöflurnar og skerið í bita.
  • Setjið í ofnskúffu og dreifið ólífuolíunni yfir.
  • Dreifið rósmaríngreinum yfir.
  • Bakið í 40 mínútur við 190°C
    • Til að sætu kartöflurnar brenni ekki er gott að hreyfa þær tvisvar til þrisvar í ofninum á meðan þær eru að bakast.

Þegar sætu kartöflurnar eru fullbakaðar tekur annað skref við.

Takið fram pott.

Innihald:

Annað skref

  • Sætu kartöflurnar fullbakaðar. Fjarlægið rósmeríngreinarnar.
  • 6 msk. ólífuolía.
  • 3 cm rifið engifer.
  • 4 stk. smátt söxuð hvítlauksrif.
  •  Salt og pipar.
  • Ég nota íslenskt flögusalt og svartan pipar úr kvörn.

Aðferð:

  • Setjið olíuna, engiferið og hvítlaukinn í pott.
  • Stillið eldavélarhelluna á lágan hita.
  • Látið kryddið rétt blandast olíunni, tekur um 2 mínútur.
  • Bætið sætu kartöflunum í pottinn og stappið þeim saman við kryddið.

Ég nota eldgamlan kartöflustappara frá ömmu Rósu. Það er örugglega hægt að nota sleif eða skella öllu í hrærivélarskál og hræra þetta saman í hrærivél. Prófið ykkur endilega áfram.

Mér finnst mjög gott að hafa vel af olíu, ef þið eruð sama sinnis endilega bætið henni við þegar músin er tilbúin.

Kom það ekki á óvart hversu lítið mál var að gera músina?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283