Sóldís Birta Reynisdottir skrifaði grein sem hún bað um að birt yrði í Kvennablaðinu.
Mikið rosalega langar mig að segja ykkur hvað mér liggur á hjarta. Amma mín er því miður komin á dvalarheimili. Frábært starf sem þarna fer fram að sjálfsögðu og yndislegt starfsfólk. En það er bara eitt sem brennur á mér og ég vildi óska þess að ég gæti gert eitthvað í því. Það er það, að ekki er hægt að hugsa um fólkið sem þarna býr eins og það á skilið. Það eru ekki til peningar til að veita fólkinu sem kom okkur þangað sem við erum þó komin, mannsæmandi umönnun.
Amma þarf að deila herbergi með annari konu, fær að fara í sturtu einu sinni í viku á föstudögum. Viljum við í alvöru hafa það þannig að það sé betri aðstaða í fangelsum en á elli- og dvalarheimilum?
Hvað hefur amma mín gert til að verðskulda þetta?
En svo ef við breytum rangt í lífinu, gerum eitthvað á hlut annarra, stelum, nauðgum, berjum eða jafnvel drepum, bíður okkar lúxus herbergi með með salerni, sturtu og sjónvarpi. Á staðnum er einnig aðgangur að síma, nettengingu, líkamsrækt og fleira.
Er það til dæmis rétt að hvítflibbaglæpamenn dvelja í einbýlishúsi með öllu tilheyrandi? Ég hef heyrt það en vil ekki trúa því. Hvað með ykkur? Ekki misskilja mig, ég vil ekki að fangar fái bara vatn og brauð í hvert mál. Alls ekki.
En er ekki rétt að við tökum ákvörðun um að byrja á því að útrýma biðlistum aldraðra eftir dvalarstað og byggjum síðar lúxusfangelsi fyrir glæpamenn? Leysa fangavandamál á ódýrari máta?
Er lausnin kannski sú að setja gamla fólkið í fangelsi? Þar fengi það aðgang að baði, heilsurækt og nettengingu. Það væri ekki stolið af þeim og þau fengju greitt í stað þess að greiða fyrir vistunina.
Í lokin langar mig að birta ljóð sem ég orti til ömmu minnar sem dvelur nú á elliheimili og þar lýsi ég því hvernig upplifun mín er á því að eiga ömmu á stofnun.
Þakklæti.
Ég ólst upp í faðmi ykkar afi og amma,
voruð mér líka pabbi og mamma.
Þið frædduð og kennduð mér lífsins sögur,
að elska og yrkja allskonar bögur.
Í sveitina fór með þeim aftur og aftur,
þá jókst mín gleði og lífsins kraftur.
Þar nutum við þess, þar var gott og gaman,
Sóldís, afi og amma saman.
Svo liðu árin ég stækkaði óðum,
þau laumuðu að mér ráðum góðum.
Um lífsins göngu hér og nú,
það gerðu þau með ást og trú.
Nú amma er farin héðan að heiman,
afi varð eftir hún bað okkur að geymann.
Hugga og styrkja og vera honum góð,
svo fór þessi elska kyrrlát og hljóð.
Nú hvílir hún lúin á heimili nýju,
og nýtur af öðrum þar ást og hlýju.
Ég heimsæki hana enn og aftur,
og sé að nú þverr hennar lífins kraftur.
Ég skil það nú minn auður var mikill,
að hafa þau hjá mér er hamingjulykill.
Ég þakka ykkur afi og amma á ný,
alla þá ást og hvað voruð mér hlý.
Ég vona að lengi ég hafi þau bæði,
því amma og afi eru algjört æði