Ojbara. Ég get bara sagt ojbara yfir veðrinu. Ég er jólabarn. Fædd um miðjan desember og byrja að undirbúa jólin í október með því að hlusta á jólalög og laumast til að setja upp eitthvað jólalegt án þess að eiginmaðurinn taki eftir. Já ég elska snjó í desember og kósíheit. Ég elska ekki snjó í febrúar. Ég elska ekki storm í febrúar. Í dag er ég búin að vera föst heima í næstum viku með veik börn. Ég fór út úr húsi á föstudaginn til að fara í búð. That’s it. Eina fullorðna manneskjan sem ég tala við og hitti er maðurinn minn þegar hann kemur inn um hálf sjö á kvöldin. Þangað til er það krakkastöðin og dúkkó og lego með krökkunum.
Ef ég fengi að ráða væri ég flutt til Ítalíu, helst sunnarlega, nálægt Napolí og væri með minn eigin vínakur. Ég sé fyrir mér að vera með fjölskylduna hjá mér og foreldra okkar hjóna og jafnvel systkini. Á daginn erum við að vinna öll saman úti. Eldum góðan ítalskan mat og allir eiga góða stund. Æi, þið vitið, alveg eins og í auglýsingunni sem maður sá alltaf í sjónvarpinu. Man ekki hvort það var smjör eða ólífuolía.
En þar sem ég kemst ekki til Ítalíu (er samt að íhuga að reyna að selja manninum mínum þessa hugmynd) þá verð ég að láta mér nægja að hita mig upp í kuldanum hér heima. Þá má alveg fá sér heitt kakó. Heitt kakó er ekki bara í desember.
Heitt kakó fyrir tvo
-300 ml rjómi
-250 ml vatn
-1 msk. ósykrað kakó
-2 msk. sukrin
-örlítið af kanil
Setjið allt í pott og hitið upp á miðlungshita. Auðvitað er best að bera fram með þeyttum rjóma og jafnvel smá af sykurlausu súkkulaði eða karamellu-sírópi.