Smári McCarthy ríður á vaðið og skrifar pistil að beiðni Kvennablaðsins í pistlaröðinni Guð í einn dag.
Ef ég væri guð í einn dag væri ég væntanlega ekki til þann daginn.
Of auðvelt.
Best að prófa aðra nálgun.
Ef ég kæmist hjá þeirri tilvistarkreppu gæti mér dottið í hug að ganga rakleiðis í það verk að fara til allra þeirra sem tilbiðja mig og segja þeim að hætta því, því ég er augljóslega ekki til, og tilbeiðsla guða er ein helsta réttlætingin á voðaverkum í heiminum. Nema hvað það að ég væri að segja þeim það myndi sennilega hafa þveröfug áhrif – flestir sem trúa á guði fá aldrei heimsókn frá guðinum sínum, eða almennt neinar sannanir fyrir tilvist guðsins. Það myndi sennilega hleypa öllu í uppnám, að guð fari að taka upp á heimavitjunum.
Best að prófa aðra nálgun.
Ef ég væri guð í einn dag myndi ég brauðfæða alla. Tiltölulega auðvelt verk fyrir almáttugan guð, er það ekki? Nema, úbbs. Allir fá skyndilega mat á sitt borð, og hagkerfi heimsins fer í uppnám, þegar matvöruverð hrynur niður í núll. Heilu stéttirnar þurrkast út og tugþúsundir bænda, sjómanna og annarra um heim allan finna strax fyrir þrengingum. Það væri auðvitað ekki fyrir dauðlegar verur að vita að fríkeypis maturinn myndi hætta að koma næsta dag. Hlutabréfamarkaðir færu því strax í rugl, og kreppa hlytist af. Nei, þetta væri sennilega vond nálgun.
Best að prófa aðra nálgun.
Ef ég væri guð í einn dag myndi ég lækna alla sjúkdóma. Jæja, loksins eitthvað gott! Nema, eins með bændurna fer fyrir læknunum. Minni stétt samt, ætti sennilega auðveldara með að færa sig til. Sjúkrahús gætu gegnt öðrum hlutverkum. En… Til að lækna alla sjúkdóma væri hægt að drepa alla vírusa, allar bakteríur sem geta verið skaðlegar mönnum, og almennt allar lífverur sem geta valdið skaða, þar með talið ketti og hunda og þess háttar sem eru ofnæmisvaldar, ýmis hnetutré, snáka, kómódódreka og þess háttar, og svo auðvitað hið baneitraða platypus dýr – sem var sennilega helsta sönnunin fyrir kímnigáfu forvera míns í starfi.
Önnur leið væri bara að gera mannkynið ónæmt fyrir þessu öllu. Nema hvað ég lagði upp með „alla sjúkdóma“, þá væntanlega líka þá sem herja á aðrar lífverur en menn. Þetta er orðið frekar snúið: ýmist þarf að gera sumum lífverum ókleift að lifa, eða þá ég þarf að drepa þær lífverur. Og svo þyrfti ég líka að binda enda á þróun til að lífverurnar þróuðu ekki með sér nýja sjúkdómsvaldandi eiginleika. Kannski það sé fyrir bestu, því þetta þróunardót virðist vefjast svo mikið fyrir fólkinu sem vill meina að ég sé til. Nei, þetta gengur bara ekki neitt.
Best að prófa aðra nálgun.
Ef ég væri guð í einn dag myndi ég láta sköpunarverkið í friði svo ég skemmi ekki neitt. Aðgerðarlaus guð er góður guð? Það virðist vera nóg fyrir guði að hafa kannski hugsanlega gert eitthvað einhvern tímann til að fá fólk til að tilbiðja sig. En hér lendi ég í smá veseni: með því að vera til og sitja aðgerðalaus hjá, þá er ég í senn að réttlæta tilbeiðsluna með tilvist minni, og að horfa upp á rosalegar þjáningar um alla veröld eins og einhver sadisti. Það fer mér illa.
Best að prófa … tja.
Í súmerskri goðafræði er sögð sagan af Enki, guði þekkingar og vatns. Á þessum tíma hafði mannkynið ekki frjálsan vilja, heldur voru menn sem þjarkar sem þurfti að forrita reglulega með ákveðnum uppskriftum, sem kölluð voru „mí“. En Enki var, eins og kannski flestir heimspekingar, pínu blautur – og ekki sullaði hann bara í vatni. Þegar ástargyðjan Ishtar kom til hans eitt sinn með góð vín, þá drakk hann af þeim þar til hann sofnaði. Þegar hann rankaði við sér, þá var Ishtar flúin á brott, með allar uppskriftirnar með sér. Enki áttaði sig þá á því að hver sá sem stjórnar uppskriftunum stjórnar mannkyninu. Hann bjó því til ofuruppskriftina Nam-Shub, og las hana yfir allt mannkyn: uppskriftin lét fólkið gleyma tungumáli guðanna. Frá og með þeim degi gat enginn guð haft áhrif á hagi mannkyns.
Þessi saga er óttalega stílfærð, en mér finnst hún skemmtileg. Enki áttaði sig á því sem allir guðir ættu að átta sig á: guðdómlegu valdi fylgir guðdómleg ábyrgð, nokkurs konar ofurmiðstýring alls. Slíkt vald mun aldrei gera annað en að spilla fyrir. Eina lausnin er að taka valdið út úr myndinni.
Ef ég væri guð í einn dag væri ég væntanlega almáttugur, eilífur og ódauðlegur. En getur almáttugur, ódauðlegur guð tekið sjálfan sig út úr myndinni?
Ef ég væri guð í einn dag myndi ég tortíma sjálfum mér. Ein stór sprenging. Miklihvellur, kannski?
Ljósmynd Nasa.