Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Varstu að klípa mig í rassinn?

$
0
0

Rúnar Helgi Vignisson skrifar:

Þorrablót Stjörnunnar 2015. Það er komið fram yfir miðnætti og fjörið að ná hámarki undir stjórn glimmergæjans Páls Óskars. Ég er á leiðinni niður þröngan stigann af efri hæðinni eftir að hafa farið á salernið. Það er mikil umferð í stiganum og stundum myndast þar stíflur þegar fólk staldrar við til að heilsa upp á vini sem koma á móti.

Allt í einu heyri ég kvenmannsrödd segja: „Varstu að klípa mig í rassinn?“

Ég lít fram fyrir mig og sé þá að kona fyrir framan mig beinir þessum orðum að mér. Hún horfir ásakandi á mig, svo ásakandi að spurningarmerkið á varla rétt á sér.

Og þá safnast það allt í sjóðheitan brennipunkt:

Sakaður um kynferðislega áreitni á vinnustað – Kynferðisleg misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi – Mansalsfórnarlömb vistuð í Kvennaathvarfi – Þúsundum kvenna nauðgað í stríðinu í Kongó – Lögreglumaður kærður fyrir kynferðisbrot – Nuddari kærður fyrir nauðgun – Prestur sakaður um að káfa á sóknarbarni – Karlmaður dæmdur í fangelsi fyrir barnaníð – Nauðgað á Þjóðhátíð – Þrítugur kennari tældi fimmtán ára nemanda – Maður á sextugsaldri kleip konu í rassinn á þorrablóti Stjörnunnar . . .

Á augnaráði konunnar í stiganum, á raddblæ hennar og fasi, er helst að skilja að við séum allir kynferðisbrotamenn. Ef ekki virkir, þá óvirkir. „Varstu að klípa mig í rassinn?“ Það breytti engu þótt eiginmaður konunnar flýtti sér að segja, eins og til að losa mig úr snörunni: „Nei, ég gerði það!“ – konan hélt áfram að horfa á mig eins og hún tryði ekki manninum sínum og teldi allt eins líklegt að þetta hefðu verið samantekin ráð hjá okkur.

Og ekki datt henni í hug að biðja þennan ókunnuga mann afsökunar, ekki frekar en mér að biðja hana afsökunar á framferði karla allra alda, þar á meðal mannsins hennar. Ég fann heldur enga leið til að bera af mér sakir á þessu augnabliki meintrar samsektar, til þess var málaflokkurinn einfaldlega of stór og eldfimur.

 

Rúnar Helgi Vignisson er rithöfundur og dósent í ritlist.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283