Fréttatilkynning.
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins óskar nú eftir svari innanríkisráðherra um áframhaldandi rannsóknir á Grynnslunum utan við Hornafjarðarós, en Grynnslin er sandrif sem er helsti farartálmi skipa á leið til Hafnar. Nú stefnir í að innsiglingin muni standa atvinnulífinu fyrir þrifum ef rannóknir halda ekki áfram í vor. Í framhaldinu yrði svo ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta innsiglinguna.
„Hver er staða rannsókna á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós?“, spyr Silja Dögg og „hefur ráðherra tryggt að rannsóknir haldi áfram í sumar og þá hvernig?
„Ef ekki, til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir framkvæmdir til að gera innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn greiða og örugga?“
Og að lokum spyr Silja Dögg: „ Ef rannsóknir halda áfram í sumar, hvenær má þá búast við að framkvæmdir geti hafist á grundvelli þeirra?“
„Fiskiskipin reka iðulega botninn í Grynnslin vegna lítils dýpis þar. Miklum verðmætum er landað á Höfn en samkvæmt vef Hagstofunnar þá voru 80.909 tonn veidd af hornfirskum skipum árið 2013 sem skiluðu þjóðarbúinu 5.5 ma.kr. Á Hornafirði er rekin saltfiskvinnsla allt árið um kring, humarvinnsla ásamt vinnslu á loðnu, síld og makríl. Það er því lykilatriði að mínu mati að rannsóknir á Grynnslunum verði efldar enn frekar og með það að leiðarljósi að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja viðgang sjávarútvegs á Hornafirði og treysta atvinnulíf staðarins.
Einnig bendir Silja Dögg að öryggi sjómanna kunni jafnvel að vera í hættu vegna ástandsins við ósinn:
“Öryggi sjómanna er heldur ekki eins og best verður á kosið vegna ástandsins þegar dýpi er takmarkað í innsiglingu þar sem sterkir straumar eru fyrir. Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að landris er hvað mest á Hornafirði sem getur aukið enn á þessi vandræði. Ég legg því áherslu á að rannóknir haldi áfram í vor svo hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir”, segir Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.
Grynnslin-hvað er það?
Fyrir utan Hornafjarðarós er sandrif líkt og þau sem myndast fyrir utan sjávarfallaósa. Sjávarföllin hreyfa efni sem setjast bæði innan við ósana og utan þeirra. Efnismagnið er háð mörgum þáttum s.s. straumum, kornastærð, ölduðhæð, öldustefnu og fleira.
Á Hornafirði ber þetta rif nafnið Grynnslin og er helsti farartálmi skipa á leið til Hafnar í Hornafirði og einn helsti flöskuháls í þróun hafnsækinnar starfsemi á staðnum. Fiskiskipin reka iðulega botninn í Grynnslin vegna lítils dýpis þar.
Hversu mikil verðmæti eru að koma að landi í Hornfirði sem renna til þjóðarbúsins?
Samkvæmt vef Hagstofunnar þá voru 80.909 tonn veidd af hornfirskum skipum árið 2013 sem skiluðu þjóðarbúinu 5.5 ma.kr. Á Hornafirði er rekin saltfiskvinnsla allt árið um kring, humarvinnsla ásamt vinnslu á loðnu, síld og makríl.
Hversu mörg skip eiga orðið í erfiðleikum með að komast inn eins og staðan er núna?
Grynnslin valda erfiðleikum fyrir nær öll fiskiskip. Styttri skipin sem fara alveg niður í öldudalina snerta reglulega Grynnslin þó þau risti ekki jafn djúpt og stærri skipin. Þá reka þau stefnið ofan í Grynnslin.
Botn stærri og djúpristari skipa snertir Grynnslin mis oft á hverri leið yfir þau. Dæmi eru um að það hafi gerst 40 sinnum á einni og sömu leiðinni. Þau fara eingöngu yfir þau á flóði og sjaldnast meira en í 3,5 m ölduhæð. Reglulega þurfa þau að snúa við og bíða eftir að aldan minnki eða þau landa annar staðar.
Hvað gerist ef rannsóknir halda ekki áfram og ekkert verður að gert?
Grynnslin eru flöskuháls í þróun útgerðar á Hornafirði. Veiði og vinnsla á uppsjávarfiskum er stór þáttúr í atvinnulífi Hornfirðinga. Sú grein sjávarútvegsins hefur verið í örri þróun, fiskiskip stækkað og afköst aukist. Öryggi sjómanna er heldur ekki eins og best verður á kosið, þegar dýpi er takmarkað í innsiglingu þar sem sterkir straumar eru fyrir. Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að landris er hvað mest á Hornafirði sem getur aukið enn á þessi vandræði. Það eru því ríkar ástæður til þess að efla þessar rannsóknir enn frekar og með það að leiðarljósi að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja viðgang sjávarútvegs á Hornafirði og treysta atvinnulíf staðarins.
Í framhjáhlaupi má nefna að Hornafjörður þarf að sitja að mestu hjá í markaðssetningu íslenskra hafna fyrir erlend skemmtiferðaskip því lang flest þeirra komast ekki yfir Grynnslin.
Hvað þarf að gera svo aðstaðan verði nógu góð?
Rannsóknir eru ekki enn komnar svo langt að segja má hvað sé hægt og raunhæft að gera til að tryggja nægjanlegt dýpi. Í stöðuskýrslu Vegagerðarinnar frá ágúst 2013 kemur fram að slíkar aðstæður sé að finna víða erlendis. Eru dæmi tekin þar sem byggðir hafa verið varnargarðar sitthvoru megin við ósinn til að tryggja örugga siglingaleið á góðu dýpi. Slíkar hugmyndir hafa ræddar reglulega á meðan rannsóknum hefur staðið. Nauðsynlegt er að fá botn hvort slíkir varnargarðar gætu reynst nægjanlegir til að tryggja dýpi yfir Grynnslin.
Hvenær hófust rannsóknirnar?
Ráðist var í nauðsynlegar og umfangsmiklar framkvæmdir við Hornafjarðarós í upphafi 10. áratugarins en þá lokaðist innsiglingin um tíma. Framkvæmdirnar tryggðu stöðugleika í ósnum sjálfum og hafa reynst byggðina afar þýðingarmiklar. Rannsóknir á sjálfum Grynnslunum má segja að hefjist með reglulegum mælingum á dýpi þeirra árið 1998. Siglingastofnun og nú Vegagerðin í samvinnu við heimamenn hefur unnið að verkefninu um langt skeið. Í nóvember árið 2005 var dýpkuð innsiglingarrenna fyrir Grynnslin og fjarlægðir 55 þúsund rúmmetrar af efni. Árangurinn var hins vegar takmarkaður og niðurstaðan að ekki væri raunhæft með þeim hætti að tryggja stöðugt dýpi á Grynnslunum. Verkefnið hélt áfram og undanfarin ár hafa starfsmenn Siglingastofnunar/Vegagerðarinnar ásamt samstarfsaðilum unnið að gerð sjávarfallalíkans til að greina og skilja betur hina margslungnu samverkandi þætti sem mynda Grynnslin fyrir utan Hornafjarðarós.
Ljósmynd Þorvarður Árnason